Fara í efni

Það er engin skýring nógu góð

Ávarp á Friðarsamverustund í Fríkirkjunni í Reykjavík 11.apríl.   
Farísear spurðu hann, hvenær Guðs ríki kæmi. Hann svaraði þeim: "Guðs ríki kemur ekki þannig, að á því beri. 21Ekki munu menn segja: Sjá, þar er það eða hér er það, því Guðs ríki er innra með yður." (Lúkas 17. kap. 20-21)

Þegar maður horfir á lítið barn sem liggur milli heims og helju, ef til vill búið að missa útlimi eða sjón, vegna hamfara; hamfara sem eru af mannavöldum, þá reisir maður sjónir upp til himinsins og spyr: Hvers vegna? En vel er maður vitandi að engin skýring er nógu góð.

Við viljum stöðva ofbeldi og hörmungar, en þurfum við að fórna þessu litla barni fyrir frelsun heimsins? Frelsar þetta litla barn heiminn?

En spurningin er röng. Það þarf ekki að fórna litlum börnum. Það er blekking og það er sú blekking sem vann enn einn sigurinn í Bagdad í fyrradag. Á hverjum degi fórnum við litlum börnum, við horfum til hliðar og víkjum úr vegi til þess að við sjáum ekki hörmungar vannærðra barna þriðja heimsins og þess vegna komumst við hjá því að spyrja: Hvers vegna? Við vitum að  engin skýring er nógu góð.

Á fimm mínútna fresti verður eitt lítið barn blint vegna vannæringar og hundrað börn deyja – 35 þúsund börn á degi hverjum. Engin ályktun Öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna bannar það. Hver treystir sér til að spyrja hvers vegna?

Stórveldi heimsins setja sig í hlutverk almættisins þegar þau vega eitt líf á móti öðru. Við fórnum litlum börnum til að bjarga ennþá fleiri börnum segja þau. Þess vegna förum við í stríð. Og á meðan við ræðum málið, hér og nú, þá deyja lítil börn án þess að spurt sé, hvers vegna. Getur verið að stórveldi heimsins vilji ekki heyra svarið.

En þau verða að heyra svarið; við verðum öll að heyra svarið og við verðum að horfast í augu við það og þann veruleika sem það lýsir. Við verðum að setja baráttu gegn kúgun, fátækt og ójöfnuði efst á listann. Og það er ekki nóg að setja þá baráttu næst efst, hún verður að vera allra efst og við megum ekki una okkur hvíldar fyrr en sigur vinnst.

Hver er þess umkominn  að vega og meta hvaða barn skuli frelsa heiminn með sakleysi sínu? Aðeins sigur í baráttu gegn fátækt og ójöfnuði frelsar okkur frá stríði.

Í tímans rás hafa trúarbrögð og heimspeki tekist á við siðleysi stríðsherranna. Þannig voru færðar í búning siðfræði og spakmæla svör kalífa sem ríkti yfir stórveldi muslíma snemma á áttundu öld, eina heimsveldi þess tíma. Hann bjó í Damskus, eða var það ef til vill Bagdad? Sagan segir að einn af landstjórum Omars Ibn Abdel-Aziz en svo hét kalífinn hafi sent honum beiðni um stuðning til að bæta varnir sínar. Það væri órói í landinu og til varnar höllinni þyrfti að efla borgarmúrana. Ómar hafnaði beiðninni og sagði að landstjórinn skyldi efla réttlætið, bæta stjórnarhættina og opna múrana. Réttlætið væri besta vörnin. Hugsjón kalífans Ómars var að reisa stórveldi sitt á góðu siðferði. Þessi afstaða ætti að vera stórveldum á öllum tímum  til eftirbreytni.

Svipaðan boðskap er að finna í fornum orðskviðum frá forverum kristinna manna í Austurlöndum nær. Þar segir einhvers staðar á þá leið að menn skuli reisa sér varnarmúra með því að innræta andstæðingum sínum velvild. Í Davíðssálmum er óvinurinn afvopnaður með því að uppræta hefnigirnina:

....
Af munni barna og
brjóstmylkinga hefur
þú gjört þér vígi
til varnar gegn óvinum
þínum,
til þess að þagga niður í
hefndargirni óvinarins. 

Að breyta heiminum með velvildina að vopni kallar á þrautseigju. Kirkjunnar menn í Suður-Afríku með Desmond Tutu í broddi fylkingar kunnu þá list öllum öðrum fremur í baráttunni við formælendur kynþáttastefnunnar í SuðurAfríku. 

Og hér uppi á Íslandi hafa jafnan verið til talsmenn velvildar og þrautseigju.

Snemma á síðustu öld kom út lítið rit sem heitir Skriftamál einsetumannsins. Það er eftir Sigurjón Friðjónsson en hann var uppi 1867-1950 og bjó að Litlulaugum í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann var heimspekilega þenkjandi, greinlega trúhneigður en lítið gefinn fyrir hina veraldlegu umgjörð trúarinnar. Hann sat á þingi 1918 til 1922 og lét að sér kveða í félagsmálum auk þess sem hann var þekktur fyrir skáldskap sinn. Eftirfarandi texti fjallar um velvildina og hverju hún fær áorkað ef að baki henni býr þolinmæði og staðfesta: " Sólin vinnur ekki á ísunum, þegar hún byrjar að hækka á lofti. En þó fer svo að lokum, að þeir renna og verða að lífslindum sumarblómans. Líkt er því varið með kærleikann og mannssál, sem bundin er í klaka blindrar eigingirni. Stöðugir velvildargeislar vinna á þeim klaka að lokum og kenna manninum hvað lífið í fyllingu sinni er......."

Ég veit að við getum unnið sigur án mannfórna. En við getum það ekki ef við trúum því ekki. Við þurfum að sannfæra okkur sjálf, við þurfum að sannfæra alla sem við þekkjum, við þurfum að sannfæra allan heiminn. Við verðum að berjast og berjast til þrautar. Því þegar litla barnið spyr okkur, af hverju þarf ég að deyja fyrir ykkur, þá er engin skýring nógu góð.