Fara í efni

ÞAÐ Á HELST EKKI AÐ LOKA FÓLK INNI

Vernd - 2016 -small
Vernd - 2016 -small


Í nýjautu útgáfu Verndarblaðsis, sem félagasamtökin Vernd gefa út, birtist grein eftir mig sem ber sömu fyrirsögn og þessi pistill. Ég færi rök fyrir því að refsidómar yfir fólki eigi að byggjast á uppbyggilegum forsendum og eigi ekki undir neinum kringumstæðum að mótast af hefnigirni af neinu tagi. Siðað réttarríki byggi meðal annars á því að sækjast eftir réttlæti en ekki hefnd, svo vitnað sé í titil frægrar bókar. Í greininni vík ég að breytingum sem gerðar voru á lögum um fullnustu dóma í tíð minni sem innanríkisráðherra á síðasta kjötrtímabili og má þar nefna rafrænt efirlit og aukna áherslu á samfélagsþjónustu.

Greinin er hér að neðan: 

Hvernig skyldi standa á því að fjöldi fanga á Íslandi hefur verið hlutfallslega minni hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum? Vangaveltur um þetta efni, ásamt margvíslegum upplýsingum, er að finna í greinargerð með lagafrumvarpi sem ég lagði fram og fékkst samþykkt á Alþingi á árinu 2011. Frumvarpið sem hér um ræðir kvað meðal annars á um að rýmka fyrir því að einstaklingar sem hlotið hefðu refsidóma gætu fullnustað refsingu sína utan fangelsismúra í ríkari mæli en áður hafði verið.

Rafrænt eftirlit var byltingarkennd breyting

Alþingi vildi reyndar ekki ganga eins langt og ég lagði til í frumvarpinu, og þrengdi þingið í meðförum sínum möguleika fanga til afplána allt að 12 mánaða fangelsisdóm með samfélagsþjónustu niður í 9 mánaða fangelsisdóm.  Mest um vert var að Alþingi samþykkti þó rýmkun á samfélagsþjónustu úr 6 mánaða fangelsi yfir í 9 mánaða fangelsi og að föngum með 12 mánaða fangelsisdóma eða meira yrði gert kleift að ljúka afplánun heima hjá sér undir rafrænu eftirliti.  Þessi breyting hafði í för með sér að fangar fara fyrr á áfangaheimili og fyrr út í samfélagið með skert ferðafrelsi en áður var þekkt. Þrátt fyrir þær takmarkanir Alþingis á samfélagsþjónustu var hér engu að síður um að ræða mikilvæga rýmkun  á fullnustu utan fangelsa. Rafræna eftrirlið var mikilvægt nýmæli sem þarna kemur inn  í íslenska löggjöf og að mínu mati byltingarkennd breytring. Rétt er að geta þess að Alþingi samþykkti nýverið ný lög um fullnustu refsinga og tóku þau gildi þann 23. mars sl.  Í lögunum hefur samfélagsþjónusta verið rýmkuð upp í 12 mánuði eins og ég lagði upp með á sínum tíma og rafrænt eftirlit rýmkað frekar sem bendir til þess að talið sé að rafrænt eftirlit sé að virka til góðs fyrir fanga og kerfið í heild sinni.

Færri fangar hér en á Norðurlöndum

Og þá aftur að upphaflegu spurningunni. Ástæðan fyrir því að fangar eru hér færri en annars staðar á Norðurlöndum er m.a. beiting skilorðsbundinna dóma og þá einnig fullnusta refsinga utan fangelsa. Þegar að er gáð kemur í ljós að góður árangur hefur hlotist af fullnustu refsinga með samfélagsþjónustu, en um 22% óskilorðsbundinna refsidóma eru fullnustaðir með þeim hætti hér á landi. Þá hefur dómþolum verið heimilað að afplána refsingu sína á ýmsum meðferðarstofnunum í meira mæli en í nágrannalöndum okkar. Síðast en ekki síst hefur Áfangaheimili Verndar haft mikla þýðingu. Sá tími sem fangar geta dvalið þar í lok afplánunar hefur verið lengdur verulega og er nú að hámarki eitt ár þegar um lengri refsingu er að ræða (10 ár eða lengri). Á undanförnum árum hefur úrræðum utan fangelsa, svo sem rafrænu eftirliti, hins vegar fjölgað í meira mæli á Norðurlöndunum en hér á landi, en óheppilegt væri að mínu mati ef Ísland kæmi til með að dragast aftur úr í þeirri þróun.

Afplánun verði uppbyggileg

Hvers vegna? Kemur þar að fyrirsögn þessarar greinar. Ég er þeirrar skoðunar að refsidómar yfir fólki eigi almennt að byggjast á uppbyggilegum forsendum og eigi ekki undir neinum kringumstæðum að mótast af hefnigirni af neinu tagi. Siðað réttarríki byggir meðal annars á því að sækjast eftir réttlæti en ekki hefnd, svo vitnað sé í titil frægrar bókar.
Með þessa hugsun að leiðarljósi reisum við fangelsi sem bjóða upp á eins gott mannlíf og nokkur kostur er, miðað við þá nöturlegu staðreynd að þar er fólki, sem svipt hefur verið frelsi sínu, haldið innilæstu. Nýja fangelsið á Hólmsheiði á að geta orðið til fyrirmyndar hvað snertir alla aðstöðu og er það góð tilhugsun.
Nýtt fangelsi á Hólmsheiði gerði það yfirleitt kleift að loka kvennafangelsinu í Kópavogi, að ekki sé minnst á Hegningarhúsið við Skólavörðustíg í Reykjavík. Langt er síðan það hætti að standast lágmarkskröfur. Enda þótt húsið eigi sér langa og gagnmerka sögu, sé vönduð og góð bygging þá er það engu að síður fyrir löngu orðinn svartur blettur á réttarkerfi okkar.
Þótt nýtt fangelsi á Hólmsheiði komi til sögunnar verður Litla Hraun eftir sem áður þungamiðjan í íslenska fangelsiskerfinu. Þar þarf að stórbæta alla aðstöðu. Á Litla Hrauni hefur reyndar verið unnið mikið og merkilegt innra uppbyggingarstarf á undanförnum árum, meðal annars með því að opna föngum leiðir til menntunar og þá eflaust í mörgum tilvikum betra lífs þegar refsingu lýkur.

Skref stigin fram á við

Allt horfir þetta til framfara í þróun íslenska fangelsa. En það er út fyrir múrana sem ég vil ekki síst beina sjónum. Ég tel að samfélagsþjónusta og rafrænt eftirlit eigi eftir að færast verulega í aukana á komandi tíð enda segir reynslan okkur að því fylgi árangur sem áður segir. Fangelsisyfirvöld hér á landi leggja vissulega áherslu á að aukið verði við fangelsispláss í landinu, en að sama skapi telja yfirvöldin þörf á að fjölga fullnustuúrræðum utan fangelsa. Í nýlegri samnorrænni rannsókn um ítrekunartíðni afbrota kemur glöggt í ljós að þessi nýju refsiúrræði skila mun betri árangri og eru einnig miklu ódýrari heldur en hefðbundin refsivist í fangelsi.
Þá er það þekkt að löng afplánun í fangelsi getur haft í för með sér ýmsar neikvæðar afleiðingar fyrir fanga, svo sem þunglyndi og vonleysi.

Fanginn er ekki einn

Einnig getur slík frelsissvipting haft mikil áhrif á nánustu aðstandendur fanga. Það hlýtur að eiga að felast í stefnu okkar í fangelsismálum,  og þar af leiðandi að vera eitt af meginhlutverkum fangelsisyfirvalda, að sporna eftir megni gegn slíkum neikvæðum og óæskilegum afleiðingum. Í lögum um fullnustu refsinga er kveðið á um ýmis úrræði í því skyni að lágmarka slæm heilsufarsleg og félagsleg áhrif, svo sem vinnu utan fangelsis, dagsleyfi og afplánun utan fangelsis í lok refsitímans.
Það væri í mínum huga undarlegt markmið að vilja loka sem flesta inni. Það á þvert á móti að vera markmið að loka sem fæsta inni og helst ekki nema þá sem eru sjálfum sér eða öðru fólki hættulegir.
Á þessari grundvallarreglu á að byggja.
Vissulega eru til einstaklingar sem eru ekki sjálfráðir gerða sinna. Þeir eiga, og sennilega oftar en við ætlum, fremur heima á meðferðarstofnunum af einhverju tagi en í fangelsum þar sem þeir eiga mjög takmarkaðan kost á þeirri umönnun og meðferð sem þeir þyrftu á að halda.

Eigum mikið ólært

Ég hef grun um að raunin sé sú að við eigum eftir að læra mikið um okkur sjálf; að margt ámælisvert eða hreinlega slæmt og varasamt, jafnvel vont og glæpsamlegt í hegðun fólks megi laga með skilningi á rót þessarar hegðunar.
Refsivert athæfi er af ýmsu tagi. Við eigum að forðast alhæfingar um fólk sem dæmt er til refsingar. Margbreytileikinn er mikill í þessari sem annarri mannlegri flóru. Að sama skapi eiga úrræðin að vera margbreytileg. Það segir sig sjálft.