Fara í efni

Það á ekki að eiga sér stað að efnalítið fólk sé borið út

Birtist í Morgunblaðinu 09.09.04.
Síðastliðinn mánudag skrifaði ég stutta grein hér í Morgunblaðið þar sem ég beindi spurningum til yfirvalda í Reykjavík, í fyrsta lagi hversu oft það tíðkaðist að fólk væri borið út úr íbúðarhúsnæði í eigu borgarinnar, í öðru lagi hvern skilning borgaryfirvöld legðu í 5. grein húsnæðislaga þar sem skyldur sveitarfélaga í húsnæðismálum eru skilgreindar og í þriðja lagi hvort það tíðkaðist að loka fyrir hita og rafmagn hjá efnalitlu fólki í vanskilum og hvort slíkt væri gert í samráði við félagsmálayfirvöld. Við þessu brást formaður félagsmálaráðs, Björk Vilhelmsdóttir að bragði og svaraði hún spurningum mínum í Morgunblaðinu sl. þriðjudag. Björk segir borgina tilbúna að semja við fólk um húsaleiguskuldir "og ganga yfirleitt mjög langt í að koma til móts við þarfir fólks." Ekki véfengi ég þetta. Engu að síður hefur fjórum sinnum á þessu ári komið til þess að fólk er borið út úr íbúðarhúsnæði í eigu borgarinnar. Í þeim hópi er væntanlega sá maður sem varð tilefni skrifa minna. Í formála að spurningum mínum til yfirvalda í Reykjavík sagði eftirfarandi: "Síðastliðinn föstudag var krabbameinssjúkur öryrki borinn út með lögregluvaldi úr leiguhúsnæði í eigu Reykjavíkurborgar eftir langvarandi vanskil á greiðslum. Viku fyrr hafði formlega verið farið fram á að útburði yrði frestað um nokkra mánuði á meðan ástand mannsins yrði kannað betur og leitað lausna. Fallist var á að fresta útburði um eina viku svo trúnaðarlækni borgarinnar gæfist færi á að skila greinargerð um málið. Engu að síður voru, áður en læknisrannsókn fór fram, gerðir út af örkinni menn til að loka fyrir rafmagn í íbúð mannsins. Af hálfu borgarinnar hefur enginn grennslast fyrir um afdrif þessa einstaklings eftir að hann var rekinn á dyr".

Um þessa stuttu greinargerð mína segir formaður félagsmálaráðs: "Ýmsar rangfærslur komu fram í formála þingmannsins að spurningum sem ekki er tök á að svara enda undirrituð bundin trúnaði um málefni einstaklinga."  Ekki veit ég hvað formaður félagsmálaráðs á hér við. Í fyrsta lagi vísa ég í lögregluvald. Eftir því sem ég veit best komu fulltrúar sýslumannsembættisins til að sjá til þess að dómsúrskurði um útburð yrði framfylgt. Síðan vísa ég í erindi sem ég sjálfur sendi borginni og þekki því frá fyrstu hendi. Í þriðja lagi er vísað í veikindi einstaklingsins en upplýsingar mínar um það efni hef ég frá lækni sem rannsakað hefur manninn. Í fjórða lagi segir að menn hafi komið á vettvang til að loka fyrir rafmagn þegar viku frestur var veittur á útburði á meðan trúnaðarlæknir borgarinnar fjallaði um málið. Í fimmta lagi hafði enginn grennslast fyrir um manninn þegar grein mín var skrifuð. Ekki veit ég betur en allt þetta sé satt og rétt.

Síðan hafa vissulega ýmsir hlutir gerst. Mér er kunnugt um að fulltrúi félagsþjónustunnar hefur haft samband við umræddan einstakling og svo öllu sé til haga haldið hafði framkvæmdastjóri Félagsíbúða samband við mig til að segja að hann teldi að réttu máli hafi verið hallað þegar talað hafi verið um útburð með lögregluvaldi. Fulltrúar sýslumannsembættisins hafi fyrst og fremst verið að gæta hagsmuna einstaklingsins sem í hlut átti. Ekki veit ég hvernig á að skilgreina slíka hagsmunagæslu því þegar maðurinn kom heim til sín hafði íbúðin verið brotin upp, hún tæmd og búslóð hans komin út á gangstétt!

Í svari sínu segir formaður Félagsmálaráðs að mikilvægt sé að jafnræðis sé gætt: "Reykjavíkurborg gætir þess að vinna samkvæmt settum reglum til að gæta fyllsta jafnræðis sem þýðir að fólk sem býr við svipaðar aðstæður á rétt á sambærilegri málsmeðferð. Ekki er hægt að gera undantekningu frá greiðslu lágrar leigu á meðan aðrir í svipaðri stöðu eða enn verri standa skil á sínu. Ef slíkt væri misnotað værum við farin að misnota kerfið og komin út í gamaldags fyrirgreiðslupólitík sem á engan rétt á sér."

Því fer fjarri að ég sé talsmaður þess, sem hér er kallað “fyrirgreiðslupólitík”. Ég er hins vegar talsmaður þess að velferðarþjónustan þjóni þeim tilgangi, sem við ætlumst til af henni og að samfélagið ræki þær skyldur, sem það sjálft hefur undirgengist bæði í lögum og pólitískum heitstrengingum. Þótt menn hafni fyrirgreiðslupólitík svokallaðri og vilji að réttlæti ríki í kerfinu, skyldu menn engu að síður fara varlega í að alhæfa um aðstæður og þarfir einstaklinga.

Fram hefur komið að fjórir einstaklingar eða fjölskyldur hafa  verið bornar út það sem af er árinu. Þetta þykja mér alvarleg tíðindi. Útburður úr húsnæði á vegum borgarinnar á ekki að eiga sér stað en lágmarkskrafa hlýtur að vera að fólki, sem er þvingað út úr húsnæði sínu, sé boðið upp á önnur úrræði. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að stundum getur verið úr vöndu að ráða fyrir félagsþjónustuna en að bera heimili fólks út á götu er hins vegar uppgjöf og ekki kostur sem forsvaranlegt er að sætta sig við.

Félagsþjónustan í Reykjavík er að sönnu öflug og gerir marga hluti mjög vel. Varla er hún þó hafin yfir gagnrýni. Að sjálfsögðu ekki. Það er henni meira að segja lífsnauðsyn að hafa aðhald og það er okkar allra að veita það aðhald. Ég efast ekki um góðan hug starfsfólks félagsþjónustunnar, Félagsíbúða hf eða þeirra stjórnmálamanna sem stýra þessum málum hjá borginni. Upp koma þó tilvik þar sem velferðarþjónustan bregst. Það hefur að mínu mati gerst í þessu máli en með því hef ég fylgst um nokkurt skeið. Þegar svo er komið að lokað er fyrir rafmagn hjá efnalitlu fólkið og það síðan borið út með valdi þá verða menn að geta tekið því að slíkum aðförum sé mótmælt.