Fara í efni

TEKIÐ UNDIR BÓKUN BJARKA Í MOSFELLSBÆ

VG LOG
VG LOG

Alltaf hef ég vitað að bæjarfulltrúar VG í Mosfellsbæ eru eindregnir stuðningsmenn almannarekinnar heilbrigðisþjónustu. Mér brá því sannast sagna í brún þegar því var slegið upp í fjölmiðlum að þeir væru orðnir sérstakir stuðningsmenn einkasjúkrahúsa! 

Var samið vel eða illa?

Ég fór því að skoða málið, hafði samband við félaga mína í Mosfellsbæ sem hvöttu mig til að fara í gegnum bókanir bæjarfulltrúa. Við þann lestur sannfærðist ég um að fyrst og fremst var þráttað um það hvort samningur við bissnissfyrirtæki, sem vill reisa einkasjúkrahús í Mosfellsbæ, hafi verið góður eða slæmur; með öðrum orðum hvort hagsmuna íbúanna hefði verið gætt eða þeir fyrir borð bornir við samningsgerðina. Fulltrúar VG töldu að passað hefði verið upp á hag íbúanna. Ekki kann ég sjálfur að leggja mat á efnisatriði samningsins en tel að hann beri að skoða heildstætt og í samfélagslegu ljósi.

Vaxandi efasemdir og hvatning til Alþingis

Undir slík sjónarmið hefur bæjarfulltrúinn Bjarki Bjarnason tekið opinberlega og lýst efasemdum sínum um einkarekin sjúkrahús. Segir hann í bókun í bæjarstjórn Mosfellsbæjar að efasemdir sínar hafi farið vaxandi og hvetur hann löggjafann til að hyggja að endurskoðun laga þannig að almannahags sé gætt. Vill hann að í landslögum verði reistar skorður við því að hér verði til tvöfalt heilbrigðiskerfi.
Í bókun sinni segir Bjarki: Í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur á síðustu vikum um málið hef ég fyllst efasemdum um það hvort núgildandi lög standi nægjanlega vel vörð um íslenskt heilbrigðiskerfi. Mikilvægt er í mínum huga að hér þróist ekki tvöfalt heilbrigðiskerfi og íslensku heilbrigðiskerfi stafi ekki ógn af starfsemi sem þessari."

 

Bjarki hvetur þingið, ég hvet sveitarstjórnarmenn

Undir þessi orð Bjarka Bjarnasonar vil ég taka. Þingmenn hafa greinilega verið sofandi á verðinum og hljótum við öll sem sitjum á Alþingi að taka þessi orð til okkar. En um leið og ég tek undir þessa hvatningu til Alþingis hlýt ég að segja að það hljóti að orka mjög tvímælis yfirleitt að semja við fjárfesta um einkasjúkrahús. Leyfi ég mér að hvetja Mosfellsbæ sem og öll sveitarfélög að gjalda varhug við slíku.

Að njóta sannmælis

Þá er ekki úr vegi að hvetja fjölmiðla í fréttaflutningi af þessum málum að grafast fyrir um raunverulegan vilja stjórnmálamanna og forðast að túlka þá inn í öngstræti sem þeir aldrei vildu inn í. Félagslega sinnað fólk vill ekki sjá tvöfalt heilbrigðiskerfi þróast í landinu og það á við um fulltrúa Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Mosfellsbæ sem annars staðar. Vonandi fá þeir að njóta sannmælis.