Fara í efni

Tekið ofan fyrir Morgunblaðinu

Ég mun aldrei gleyma yfirlýsingu eins gamals frænda míns þegar hann lá banaleguna. Hann hafði verið mjög rauður í pólitík. Alla ævi hafði Mogginn verið hans höfuðandstæðingur í stjórnmálum og enn leit hann á að svo væri. En rámri röddu hvíslaði hann í eyra mér – vitandi að þar var á ferðinni pólitískur samherji – "ég held Ögmundur minn að ég sé búinn að gútera Morgunblaðið; ekki að ég sé sammála Mogganum í pólitíkinni, heldur vegna hins, að hann er náttúrulega íslenskt stórveldi, sem færir okkur heimsmenninguna og þess vegna einnig frásögn úr okkar eigin menningarheimi betur og á skilmerkilegri hátt en nokkur annar fjölmiðill í landinu gerir. Þetta verðum við að bekenna og gefa Mogga kredit fyrir."
Mér var ekkert um þetta hrós í garð Mogga gefið, enda þá enn fullur fordóma gamallar arfleifðar – en ekki gat ég mótmælt. Innra með mér varð ég að viðurkenna að nokkuð hafði frændi minn til síns máls.
Mér kom þetta í hug þegar ég fletti Morgunblaðinu um helgina því það má  blaðið eiga að það býður upp á vandaðra efni en flestir aðrir fjölmiðlar gera.
Í Lesbókinni og á öðrum síöum Morgunblaðisins um helgina voru fróðlegar og skemmtilegar greinar um tónlist, bókmenntir, heimspeki og sögu. Við fengum að kynnast "Heimi rúnanna" , Arnold Schönberg, Shostakovitsj, hinum nýja Nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum og þannig má áfram telja. Morgunblaðið lét ekki nægja að segja frá heimsókn landstjóra Kanada. Við fengum einnig að kynnast eiginmanni landstjórans, John Ralston Saul. Hann er rithöfundur og aktívur þátttakandi í heimspekiumræðu samtímans. Í ágætu viðtali sem Kristján G. Arngrímsson átti við hann,  komu fram umhugsunarverðar vangaveltur.
Fram kom að John Ralston Saul er maður tilfinninganna. Skynsemin skiptir máli og er mikilvægur eiginleiki en í samanburði við aðra eiginleika þá "skiptir hún ekki meira máli en hinir, en heldur ekki minna máli." John Ralston Saul segir að fyrir tíu árum hafi þetta ekki þótt góð kenning. Hann hafi hins vegar fært rök fyrir sínu máli: "Ég benti á að, að skynsemin hefði leitt til helfararinnar, vopnakapphlaupsins og fráleitra hagfræðikenninga. Ef það er þetta sem skynsemin leiðir til, þá er ég tilbúinn að prófa eitthvað sem er svolítið örðuvísi."
Að mörgu leyti finnst mér sú hugsun góð að gera ímyndunaraflinu hátt undir höfði. Ímyndunaraflið greiðir fyrir nýsköpun og framförum. Ekki vil ég þó gera lítið út viðleitni til að virkja rökræna hugsun, draga lærdóma af reynslunni og smíða framtíðina með hjálp skynseminnar. Okkur ber vissulega að virkja ímyndunaraflið í þeirri smíði. En við megum aldrei gera lítið úr tilraunum okkar til að hugsa rökrétt. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að pólitískir ídeólógar hafi oft leiðst út á hálar brautir þegar þeir hafa freistast til að að varpa reynsluvísindum og þar með skynseminni fyrir róða.
Ein af mörgum greinum sem ég staldraði við í Morgunblaðinu um helgina var fjörug grein Atla Harðarsonar um Frjálshyggjuna. Atli virðist mér áhugasamur um að strauja út allar pólitískar átakalínur og í grein sinni giftir hann frjálshyggju og frjálslynda jafnaðrastefnu sem hann kallar svo; svo er að skilja að hann telji þessar stefnur vera af sama meiði og að þær byggi á mjög raunhæfum viðhorfum.  Á móti þessum merkisberum skynsamlegra stjórnmála hafi hins vegar birst ýmsar "óheillakrákur" í tímans rás.
Sennilega er ég í þeim hópi sem Atli skilgreinir sem óheillakrákur. Það skal fúslega viðurkennt að oft sé ég lítinn mun á frjálshyggjuíhaldi og kratísku íhaldi. Horfum til Bretlands! Og með Bretland í huga ætla ég að leyfa mér að beina eftirfarandi spurningu til Atla Harðarsonar:  Ef þú værir ákafur frjálshyggjumaður, myndir þú þá ekki treysta Tony Blair ágætlega fyrir þínum hugsjónum? Og ef sú er raunin, hvar eiga þau okkar þá heima sem hvorugt íhaldið gútera? Varla getum við öll sem erum þessu markinu brennd flokkast sem óheillakákur?