Fara í efni

TEKIÐ Á BANKALEYND OG SKATTASKJÓLUM


Ekki man ég hve oft ég tók það upp á Alþingi að ríkisstjórn bæri að beina sjónum sínum að undanskoti til skattaparadísa svokallaðra, en það hugtak hefur gjarnan verið notað um svæði þar sem auðmenn hafa komið ránsfeng sínum fyrir. Svo steindauð var umræðan að Morgunblaðið birti athugasemdalaust viðhafnarviðtal við bankastjóra Landsbanakans þar sem hann mærði þetta athæfi: „ Bankaleyndin er mikilvæg af mörgum ástæðum. Hún er til dæmis mikilvæg þeim sem vilja halda fjárfestingum sínum og öðrum ákvörðunum fyrir sjálfa sig. Við þekkjum það á Íslandi að margir einstaklingar vilja ekki að aðrir viti eitt eða neitt um þeirra stærri mál, af eðlilegum ástæðum."

Reyndar ekki alveg steindauð

Umræðan var reyndar ekki alveg steindauð því aftur og ítrekað reyndi ég að vekja athygli á ósómanum bæði innan þings og utan, í ræðu og riti. Umrætt viðtal við bankastjórann birti ég til dæmis sem fylgiskjal með þingmáli um þetta efni og vakti sérstaklega athygli á þessum ummælum. Og hvað bankaleyndina áhrærir  flutti ég ítrekað þingmál um afnám hennar. En þar var talað fyrir daufum eyrum. Í þingsal og í fjölmiðlum.
Nú eru hins vegar nýir tímar runnir upp með nýrri ríkisstjórn. Frá henni streyma þingmálin í stríðum straumum. Þau skipta sköpum, ekki vegna fjöldans sem kemur til með að takamarkast af naumum tímaramma fram að kosningum, heldur vegna innihaldsins. Þannig hafa nú verið boðuð þingmál sem beinast að því að stöðva skattaundanskot til frísvæða.
Það bíður svo sagnfræðinga að gaumgæfa þá staðreynd að íslensk stjórnvöld gerðust ekki aðeins sek um aðgerðarleysi  í þessum efnum heldur dældu þau milljónatugum í samstarfsverkefni Verslunarráðsins og viðskiptaráðuneytisins til að reyna að koma á svokölluðu „aflandsvæði" hér á landi til að auðvelda útlendingum skattaundanskot. Þetta stríddi gegn viðleitni OECD sem gekk í gagnstæða átt einsog ég margoft benti á í umræðu á Alþingi.
En það þurfti nýja ríkisstjórn til að eitthvað hreyfðist. Nú liggur mikið við að ekki verði látið staðar numið. Því koma kjósendur til með að ráða í komandi Alþingiskosningum.

Öðru vísi mér áður brá

Annars eru menn víðar en hér á landi að vakna til lífsins. Í október 2008 skipaði Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, vinnuhóp til að fjalla um endurskoðun á eftirliti með fjármálamörkuðum í Evrópusambandinu. Vinnuhópurinn, sem almennt er kenndur við Larosière, formann hópsins, mun skila skýrslu með tillögum sínum til framkvæmdastjórnar ESB í dag, 25. febrúar. Í framhaldinu mun Framkvæmdastjórn ESB fara yfir tillögurnar og síðan leggja fram álit sitt fyrir leiðtogafund ESB, sem fram fer 19.-20. mars nk.. Fróðlegt verður að fylgjast með framgangi málsins. Vestan hafs eru ekki minni fréttir. Þar tala hægri sinnuðustu menn fyrir því að fjármálakerfi Bandaríkjanna verði meira og minna tekið í gjörgæslu ríkisins. Öðru vísi mér áður brá.


Sjá m.a.:
http://www.althingi.is/altext/126/10/l11143151.sgml

http://www.althingi.is/altext/128/03/l06133021.sgml

http://www.althingi.is/dba-bin/unds.pl?txti=/wwwtext/html/126/s/0006.html&leito=aflands%2A%5C0%D6gmundur#word1

http://www.althingi.is/dba-bin/unds.pl?txti=/wwwtext/html/128/12/r10182519.sgml&leito=aflands%2A%5C0%D6gmundur#word1

http://www.althingi.is/dba-bin/unds.pl?txti=/wwwtext/html/126/O5/r10163358.sgml&leito=aflands%2A%5C0%D6gmundur#word1


http://www.althingi.is/dba-bin/unds.pl?txti=/wwwtext/html/126/11/r30213806.sgml&leito=aflands%2A%5C0%D6gmundur#word1