Fara í efni

Tækifæri fyrir skattgreiðendur

Birtist í Mbl
Í leiðara Morgunblaðsins 16. júní er fjallað um lyf og umönnun aldraðra. Fjallað er um aukin umsvif Lyfjaverslunar Íslands í lyfjadreifingu og áform um „…kaup á fyrirtæki, sem stendur að uppbyggingu á einkareknu heimili fyrir aldraða á grundvelli sérstaks samnings þar um við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.“

Hér er vísað í tilraunir eiganda Securitas ehf. til þess að selja Lyfjaverslun Íslands hlut sinn í Öldungi hf. sem á síðasta ári gerði samning við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið um rekstur öldrunarstofnunar að Sóltúni 2 í Reykjavík. Samningur þessi þykir svo gróðavænlegur að Securitas ehf. sem á 85% í Öldungi hf. (15% er í eigu Aðalverktaka hf.) metur hlut sinn á 860 milljónir króna.

Mér er kunnugt um að þetta þykja mikil tíðindi á öðrum öldrunarstofnunum sem reknar eru með tilstuðlan skattborgarans en á miklu krappari kjörum en Öldungi hf er ætlað að gera. Enda var ljóst þegar samningurinn var gerður við Öldung hf. að nú átti að reikna hagnað fyrir fjárfestana inn í greiðslur ríkisins. Menn rak reyndar í rogastans þegar því var hafnað að verða við tilboði Dvalarheimilis aldraðra sjómanna um að reisa viðbyggingu á miklu hagstæðari kjörum en samningurinn við Öldung hf. kvað á um. Nei, nú átti að gera tilraun með gamla fólkið og sjá hvort ekki mætti laða að fjárfesta í gróðavon. Þetta væri nú allt gott og blessað ef þetta kæmi hinum öldruðu til góða og þetta væri skattborgaranum að auki til hagsbóta. En svo er nú aldeilis ekki því samningurinn við Öldung hf. er skattborgaranum miklu dýrari en samsvarandi samningar við allar aðrar stofnanir.

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins grípur til meinhæðni í skrifum sínum. Í niðurlagi fyrrnefnds leiðara segir eftirfarandi: „Með hliðsjón af þeim upplýsingum, sem fram hafa komið um áætlað verðmæti samnings við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið um byggingu og rekstur heimilis sem annast um aldraða hlýtur jafnframt að vakna sú spurning, hvort ekki sé eðlilegt að ríkið selji fyrir töluvert háa fjárhæð leyfi til slíks rekstrar. Valdabaráttan milli hluthafa í Lyfjaverslun Íslands hefur opnað augu manna fyrir því, að í þessum atvinnugreinum kunna að felast tækifæri - ekki bara fyrir hluthafa - heldur líka fyrir skattgreiðendur.“

Þetta er alveg rétt hjá leiðarahöfundi Morgunblaðsins að vert er að hugsa alvarlega um það hvort það gæti reynst tekjuöflunarleið fyrir ríkissjóð að selja aðgang að fjárhirslum ríkisins. Þetta kallar að vísu á nýja hugsun og á henni kunna að vera einhverjir annmarkar. Þannig er ekki víst að þetta muni gagnast öllum skattgreiðendum. Fram hefur komið í umræðunni um þetta tiltekna mál að sá aðili sem vill selja Lyfjaverslun Íslands hlut sinn í undirskrift heilbrigðisráðherra er sagður hafa heimilisfesti á Gíbraltar. Þar er hann væntanlega einnig skattgreiðandi. Þegar allt kemur til alls kann einkavæðing heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi að þjóna skattgreiðendum á Gíbraltar en meiri áhöld eru sennilega um að hún komi íslenskum skattgreiðendum að gagni.