Fara í efni

SÝNUM SAMSTÖÐU GEGN SKEMMDARVERKUM

Birtist í Morgunblaðinu 18.05.05.
Gott var að heyra Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúa, lýsa því yfir fyrir hönd borgaryfirvalda að Reykjavíkurborg myndi standa straum af viðgerðarkostnaði á listaverki Steinunnar Þórarinsdóttur, sem skemmdarverk var unnið á í síðustu viku. Borgarfulltrúinn sagði réttilega að ráðist hefði verið á listaverkið og væri það alvarlegur hlutur. Því er ég sammála. En það eru fleiri sem urðu fyrir árás. Skemmdarverkið er í raun árás á okkur öll, tilræði við friðsama borg. Listaverk Steinunnar Þórarinsdóttur hafa sett skemmtilegan listrænan svip á torgið fyrir framan Hallgrímskirkju frá því það var sett upp í júní í fyrra. Þætti mér fara vel á því að Reykjavíkurborg festi kaup á styttunum þannig að þær yrðu til frambúðar á þessum stað. Listaverkin yrðu auk þess táknræn fyrir samstöðu borgarbúa gegn spellvirkjum. Við eigum ekki að gefast upp gagnvart ofbeldi af þessu tagi. Sýnum vilja okkar í verki á þennan hátt.