Fara í efni

SYNDIR SONANNA TIL SKOÐUNAR Í STRASSBORG

Syndir feðranna koma niður á börnunum segir í málshætti. “Mannréttindadómstóll” Evrópu í Strassborg hefur snúið þessu við. Því nú eru það syndir sonanna sem koma niður á feðrunum.
“Mannréttindadómstóllinn” í Strassborg hefur í seinni tíð gerst iðinn við að ógilda dóma í hvítflibbamálum frá bankahruninu með hjálp formgallalögfræðinnar.

Nýjasta dæminu greinir Fréttablaðið frá á forsíðu 11. júní með hefðbundinni velþóknun. Ríkið hafi náð “dómsátt” við fyrrum forstjóra Kaupþings í Lúxemborg sem íslenskir dómstólar höfðu dæmt sekan fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik á hrunárunum. Samkvæmt dómsáttinni ber ríkinu (skattborgurum) að greiða forstjóranum 2,2 milljónir vegna þeirra ranginda sem hann hafi mátt þola.

Og hvert skyldi ranglætið hafa verið?

Þar kemur að sonunum. Dómararnir sem dæmdu í máli forstjórans áttu nefnilega syni og á þeirri staðreynd byggði “mannréttindadómstóllinn” niðurstöðu sína, eða eins og segir á forsíðu Fréttablaðsins: “… tveir dómarar við Hæstarétt, Ingveldur Einarsdóttir og Þorgeir Örlygsson, hafi verið vanhæf til að fella dóm á mál hans vegna starfa sona þeirra. Sonur Ingveldar var aðstoðarsaksóknari hjá sérstökum saksóknara og sonur Þorgeirs var yfirlögfræðingur hjá slitastjórn Kaupþings. Með dómsáttinni … viðurkennir (ríkið) , með vísan til dóms MDE í Al-Thani málinu, að brotið hafi verið gegn rétti … til réttlátrar málsmeðferðar, en í því máli komst MDE að þeirri niðurstöðu að hæfi dómarans Árna Kolbeinssonar hefði ekki verið hafið yfir vafa en sonur hans starfaði fyrir bankann, bæði fyrir fall hans og eftir að hann varð gjaldþrota.”

Þetta er ágætt til umhugsunar og þá kannski fyrst og fremst hve litla umhugsun mál af þessu tagi vekur. Ekki mikið meira en gerist þegar við tökum hreinan þvott úr þvottavélinni. Hann fór skítugur í vélina en kemur hreinn út. Svosum ekkert skrítið við það ef menn nota rétt þvottaefni og þvottavél sem virkar.