Fara í efni

SVELT OG SELT

Birtist í Morgunblaðinu 28.01.06.
Menn deila um það hvort líklegt sé að það vaki fyrir Sjálfstæðisflokknum að selja Ríkisútvarpið, verði stofnunin gerð að hlutafélagi. Vitnað er í samþykktir Sjálfstæðisflokksins og frumvörp einstakra þingmanna flokksins um sölu á RÚV. Menn minnast allra heitstrenginganna frá árum áður um að ekki stæði til að selja Landssímann þegar Póstur og sími var gerður að hlutafélagi  á sínum tíma, loforða sem öll voru svikin.

Fyrst er svelt

Sjálfur tel ég að ekki vaki fyrir núverandi menntamálaráðherra að selja hlutafélagavætt Ríkisútvarp fremur en að þáverandi samgönguráðherra hafi haft áform um að selja Símann. Ég held hins vegar að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, komi til með að ráða litlu um framvinduna eftir að Ríkisútvarpið hefur verið háeffað; sett í umbúðir söluvarnings og fært upp á einkavæðingarfæribandið. Eftirfarandi hefur þegar átt sér stað og eftirfarandi gæti gerst í framhaldinu:
Fyrst er beitt ströngu fjárhagslegu aðhaldi, stofnunin er svelt þar til starfsfólk fer, upp til hópa, að hallast að því að þörf sé á breytingu, bara einhverri breytingu, allt hljóti að vera betra en óbreytt ástand. Ríkisútvarpið er þegar komið á þetta stig. Langvarandi svelti er þegar farið að segja til sín. Í Morgunblaðinu í mars sl. kom þetta fram:  „… heildartekjur drógust saman um 15% á liðnum áratug… Ríkisútvarpið hefur eftir megni reynt að hagræða í rekstri sínum og t.d. hefur starfsmönnum fækkað verulega undanfarin ár, eða um 15% frá 1996. Það ár voru fastráðnir starfsmenn að meðaltali 378 en voru um 320 á síðasta ári.“

Síðan er selt.

Athygli vakti við fyrstu umræðu um stjórnarfrumvarpið um Ríkisútvarpið hf, að talsmenn stjórnarmeirihlutans töluðu ekki um að treysta fjárhagsgrundvöll Ríkisútvarpsins heldur um hitt að nú styttist í að stofnuninni yrði þröngvað til að haga sér eins og hvert annað fyrirtæki á markaði og þyrfti að skera almennilega niður! Viðvörunarorð Páls Magnússonar, útvarpsstjóra, í Morgunblaðinu 19. janúar sl., höfðu greinilega ekki náð eyrum þessara manna. Þar hafði hann sagt: „Stofnunin hefur verið rekin með miklu tapi mörg undanfarin ár og er nú svo komið að allt eigið fé hennar er upp urið og eiginfjárstaðan orðin neikvæð...Það verður að treysta því að ríkisstjórn - og Alþingi - búi þannig um hnútana við formbreytinguna að hinu nýja félagi verði gert kleift að sinna þeim skyldum og gegna því mikilvæga hlutverki sem því er ætlað.“
Nú er aldeilis ekkert að finna í stjórnarfrumvarpinu, eða í umræðunni um það, sem gefur minnsta tilefni til að ætla að þetta verði gert. Það sem verra er, það hefur ekki kallað á nein viðbrögð hjá útvarpsstjóra, þrátt fyrir sín stóru orð.
Framhaldið virðist nokkuð fyrirsjáanlegt. Eftir að RÚV hefur verið gert að hlutafélagi mun birtast frelsandi engill. Það gæti þess vegna verið Morgunblaðið og samstarfsaðilar þess, sem vildu mynda mótvægi við Stöð tvö. Boðið yrði upp á einhverja milljarða inn í rekstur RÚV hf, að sjálfsögðu gegn eignaraðild. Hver myndi standa gegn tilboði um myndarlega hlutafjáraukningu í RÚV hf? Hver yrði því andvígur að fá aukið fjármagn til að efla og bæta dagskrána? Myndi útvarpsstjórinn fúlsa við slíku? Eða menntamálaráðherrann? Og hvað með okkur hin, væri þetta ekki fjári góð hugmynd? - að öðru leyti en því náttúrlega, að Ríkisútvarpið væri þá hætt að vera Ríkisútvarp – heldur ljósvakadeild Mbl.. Þetta er framtíðarsýn sem við hljótum að þurfa að ræða.