Fara í efni

SVAVARS MINNST

Það var gott og gaman að vera í liði með Svavari Gestssyni. Hann kunni betur en flestir að kveikja eld.

Að sama skapi var það ekkert sérlega gaman að vera á öndverðum meiði við Svavar.
Hvort tveggja hef ég reynt.

Við höfðum þegar talsverð samskipti á árunum í kringum 1980, hann tiltölulega nýkominn á þing og orðinn ráðherra, ég fréttamaður erlendra frétta Sjónvarpsins, sem fylgdist með stjórnmálamönnum frá því sjónarhorni, en í okkar tilviki voru samskiptin þó mest um naflastreng stjórnmála og verkalýðsbaráttu. Ég var snemma á ferli í grasrót þeirrar baráttu. Þarna náðum við vel saman.

Þegar Svavar síðar varð menntamálaráðherra fékk hann mig til að vera fulltrúa sinn í ýmsum nefndum, meðal annars veita formennsku nefnd sem hafði það verkefni að endurskoða lög um Ríkisútvarpið. Nefndin bjó til drög að útvarpslögum sem bæði ég og ráðherrann vorum ánægðir með og beittum okkur sameiginlega fyrir, þótt ekki yrðu þau að  veruleika – illu heilli!

Svavar var einn þeirra sem hvöttu mig til að stíga inn á vettvang stjórnmálanna og áttum við afbragðsgott  samstarf í þingflokki Alþýðubandalags og óháðra.

Deilumál löngu síðar urðu hins vegar til þess að við fjarlægðumst hvor annan. Var svo hin síðari ár.

Svavar Gestsson var áhrifamaður hvar sem hann kom, hreif fólk auðveldlega með sér með eldmóði og krafti.

Ég hef, eins og aðrir landsmenn, fylgst með því hvar hann hefur lagt leið sína í seinni tíð, um gamla átthaga og ættarslóð og víðar, en alls staðar þar sem hann hefur komið við, hefur það leitt til vaxtar og nýjabrums, þeirrar fullvissu að nú sé hægt að gera á gömlum stað eitthvað nýtt, gott og skemmtilegt.
Og vel að merkja það var einmitt þess vegna sem það var gott og gat verið gaman að vera með honum í liði.

Við fréttir af andláti Svavars Gestssonar minnist ég þess góða og skemmtilega í okkar samskiptum. Þar er af nógu að taka.
Samúðarkveðjur til fjölskyldu Svavars og vina.