Fara í efni

SÉRSTAÐA VG Í RVÍK Í 7 LIÐUM

Málefni framboðanna fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor læðast fram í dagsljósið hvert á fætur öðrum. Allir vilja bæta hag aldraðra, styrkja og efla skólana, jafnvel vinna að gjaldfrjálsum leikskóla og jafna aðgengi barna í borginni að íþrótta- og listnámi.

 

Vinstrihreyfingin - grænt framboð virðist ætla að marka sér skýrari sérstöðu en nokkurn óraði fyrir. Þessa sérstöðu má sjá í eftirtöldum atriðum:

 

1. Við viljum marka stefnu í málefnum innflytjenda og þar á meðal

       a. tryggja þeim íslenskukennslu án endurgjalds á vinnutíma

       b. viðurkenna mikilvægi móðurmáls og eigin menningar með þeim úrræðum sem til þarf bæði í leik- og grunnskóla

       c. með því að viðurkenna mikilvægi þátttöku allra í mótun og uppbyggingu samfélagsins, þar á meðal innflytjenda

 

2. Við viljum gjaldfrjálsan grunnskóla og þar með

       a. gera máltíðir í grunnskólum borgarinnar gjaldfrjálsar líkt og gert er bæði í Finnlandi og Svíþjóð, þetta kostar 600 milljónir á ári

       b. horfast í augu við að frístundaheimili skipa mikilvægan sess í daglegu lífi reykvískra barna í 1.-4. bekk og ættu að standa öllum börnum til boða, þetta kostar um 450 milljónir á ári fyrir reykvísk börn

 

3. Við viljum stíga kjarkmikil skref í átt til náttúrulegri borgar með því að

       a. endurheimta SVR og geta þar með þétt leiðakerfið

       b. gera öllum kleift að flokka sorpið heima

       c. draga naglana úr dekkjunum og draga úr svifryki

       d. virða og efla græn svæði, þar á meðal Elliðaárdalinn, Heiðmörkina og ekki síst Viðey sem styrkist og eflist með samhengi í mannlífi og menningu

 

4. Við viljum samfélag fyrir alla og þar með

      a. tryggja aðgengi að öllum opinberum svæðum borgarinnar

      b. tryggja aðgengi að öllum vefsíðum borgarinnar

      c. tryggja táknmálstúlkun á öllum viðburðum borgarinnar

      d. viðurkenna að aðgengi er forsenda þátttöku sem leggur grunninn að lýðræðislegu samfélagi

 

5. Við viljum samfélag kvenfrelsis og jafnra möguleika karla og kvenna, stráka og stelpna með því að

      a. útrýma klámi úr opinberu rými og hafna súlustöðum úr borginni

      b. styrkja frjáls félagasamtök sem starfa í þágu kvenfrelsis og gegn kynbundnu ofbeldi

      c. krefjast jafnréttis stráka og stelpna til íþrótta og tómstunda á vegum borgarinnar

      d. eyða kynbundnum launamun með aðgerðum en ekki yfirlýsingum

      e. hafa sjónarmið beggja kynja ávallt að leiðarljósi

 

6. Við viljum líta á borgina sem samfélag en ekki aðeins fyrirtæki og þar með

     a. standa vörð um Orkuveitu Reykjavíkur og að hún verði áfram í eigu borgarinnar

     b. vera meðvituð um að í sérhvert skipti sem samfélagslegar eigur eru seldar er vald framselt frá almenningi til peningavaldsins

     c. viðurkenna að það er hlutverk samfélagsins að sjá um velferðarþjónustuna og að hún sé veitt á forsendum hvers og eins

 

7. Við viljum skipulag til langrar framtíðar með því að

     a. snúa baki við frímerkjalausnum

     b. leggja til Sundabraut á "ystu leið" í göngum frá Laugarnesi að Gufunesi og lágbrú á Geldinganes og Álfsnes

     c. tengja nýja byggð í Vatnsmýri við miðborg og byggðir sunnan Skerjafjarðar

     d. leggja til að framtíðarstæði innanlandsflugsins verði miðlægt bæði með tilliti til Reykjavíkur og landsbyggðar á Hólmsheiði rétt austan við borgarlandið

     e. jafna forgang samgöngumáta með því að skipuleggja með tilliti til göngu, hjólreiða og almenningssamgangna til jafns við hefðbundna bílaumferð

 

Hér eru einungis talin til þau atriði sem virðast greina okkar framboð frá framboði hinna sem fram eru komin. Það verður sífellt skýrara að Vinstri græn bjóða upp á hreinar línur um allt land og ekki síst í Reykjavík í vor.
Svandís Svavarsdóttir