Fara í efni

SUMIR ERU DÆMDIR TIL AÐ BÚA ÞRÖNGT

Bjorn Bjarna 2
Bjorn Bjarna 2
Björn Bjarnason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, sendir mér pillur á Evrópuvaktinni undir fyrirsögninni:"Ögmundur: Öskur villikattarins breytist í máttlaust væl - lýtur vilja Össurar". Hann lýsir þar því sjónarmiði að hörð gagnrýni mín í garð framkvæmdastjórnar ESB síðustu daga sé ekki marktæk, engin meining að baki, máttlaust væl frá handbendi utanríkisráðherrans! (http://www.evropuvaktin.is/i_pottinum/23207/ )

Ekki innistæða fyrir kokhreystinni

Örstutt söguleg upprifjun er ekki úr vegi. Björn Bjarnason er einn þeirra sem sömdu okkur inn í EES á fyrri hluta tíunda áratugarins og hunsuðu kröfur um að sá samningur yrði áður borinn undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Tugþúsundir höfðu þó óskað eftir því með undirskrift sinni. Sífellt hafa komið betur í ljós brotalamir á þessum samningi, til dæmis hvað varðar landakaup EES borgara á Íslandi. Að auki má náttúrlega ekki gleyma því, að í regluverki EES liggur rótin að okkar vanda, hvað varðar Evrópuvæðingu bankakerfisins og allt regluverkið sem henni  tengdist.
Þannig væri ekki verið að draga íslenska skattgreiðendur fyrir dómstól vegna framkomu þeirra utan Hins evrópska efnahagssvæðis - aðeins innan þess -  ef við ekki hefðum undirgengist EES samninginn. Það er einvörðungu vegna hans sem Bretar og Hollendingar telja sig geta náð á okkur tangarhhaldi. Auðvitað er fráleitt að hengja sök vegna þessa á Björn Bjarnason sérstaklega en kokhreysti hans nú veldur því að vert er að minna hann á pólitíska fortíð og aðkomu hans að EES regluverkinu.

Varað við því að ganga frá samningi

Allar götur frá því Íslendingar sendu inn aðildarumsókn að ESB vorið 2009 hef ég beitt mér fyrir því að viðræðum yrði hraðað svo mikið sem verða má. Á grundvelli efnislegra niðurstaðna yrði málið síðan útkljáð í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta hefur verið mín afstaða og er enn. Ég hef sérstaklega varað við því að ganga endanlega frá samningi líkt og Norðmenn gerðu; samningi sem þeir felldu síðan í þjóðaratkvæðagreiðlu haustið 1994 og fengu í kjölfarið að súpa seyðið af.
Sjálfur var ég á sínum tíma andstæðingur EES samningsins og beitti mér gegn honum. Í því efni vorum við Björn Bjarnason ekki samherjar. Hann vildi með Ísland undir EES samninginn. Þetta er liðin tíð. Skoðanir okkar hafa hins vegar legið saman í andstöðu við inngöngu Íslands í ESB þótt forsendurnar fyrir afstöðu okkar kunni að vera mismunandi.

Eitt er stefnan, annað samskiptin

Framganga framkvæmdastjórnar ESB með því að einhenda sér að baki ESA í lögsókninni gegn Íslendingum hefur vakið hörð viðbrögð. Þar á meðal mín. Ég hef sagt að þetta séu skýr skilaboð sem allir hljóti að taka mið af í uppgjörinu um aðildina að ESB. Það er hins vegar allt annar handleggur hvort Íslendingar reyni með lagatæknilegum aðferðum að koma í veg fyrir þessa framgöngu framkvæmdastjórnar ESB, reyna að meina henni að senda inn stefnu. Það væri fráleitt að mínu mati! Ef tilteknum aðila væri stefnt fyrir hérðasdóm og lagðar fram stefnur á hendur honum þá myndi verjandinn ekki reyna að koma í veg fyrir að hún kæmi fyrir dóminn! Hann myndi svara stefnunni fyrir hérðsdómi eins rökfast og hann gæti. Hvort hinum stefnda hugnast hins vegar að eiga frekari samskipti við stefnandann ef honum væri misboðið, er hins vegar allt önnur saga!

Flokkshagsmunir ofar málstað

Á sama hátt metum við framgöngu framkvæmdastjórnar ESB og þar ættu andstæðingar ESB aðildar að eiga samleið. En ekki Björn Bjarnason. Honum þykir meira um vert að reyna að skapa sundrungu í ríkisstjórninni, gera utanríkisráðherrann og undirritaðan tortryggilega með niðrandi skrifum.
Merkilegt hve þröng flokkspólitísk hugsun getur orðið líffseig í sálarlífi sumra manna. Hún veldur því að í andanum eru þeir alltaf dæmdir til að búa þröngt. Það er dapurlegt hlutskipti.