Fara í efni

Sumargjöf Samlífs

Birtist í Mbl
Inn um bréfalúguna kemur tilboð um hvort ég vilji „…aðstoða einhvern sem mér þykir vænt um við að stíga fyrsta skrefið að mikilvægri tryggingavernd.“ Sendandinn er Sameinaða tryggingafélagið Samlíf. Það ágæta tryggingafyrirtæki kveðst nú bjóða þeim sem átt hafa viðskipti við það „…að gefa einhverjum á aldrinum 22 til 26 ára sjúkdómstryggingu...“ Vátryggingarupphæðin er 2 milljónir króna. En til þess að geta þegið gjöfina þarf viðkomandi að uppfylla skilyrði sem eru eftirfarandi:

 

„Ég reyki ekki.

Ég neyti ekki og hef ekki neytt fíkniefna og hef ekki átt við áfengisvandamál að stríða.

Ég er og hef síðastliðin þrjú ár verið fullkomlega heilsuhraust(ur) og vinnufær og er ekki að bíða niðurstöðu neinna rannsókna varðandi heilsu mína.

Ég hef ekki nú eða áður haft alvarlega sjúkdóma eða sjúkdómseinkenni eins og t.d. hjarta- og æðasjúkdóma, heila- og taugasjúkdóma, krabbamein, sykursýki, MS, MND, HIV-smit, nýrnasjúkdóma, geðsjúkdóma, Parkinsonsjúkdóm eða Alzheimersjúkdóm.

Ekki er mér kunnugt um að foreldrar mínir eða systkini hafi haft alvarlega hjarta- eða æðasjúkdóma, nýrnasjúkdóma, heila- og taugasjúkdóma, sykursýki, brjóstakrabbamein eða maga-/ristilkrabbamein.“

 Eftir að hafa kynnt sér þessa skilmála er hinum væntanlega sumargjafarþega gert að undirrita yfirlýsingu um að rangar upplýsingar um heilsufarið „…geti valdið missi bótaréttar að hluta eða öllu leyti.“

Á Íslandi höfum við verið mjög lánsöm. Við höfum búið við samtryggingarkerfi sem að grunni til er gott. Stoðir þessa kerfis eru almannatryggingar, lífeyrissjóðir og ýmsir þættir velferðarþjónustu og vegur heilbrigðiskerfið þar þyngst. Í lífeyrissjóðunum er ekki spurt um það hvort foreldrar hafi haft heila- eða taugasjúkdóma eða aðra sjúkdóma sem getið er í skilmálum tryggingafélagsins. Inni á heilsugæslustofnunum og á sjúkrahúsum hafa allir þeir sem eru sjúkir eða illa á sig komnir fengið aðhlynningu og lækningu. Ekki hefur verið gerður greinarmunur á þeim sem hafa reykt og hinum sem ekki hafa reykt. Hlúð hefur verið að fólki ef það hefur verið sjúkt og einu látið gilda hvort það hafi haft sykursýki, krabbamein, nýrnasjúkdóm eða aðra sjúkdóma sem tryggingafélagið setur fyrir sig samkvæmt ofangreindum skilmálum. Hvernig líður þér, hvað get ég gert fyrir þig? hefur verið viðkvæðið.

Allt önnur og að mínum dómi varasöm sjónarmið birtast í auglýsingum á borð við þá sem hér er vakin athygli á. Þau stríða gegn þeirri samstöðuhugsun sem ríkt hefir um alllangt skeið í okkar þjóðfélagi um skyldur velferðarþjónustunnar. Okkur hefur öllum þótt eðlilegt að við stæðum sameiginlega straum af kostnaðinum við hana. Og ekki höfum við viljað láta draga sjúklinga í dilka. Tryggingafélagið Samlíf óskar hins vegar eftir slíkri sundurgreiningu í tengslum við sumargjöf til þeirra sem okkur "þykir vænt um". Það er gert að skilyrði að fólkið hafi ekki átt við heilsuleysi að stríða eða ættir að rekja til sjúklinga.

Eflaust mun tryggingafélagið eiga það svar við gagnrýni minni að ætlunin sé að tryggja fólk gegn tekjutapi verði það fyrir áföllum af völdum sjúkdóma og komi það til viðótar því sem samfélagið býður upp á. Staðreyndin er þó sú að tryggingafyrirtækin eru að færa út kvíarnar og sækja inn á hefðbundið svið velferðarþjónustunnar. Í því samhengi og í tilefni af tilboði Samlífs þykir mér rökrétt að spyrja hvort við viljum að afkomumöguleikar fólks í veikindum séu metnir á ofangreindum forsendum eða hvort við viljum halda áfram að berjast fyrir því að hagur allra sé bættur. Ef við förum inn á braut sértækra lausna er sú hætta fyrir hendi að einmitt þeir sem mest þyrftu á aðstoð að halda yrðu að axla þyngstu byrðarnar. Þannig fengju þeir sem eru með bágborið heilsufar eða arfgenga sjúkdóma annaðhvort enga tryggingu eða á afarkjörum. Af þessari ástæðu hef ég miklar efasemdir um sumargjöf Samlífs.