Fara í efni

STYRKJA SAMNINGSSTÖÐUNA


Flestir sem verða á mínum vegi þessa dagana gleðjast yfir því að möguleikar kunni að opnast á endurupptöku Icesave samninganna. Úrtölufólk er líka til en því fer fækkandi. Sem betur fer. Ég heyri á félögum mínum og vinum sem ég er í samskiptum við innan verkalýðshreyfingarinnar á Norðurlöndum og á vettvangi Evrópusambandsins, að nú blási ferskari vindar og okkur hagstæðari en verið hefur fram til þessa.

Þannig sé farið að spyrja á miklu opnari hátt en áður á þjóðþingum Norðurlandanna hver sé raunverulegur hlutur norrænna ríkisstjórna í aðförinni sem gerð hefur verið að Íslendingum að áeggjan „viðsemjenda" okkar.  Því opnari sem umræðan er þeim mun betra fyrir Ísland. Á þessu leikur ekki nokkur vafi að mínum dómi.
Tvær konur hafa verið skeleggar í þessu efni síðustu dagana, þær Eva Joly og Lilja Mósesdóttir.  Norrænir þingmenn óskuðu eftir því að Eva Joly gerði grein fyrir sinni sýn á Icesave málið fyrir hálfri annarri viku. Sá fundur muna hafa verið áhrifaríkur og jákvæður fyrir okkur. Sömu sögu er að segja frá Evrópuráðsþinginu í Strassburg. Þar var íslensk þingmannanefnd á ferð í síðustu viku og falaðist ég daglega eftir fréttum frá formanni sendinefndarinnar, Lilju Mósesdóttur, þingkonu VG um fundahöld hennar með þingmönnum annarra ríkja um Icesave-málið. Með Lilju í sendinefndinni voru þau Birkir Jón Jónsson, Framsóknarflokki og Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Samfylkingu. Um þetta er meðal annars fjallað hér: http://www.amx.is/stjornmal/13969   
Það er gleðilegt að fylgjast með því hvernig fólk úr öllum flokkum reynir nú að stilla saman strengi sína til að gera tvennt: Styrkja samningsstöðu Íslands með því að koma á framfæri upplýsingum sem gagnast okkur. Og í annan stað,  nýta þann meðbyr sem þannig kann að skapast, okkar málstað til framdráttar. Fyrir þetta ber að þakka.