Fara í efni

STÓRIÐJA ER EKKI SVARIÐ VIÐ ATVINNULEYSI

Eitt mesta böl sem hendir nokkurn mann er langvarandi atvinnuleysi. Reynslan sýnir að atvinnuleysi dregur úr einstaklingum máttinn og lamar fjölskyldur þeirra og nánasta umhverfi.

Þess vegna ber að fagna allri umræðu um atvinnuuppbyggingu. Mikilvægt er að sú umræða sé málefnaleg og byggi á rökum og reynslu.

Indriði H. Þorláksson skrifaði fyrir nokkru stórmerka grein um stóriðju og virðisaukann af henni. Tel ég ástæðu til að vekja athygli á henni. Í grein Indriða kemur eftirfarandi kemur fram: "Frá því að fyrsta álverið var byggt hér á landi hefur fólki á vinnumarkaði fjölgað um nálægt 85.000 manns. Megi rekja um 3.000 þessara starfa til álvera er það um 3,75% af aukningu mannaflans frá um 1970 og er um 1,7% af vinnandi mönnum í landinu nú. Ekki verður því sagt að þáttur álvera í sköpun atvinnutækifæra hafi verið stór né hlutur þeirra á vinnumarkaði sé mikill."

Mikilvægt er að ákvarðanir sem teknar eru á sviði atvinnumála verði teknar að yfirveguðu ráði. Þá er beðið um tvennt þegar stóriðjan er annars vegar. Í fyrsta lagi verði hugað að öflun orkunnar áður en samið er um ráðstöfun hennar. Í öðru lagi verði hugað að raunverulegum virðisauka fyrir þjóðarbúið þar á meðal sköpun atvinnutækifæra. Um síðarnefnda þáttinn er grein Indriða H. Þorlákssonar þörf lesning.

Því ber að fagna að nú skuli hugað að atvinnuuppbyggingu með fjölbreytni í huga. Stuðningur við sprotafyrirtæki er af þessum meiði. Gamalkunnugt orðtak minnir og á að margt smátt gerir eitt stórt. Enn eru þó margir við það heygarðshornið að aðeins með því að hugsa í stórum einingum megi gera stóra hluti. Bara stóriðja geti leyst okkar vanda og skapað þeim þúsundum vinnu sem nú eru án hennar. Reynsla og staðreyndir tala öðru máli. Til hvoru tveggja eigum við að horfa, reynslunnar og staðreyndanna.

Grein Indriða H. Þorlákssonar: https://postur.bsrb.is/exchweb/bin/redir.asp?URL=http://inhauth.blog.is/users/a7/inhauth/files/efnahagsleg_ahrif_erlendrar_stori_ju_0.doc