Fara í efni

STÓRFYRIRTÆKIN OG GÓÐGERÐIRNAR: VEIT VINSTRI HÖNDIN HVAÐ SÚ HÆGRI GJÖRIR?


Það gladdi hjarta mitt á Degi íslenskrar tungu að Nirði P. Njarðvík skyldu hlotnast verðlaun Jónasar Hallgrímssonar að þessu sinni. Njörður er þessara verðlauna mjög verðugur og vissulega tók hann sig vel út á forsíðu Morgunblaðsins 17. nóvember þar sem hann hélt um risavaxna ávísun merkta Glitni. Hönd á ávísun Glitnis hafði einnig menntamálaráðherra vor, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Til hliðar við þau stóð svo stjórnarformaður Glitnis, Einar Sveinsson, og brosti af æðruleysi. Myndin bar með sér að hann var veitandinn í þessari menningarveislu. Allir í fínu skapi enda tilefni til. Rithöfndur heiðraður í nafni listaskáldsins góða. Menn hafa glaðst yfir öðru eins.

Eitthvað var þó bogið við þessa athöfn. Ég held að mörgum hafi fundist svo vera. Var það stærð ávísunarinnar? Auðvitað var þetta ekki bara peningaávísun heldur líka auglýsing. Kannski þótti okkur þessi auglýsing táknræn fyrir þá mynd sem íslenskt þjóðfélag er að taka á sig og einnig til marks um virðingu stjórnvalda fyrir íslenskri menningu og listamönnum landsins. Í stað þess að fulltrúi þjóðarinnar afhendi rithöfundi verðlaunafé úr ríkissjóði á bara ósköp venjulegri ávísun, og jafnvel í umslagi, þá er kallað til bankafyrirtæki sem slær sig til riddara, vinnur í senn góðverk og afhendir verðlaunahafanum auglýsingu um ágæti fyrirtækis síns!

Getur verið að íslenska þjóðin sé þess ekki umkomin að veita verðlaun Jónasar Hallgrímssonar sjálf og á eigin forsendum en þurfi að kalla til Glitni sem síðan  - og að sjálfsögðu – til þess er leikurinn gerður – tranar sér fram fyrir sjálfan verðlaunahafann með bjánalega stórri auglýsingaávísun úr hendi stjórnarformanns síns.

Getur verið – og er það ekki líklegt - að öllum sé minnkun gerð með þessu athæfi: listaskáldinu Jónasi, verðlaunahafanum sem fær ekkert við ráðið, þjóðinni (m.ráðherra) og síðast en ekki síst Glitni sjálfum (sbr. fyrirmæli Krists um að vinstri höndin viti ekki hvað sú hægri gjörir þegar góðverk eru annars vegar)?