Fara í efni

STÓRFENGLEGUR HEIMUR VIRKJAÐUR

MBL
MBL

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 07/08.18.
Okkur þykir veröldin fögur þegar við virðum fyrir okkur undur náttúrunnar, hvort sem það er Drangey frá sundlaugarbrúninni á Hofsósi, Hvassahraunið á Reykjanesi, fegurstu aðkeyrslu að höfuðborg í heimi eða Herðubreiðarlindir. Við slíka sýn fyllist hjarta okkar þakklæti og væntumþykju og til verður óumræðileg löngun til að vernda þessa fegurð.

Þessari umhyggju fyrir landinu, þessari verndarhyggju hefur vaxið ásmegin. Og það hefur gerst hratt. Ætli það séu meira en tuttugu ár síðan að hæðst var að þeim sem vildu vernda landið gegn raski af völdum mengandi stóriðju: „Ætlið þið okkur að lifa af fjallagrösum?" Nú vita allir að það er einmitt, og öðru fremur, hægt að lifa góðu lífi af landi sem enn á sín fjallagrös.

Maðurinn hefur verið óvæginn við móður jörð. Ágangurinn hefur stigmagnast með aukinni tækni. Auk allra framfara tækninnar i okkar þágu, hefur tæknibyltingin jafnframt margfaldað eyðileggingarmátt sinn. Fréttir af eyðileggingu regnskóganna, sem lýst hefur verið sem öndunarfærum heimsins, bera þessu vott, að ekki sé minnst á okkur nærtækara dæmi, tunnurnar við hvert heimili sem fá í sinn hlut plastið af daglegri neyslu meðaljónsins. Og meðaljónum fer fjölgandi sem kunnugt er þótt lítið fari fyrir þeirri umræðu í seinni tíð.

Hvert skyldi ég vera að fara með þessum þönkum? Jú, ég er að reyna að koma að því orðum hve mikilvægt það er að láta náttúruna njóta vafans í glímunni við ágengan manninn.

Tvennt vil ég nefna í því sambandi. Þessi tvö atriði eru í reynd gagnverkandi.

Í fyrsta lagi hefur barátta náttúruverndarfólks fært þungamiðjuna til í umræðunni sem áður segir. Ég spái því að breytt afstaða í þjóðfélaginu eigi enn eftir að færast í átt að kröfu um náttúruvernd. Þar með breytast allar forsendur sem þjóðfélagið byggir ákvarðanir sínar á, hvort sem er til nýtingar eða verndar. Þetta er nokkuð sem áköfustu virkjunarsinnar verða að horfast í augu við.

Í öðru lagi nefni ég þáttinn sem togar okkur í gagnstæða átt. Það er aukin áhersla á arðsemi og gróða. Með einkavæðingu orkuauðlindanna er gróðaöflunum veittur að þeim beinn aðgangur. Þetta verður enn augljósara þegar eigendurnir eru handhafar erlends fjármagns, sem á sér samastað í kauphöllum heimsins. Ef fer fram sem horfir verður þar  vélað um örlög fossins Drynjandi og félaga hans um landið allt.

Þetta þarf að hafa í huga þegar rætt er um rammaáætlunina svonefndu, sem ætlað var að færa ákvarðanir um verndun og virkjanir inn í ásættanlegri farveg en verið hefur um áratugi. Það hefur þó ekki tekist betur en svo, að guðfaðir þessarar áætlunar hefur aldrei viljað gangast við þessu afkvæmi sínu að fullu, talið þar um að ræða hálfkarað verk. Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur með meiru, hefur þannig sagt að sjálfan upphafsreitinn vanti í rammaáætlun. Aldrei sé spurt hve mikið menn vilji virkja og hvers vegna!

Þetta er að sjálfsögðu grundvallaratriði. Ef á daginn kemur að megin markmið virkjana, og þar með alls rasksins af þeirra völdum, er að fylla vasa þeirra sem ásælast að fjárfesta í móður jörð, þá þarf það að sjálfsögðu að koma fram í umræðu um kosti þess og galla að virkja eða vernda.

Þótt endanleg ákvörðun eigi að ráðast af þáttum sem standa fyrir utan slíkar vangaveltur, hljóta þær engu að síður að skipta máli þegar örlög okkar stórfenglegu náttúru eru ráðin.