Fara í efni

STÖÐVUM FJÖLDAMORÐIN Á GAZA


Ræða flutt á útifundi á Lækjartorgi

Hvað á að segja um atburðina á Gaza?
Hvaða mælikvarða á að nota á þau voðaverk sem þar eru nú framin?  Að ráðist er á fólk sem í reynd er innilokað í fangabúðum; fólk sem getur ekki forðað sér undan sprengjuregni og stórskotahríð? Á að minna á að árásarliðið er brotlegt gagnvart hinum Sameinuðu þjóðum, margútgefnum yfirlýsingum og samþykktum? Að úrskurðir Mannréttindadómstólsins séu virtir að vettugi, Genfarsáttmálinn um mannréttindi brotinn?
Þarf kannski að útlista söguna - segja sögu Gazasvæðisins? Að þar bjuggu fyrir ekki svo löngu síðan um þrjú hundruð þúsund manns - svipað og á Íslandi. Samfélagið hafi verið sjálfbært, fært um að klæða sig og næra. Síðan hafi streymt þangað flóttamenn; að flóttamenn á Gaza séu nú yfir milljón talsins; fólk sem framan af gat sótt vinnu út fyrir landamærin. Það var áður en Gaza var lokað. Í alvöru lokað. Með múrum og vírum. Jarðsprengjum og ógnandi hliðarvörðum. Fangelsistjórum.

Lykill til skilnings því sem nú er að gerast á Gaza liggur í nokkru sem okkur er kært, lýðræðinu. Þeir sem komust til valda í Palestínu fyrir hálfu öðru ári síðan - síðast þegar efnt var þar til lýðræðislegra kosninga -  voru ísraelska hernámasliðinu ekki að skapi. Hamas, siguvegari kosninganna, skyldi víkja, hvað sem það kostaði.
Undir það tók Bandaríkjastjórn.
Undir það tók Evrópusambandið.
Undir það tók Ísland.
Og Gaza, þar sem Hamas átti mestan stuðning, var sett í herkví, beitt efnahagsþingunum, skatttekjur frystar, innflutningur heftur, hömlur settar á hjálparaðstoð...
Og þegar varahlutir bárust ekki, raforkan þvarr og þar með dælustövar fyrir vatn og skólp ekki lengur að reiða sig á, þegar sjúkrahúsin hættu að fá aðföng, matarskortur fór að gera vart við sig, þeir sem á annað borð höfðu atvinnu hættu að fá borgað ...Þá fór að sjóða upp úr, bræður og systur að berast á banaspjót. Þjóðstjórnin sem Fatah og Hamas höfðu sameinast um gaf sig.
Þau kunna það í Ísrael, að deila og drottna.

Kannski er alveg nóg að segja að á Gaza er þéttbýlasta svæði heimsins, ein og hálf milljón á spildu með ströndinni frá Straumsvík og suður í Voga. Ein og hálf milljón. Ekkert andrými. Fólk innilokað í fangabúðum. Samanþjöppuð mannmergð. Í örbyrgð og öllu því sem henni fylgir.  Fólk sem ekki má við neinu - hefur búið við skort af áralöngum þvingunum - það fólk fær nú yfir sig eldsprengjur - a nóttu sem degi.
Og heimurinn horfir á. Sljóum augum. Talar um deiluaðila. Að þeir verði setjast að samningaborði; leiði ágreining og deilur sínar til lykta.
En um hvað á hún að semja, móðirin sem missti son sinn í sprengjuregni í morgun?
Um hvað á það að semja, barnið, sem missti pabba sinn og mömmu í árásinni í gær, eða hjónin sem horfa á sundurtætt og brunnin lík barna sinna, heimili sitt í rústum?
Eiga þau að lofa því að kjósa rétt næst? Eiga þau að segja að aldrei muni þau bera hönd fyrir höfuð sér? Þau lofi; að þau lofi að vera alltaf góði fanginn?

Öllum má ljóst vera hvað er að gerast á Gaza ströndinni. Þar er verið að fremja þjóðarmorð. Þar er hinn sterki að kúga hinn veika. Þar er ráðist á fólk sem á sér ekki undankomu leið; murkað lífið úr fólki sem skipulega hefur verið svipt lífsbjörginni. Í upphafi voru þau sjálfbær á Gaza. Fyrir fjórum árum þurftu 40% íbúanna að reiða sig á utanaðkomandi neyðarhjálp að staðhaldri, nú er hlutfallið komið í 80%. Og stefnir upp á við. Aðeins meiri gaddavír, nokkrar fleiri jarðsprengjur,  meira atvinnuleysi, fleiri bræðravíg. Og svo aftur árás. Og aftur. Og aftur og aftur. Hvenær verður verkið fullkomnað?

Svarið er aldrei. Þetta er kúgun af yfirvegun. Ofbeldi af ásetningi. Þetta er ástand sem mun vara svo lengi sem það fær að vara. Kúguninni mun ekki linna fyrr en gripið verður í taumana.  

Og hér...
Hér er komið að okkar ábyrgð.
Heimsins alls.
Hver og einn verður að horfast í augu við eigin ábyrgð. Spyrja í hverju hún sé fólgin.  Hvort við séum ef til vill meðsek? Hvort við berum ef til vill ábyrgð á því hvernig komið er í Palestínu, hvernig komið er á Gaza?
Gerum við það?
Já, við gerum það.
Okkar ábyrgð felst í því að taka undir kenninguna um deiluaðilana tvo, um hinar stríðandi fylkingar sem þurfi að sætta. Okkar ábyrgð - og þá er ég að tala um íslenska ríkið - ábyrgð okkar sem þjóðar er í því fólgin að leggja beina og óbeina blessun yfir áralangar þvinganir. Að láta óátalið að heil þjóð sé fest í fjötra, kúguð og pyntuð. Í þessu er meðsektin fólgin. Á þennan hátt tökum við þátt í ofbeldinu. Við styðjum Ísrael með því að halda stjórnmálasamstarfinu óbreyttu. Einsog ekkert hafi í skorist. Einsog ísraelsku herstjórninni hafi óvart orðið eitthvað á.

Það sem við getum gert snýr að okkur sjálfum. Við þurfum að spyrja hvort við ætlum áfram að vera meðsek; og hvað við ætlum að segja við börnin okkar sem munu ekki skilja hvernig hægt var að horfa á þjóðarmorð og pyntingar í beinni útsendingu án þess að gera nokkuð. Því ekki getum við sagt að við vissum ekki hvað var að gerast. Við vitum hvað er að gerast og við gerum ekki neitt.

Eða hvað? Krafa þessa fundar snýr einmitt að aðgerðum.
Við krefjumst þess að ofbeldið verði stöðvað - að það verði stöðvað þegar í stað og undanbragðalaust.
Við krefjumst þess að Ísraelstjórn stöðvi fjöldamorðin; að umsátrinu um Gaza verði nú þegar aflétt. Við krefjumst þess að hernámi Ísraels á palestínsku landi linni. Og við krefjumst þess að samskiptum við Ísraelsstjórn verði slitið þar til Ísrael lætur af árásarstefnu sinni.

Heyrist þetta ekki örugglega? Berst boðskapur þessa fundar ekki örugglega inn fyrir veggi Stjórnarráðsins?...; krafan um að samskipti við Ísraelsstjórn verði rofin þar til Ísrael lætur af árásarstefnu sinni.
Þetta er ekki mál til að salta. Það þarf fund í utanríkismálanefnd í dag og í ríkisstjórninni í dag. Strax. Málið þolir enga bið.
Biðin er banvæn.
Stöðvum fjöldamorðin.

Birtist líka á smugan.is: http://smugan.is/pistlar/raedur/nr/471