Fara í efni

STÓÐ EKKI TIL AÐ NÝ RÍKISSTJÓRN MÓTMÆLTI ÍRAKSSTRÍÐINU?


Ríkisstjórn Bandaríkjanna lýtur forystu forseta sem reynst hefur herskárri en flestir forverar hans. George W. Bush er jafnframt handgengnari olíuiðnaði og hergagnaframleiðendum en dæmi eru um hvað forvera hans snertir. Fáir Bandaríkjaforsetar hafa beitt fulltrúa Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna eins miklum þrýstingi og George W. Bush. Hann og ríkisstjórn hans þurftu mjög á stuðningi Öryggisráðsins að halda þegar Bandaríkjamenn og Bretar réðust inn í Írak fyrir fjórum árum. Í Hvíta húsinu þekkja menn því hve mikilvægt er að hafa sér handgengna fulltrúa í Öryggisráðinu.

Fulltrúi Bush ánægður með ríkisstjórn Íslands

Eftir fund Nicholas Burns aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna með þeim Geir H. Haarde, forsætisráðherra Íslands og formanni Sjálfstæðisflokksins, og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra og formanni Samfylkingarinnar, sagði þessi fulltrúi George W. Bush um tilraunir íslensku ríkisstjórnarinnar um að fá sæti í Öryggisráði SÞ: „Við tökum þeirri staðreynd að Íslendingar vilji taka sæti í ráðinu að sjálfsögðu fagnandi“ og hnýtti því við að Íslendingar væru einn þeirra „helsti bandamaður“ (sbr. Blaðið 15.júní). Þannig er jafnan talað um hina „viljugu“ stuðningsmenn Íraksstríðsins.
Þetta þarf að sjálfsögðu ekki að koma á óvart. Það sem kemur á óvart er að þetta skuli vera sagt eftir fund með formanni Samfylkingarinnar sem nú er utanríkisráðherra Íslands sem við héldum mörg að myndi á afgerandi hátt aðskilja okkur frá innrásinni í Írak og öllum þeim hryllilegu mannréttindabrotum sem þar hafa verið framin allt fram á þennan dag. Utanríkisráðherra Íslands segist hafa harmað innrásina í samræmi við stjórnarsáttmálann. Það segir aðstoðarutanríkisráðherrann bandaríski  ekki vera stórmál og snúist um löngu liðna atburði: „Þetta er ekki stórmál. Þvert á móti virðist þetta vera yfirlýsing sem snýr að því sem gerðist í Írak fyrir fjórum árum fremur en það sem er að gerast þar núna.“

Bandaríska herliðið í boði írösku stjórnarinnar!

Þetta skýrir Nicholas Burns aðstoðarutanríkisráðherra nánar: „Við erum nú á allt öðru stigi. Við erum ekki í stríði við Írak heldur erum við þarna í boði ríkisstjórnar Íraks til að hjálpa þjóðinni að komast af í baráttunni gegn hryðjuverkamönnum“.
Myndir af hrottafengnum pyntingum í bandarískum herfangelsum, hrannvíg á óbreyttum borgurum og stórfelld eyðilegging á öllum innviðum samfélagsins koma upp í hugann auk að sjálfsögðu borgarastríðsins sem smám saman hefur verið að magnast í landinu eftir innrásina árið 2003. Er það svona sem utanríkisráðherra Íslands og formaður Samfylkingarinnar kemur mótmælum á framfæri við herveldið bandaríska? Viðbrögðin eru þessi: Ekkert stórmál, gaman væri að fá ykkur í Öryggisráðið!