Fara í efni

STJÓRNMÁLAMENN SÝNI ÁBYRGÐ

DV
DV

Birtist í DV 25.03.09.
Aðalasmerki íslenska heilbrigðiskerfisins er að það byggir á jafnaðarhefðinni. Fólki er ekki mismunað eftir fjárhag, menntun eða þjóðfélagsstöðu. Þegar þú ert veik eða veikur og þarft á aðhlynningu eða lækningu að halda þá ert þú umvafinn faðmi heilbrigðisþjónustunnar hver sem þú ert. Hitt er annað mál að sums staðar eru biðlistar, annars staðar eru hnökrar í kerfinu, samhæfingu skortir víða og ýmsu er ábótavant. Þótt okkur þyki vænt um heilbrigðiskerfið okkar og séum stolt af því fólki sem þar starfar erum við ekki alltaf ánægð með kerfið. Því fer fjarri og það eigum við aldrei að vera. En hvað jöfnuðinn áhrærir þá hygg ég að fyrir því ríki almennur þjóðarvilji að standa vörð um hann. Þess vegna hrökkvum við í kút þegar staðhæft er fólki sé mismunað eftir menntunargráðu.

Aðdróttanir Ástu Möller

Þetta gerði Ásta Möller, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi formaður heilbrigðisnefndar Alþingis í fréttum Sjónvarps um nýliðna helgi. Hún sá ástæðu til að kveðja sér hljóðs á opinberum vettvangi til þess að færa þessar ásakir fram á hendur læknum MS sjúklinga. Ástæða væri til að óttast að þeir forgangsröðu sjúklingum sínum á grundvelli menntunar þeirra.
Þetta eru grafalvarlegar ásakanir og snerta grunntaug heilbrigðiskerfisins. Líka næmar og viðkvæmar taugar þeirra sem eiga við þennan erfiða sjúkdóm að stríða. Þá hef ég orðið var við að læknum er gróflega misboðið. Árásin á þá og stjórnendur Landspítalns er ólíðandi.

Úr lausu lofti gripnar

Sigurbjörg Ármannsdóttir, formaður MS félagsins, lýsti því yfir opinberlega í fjölmiðlum að hún teldi þessar ásakanir algerlega úr lausu lofti gripnar. Á fundi sem ég átti með forsvarsfólki félagsins kom fram að þeim þótti miður að vegið væri að læknum á þennan hátt og í Morgunblaðinu kvað við sama tón hjá Birni Zoega, lækningaforstjóra Landspítalans: "Þetta er mjög alvarleg aðdróttun og það er furðulegt að segja svona sögu sem engin rök eru fyrir."

Geri grein fyrir ásökunum

Þessi mál komu til umræðu í þinginu á mánudag. þar vakti ég máls á alvarlegum ásökunum þingmannsins og sagði að ég óskaði eftir því að hún gerði grein fyrir því opinberlega á hverju hún byggði ásaknir sínar Þar kom jafnframt fram að Ásta Möller hefur lagt fram fyrirspurnir um lyf MS sjúklinga sem væntanlega verður svarað í þinginu í dag. Hún sagðist hlakka til að ræða þau mál við heilbrigðisráðherra. Ég sagði það væri prýðilegt að fá þessi mál til umræðu og þá ekki síður hitt á hvaða forsendum, Ásta Möller fer fram með ásaknir um að heilbrigðisstéttir okkar séu að falla á því prófi sem við helst viljum að þær standist: Að varðveita það dýrmætasta sem við eigum; velferðarkerfi sem stendur öllum landsmönnum opið óháð þjóðfélagsstöðu, menntun og efnahag.