Fara í efni

STJÓRNARANDSTAÐA VEIKIR FRAMKVÆMD BARNALAGA

barnalög
barnalög


Ný barnalög sem taka gildi á komandi ári marka um margt tímamót. Þau kveða á um ýmislegt sem lýtur að mannréttindum barna. Þar er að finna mikilvæg nýmæli sem kalla á nýja verkferla, nýja sérfræðikunnáttu og þar af leiðandi aukið fjármagn til þeirra sem eiga að annast framkvæmd laganna. Þetta á ekki síst við um sáttameðferð í forsjár- og umgengnisdeilum.

Fjárveiting miðuð við mitt ár

Framkvæmd laganna hvað þetta varðar verður á hendi sýsumannsembætta. Þau hafa að sjálfsögðu nú þegar undirbúið sig í þessu efni svo sem framast hefur verið unnt en hafa þurft að bíða eftir ákvörðun fjárveitingavaldsins um fjárframlag til verkefnisins áður en þau gætu gengið frá nauðsynlegum samningum við sérfræðinga og eftir atvikum nýráðningum. Við afgreiðslu fjárlaga var upphæðin ákveðin 30 milljónir en þyrfti að vera 60 milljónir að lágmarki á ársgrundvelli ef sómasamlega á að standa að þessu verkefni þannig að það verði annað og meira en orðin tóm. Ákvörðun um 30 milljón króna framlag byggðist á því að lögin tækju gildi um mitt ár.

Engin haldbær rök?

Í ljósi alls þessa setti ég fram tillögu á Alþingi um að gildistöku barnalaganna yrði frestað fram á sumar svo að nægilegt fjárframlag væri tryggt og standa mætti að undirbúningi með sóma. Þetta þykja Guðmundi Steingrímssyni „engin haldbær rök" eins og fram hefur komið hjá honum á þingi og í fjölmiðlum eftir að þingfundum lauk. Fór hann fremstur í flokki stjórnarandstöðu sem felldi frestunarfrumvarpið, án þess að víkja í nokkru að því hvernig ætti að standa að málum nú 1. janúar þegar lögin taka gildi, án nægilegs fjárframlags og án nægilegs undirbúnings.
Guðmundi Steingrímssyni er að sjálfsögðu frjálst að hafna þeim rökum sem ég hef sett fram en rök eru það engu að síður að vilja tryggja  mikilvæga framkvæmd í þágu barna.

Lítt skiljanleg afstaða stjórnarandsöðu

Ég hef látið þau orð falla að ekki finnist mér neitt sérstaklega bjart yfir vinnubrögðum þeirra sem felldu frestunartillögu mína þótt sá sem stóð þar í farabroddi kenni sig við bjarta framtíð. Ekki lofar þetta sérstaklega góðu um vinnubrögð hlutaðeigandi stjórnmálahreyfingar í framtíðnni. En að stjórnarandstaðan öll hafi ákveðið að hoppa á vagninn með Guðmundi er mér óskiljanlegt og ég kalla eftir skýringum frá þeim, sem þurfa að reynast haldbærar í umræðum við öll sýslumannsembætti landsins, sem nú hafa tvo daga, 27. og 28. desember, til að undirbúa gildistöku barnalaganna.
Öllum er umhugað að standa vel og fagmannlega að verki en það er nokkuð sem ekki er hrist fram úr erminni á fáeinum vikum eða mánuðum, hvað þá dögum! Grundvallarforsenda er að vita hverjar fjárheimildirnar eru. Eðli máls samkvæmt þurftu niðurstöður fjárlaga fyrir komandi fjárlagaár því að liggja fyrir,  en það gerðist í vikunni.

Alþingi sýni ábyrgð

Þann 1. janúar skulu sýslumannsembættin vera tilbúin til að taka á forsjár- og umgengnisdeilum með gerbreyttum hætti, þ.m.t. með sérfræðiþekkingu innan sinna veggja sem er þar ekki eins og sakir standa. Á þessu þarf löggjafinn að standa skil, gagnvart framkvæmdaaðilunum, foreldrum og síðast en ekki síst börnum, sem þessi löggjöf á að snúast um.
Í þessu samhengi er lágmarkskrafa á hendur Alþingi að það tryggi samræmi í fjárveitingum annars vegar og hins vegar skynsamlegum tímaramma og efnislegum möguleikum til að framkvæma þau lög sem samþykkt eru á Alþingi.