Fara í efni

STERK UNDIRALDA Á LANDSFUNDI VG

Undiraldan á Landsþingi VG var þung: Varið ykkur á að ganga of langt í niðurskurði. Sumir hömruðu á að þegar hefði verið gengið of langt og vildu setja inn í ályktun um heilbrigðismál að niðurskurðurinn hefði þegar valdið óheppilegum uppsögnum og minnkandi þjónustu. Sama má segja um  ýmis önnur starfssvið, svo sem löggæsluna, dómstóla og fangelsi, svo nefnd séu svið sem undir mitt ráðuneyti heyra, þar sem ég er beint ábyrgur fyrir niðurskurðinum einsog ég reyndar er hvað heildina áhrærir.
Mér finnst gott að finna fyrir undiröldunni í VG sem varar okkur við og minnir á þörfina á varnargörðum fyrir velferðina. Þá varnargarðahleðslu hef ég varið lunganum af minni ævi í að hlaða og mun aldrei hætta því. Það breytir ekki hinu að niðurskurð þurftum við að ráðast í vegna tekjuhraps hjá ríki og sveitarfélögum. Spurningin sem þarf að vera sívakandi er hve langt skal gengið; hvenær niðurskurðurinn hefur gagnstæð áhrif og byrjar að dýpka kreppuna með minnkandi kaupmætti og vaxandi atvinnuleysi. Þá er ekki síður að hyggja að hinum félagslegu réttlætismálum og þeirri kerfisbreytingu sem samdráttur í opinberri þjónustu getur valdið.
Þannig getur of brattur niðurskurður í velferðarkerfinu leitt til einkavæðingar. Hinn sjúki og aðstandendur hans - barns, bróður eða systur, mömmu eða pabba -  ÆTLA að fá lækningu, ef ekki hjá hinu opinbera þá á markaði. Svo lengi sem buddan mögulega leyfir. En einmitt þar kemur mismununin inn. Veskið hjá sumum er þykkara en veskið hjá öðrum.
Mér þótti líka gott að því skuli hafa verið fagnað að AGS væri farinn. Var satt að segja búinn að fá nóg af öllu þakklætinu í hans garð í Hörpunni á sameiginlegri ráðstefnu Íslands og AGS í aðdraganda landsfundar VG. Við skulum ekki gleyma því að það var AGS sem bannaði almennar aðgerðir í skuldamálum, og hugmyndafræði  AGS var hvetjandi  til framkæmda utan ríkisreiknings. Ekki gleymi ég heldur áhyggjum AGS af gjaldþrotalögunum nýju. Í skugganum af AGS og ESB athöfnuðu Bretar og Hollendingar  sig í Icesave. Aldrei heyrði ég AGS hafa áhyggjur af afnámi laga um tekjutryggingu öryrkja. AGS hugsunin var niðurskurðarhugsun og stjórnunarmátinn var að innræta tilskipanir að ofan. Þetta er hugsun sem þarf að vinda ofan af og er þar talsvert verk að vinna.
Kannski var það þess vegna sem niðurstaða landsfundar VG varð sú að hafa ályktunina um AGS bara eina línu þar sem brottför hans var fagnað.