Fara í efni

STEINGRÍMUR, ÁLIÐ OG FISKURINN


Stundum birtast greinar sem eru þess virði að fólk staldri við og gefi sér tíma til að gaumgæfa. Ein slík grein birtist í Morgunblaðinu í gær eftir Steingrím J. Sigfússon, formann Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Greinin fjallar um virðisaukann fyrir íslenskt þjóðfélag og efnahagslíf, sem stóriðjan skapar annars vegar og aðrar atvinnugreinar hins vegar. Í ljós kemur að virðisaukinn af stóriðju er miklu minni en af öðrum atvinnugreinum. Þetta er staðreynd þrátt fyrir að stóriðjusinnar hamri á hinu gagnstæða. Í annan stað væri það umhugsunarefni ef það væri orðin staðreynd að við værum orðin eins háð áliðnaði og stóriðjusinnar vilja vera láta. Væri það eftirsóknarvert? Er ekki eftirsóknarverðara að byggja á  fjölbreytni? Á þessum þáttum vekur Steingrímur máls í grein sinni.

Greinina má lesa hér að neðan:  

Ál, fiskur og þjóðarbúið

FIMMTUDAGINN 7. febrúar sl. sendi greiningardeild Kaupþings banka frá sér hagspá fyrir árin 2008-2010 og var þar m.a. komið inn á vaxandi hlut áls í útflutningstekjum þjóðarinnar. Á það var bent að á þessu ári myndi brúttó útflutningsverðmæti áls yfirstíga útflutningsverðmæti frá sjávarútvegi. Fjölmiðlar slógu fréttinni upp (sjá t.d. Fréttablaðið daginn eftir) en athyglisvert var að umfjölluninni fylgdi engin frekari greining á þjóðhagslegu framlagi hvorrar atvinnugreinar um sig. Af téðum fréttaflutningi mætti ætla að nettó gjaldeyrissköpun álframleiðslu á Íslandi fari þar með fram úr því sem sjávarútvegurinn skilar á árinu.
Hér er rétt að staldra við. Það sem skiptir máli að lokum er að sjálfsögðu ekki brúttótölurnar, ekki heildarútflutningsverðmæti vörunnar, heldur hvað atvinnustarfsemin skilur eftir nettó í íslenskum þjóðarbúskap, hver innlendi virðisaukinn er. Skv. þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins frá sl. hausti, sjá ritið Þjóðarbúskapurinn: haustskýrsla 2007, er reiknað með að útflutningsverðmæti sjávarafurða verði liðlega 119 ma. kr. og áls 135 ma. kr. á yfirstandandi ári. Greiningardeild Kaupþings notar sömu tölu fyrir álið í sinni hagspá. Hátt verð á sjávarafurðum erlendis gefur ástæðu til að ætla að sú tala verði fremur hærri en lægri. Notum því hér til einföldunar tölurnar: 120 ma. útflutningsverðmæti sjávarafurða og 135 ma. útflutningsverðmæti áls á árinu 2008. Reynum því næst að átta okkur á hvor atvinnugreinin reynist drýgri þegar upp er staðið í formi nettógjaldeyrisskila eða innlends virðisauka í íslenska hagkerfinu.

Álið hálfdrættingur á við sjávarútveginn

Í raun þarf ekki að skoða nema eina stærð til þess að átta sig á að álframleiðsla og starfsemi í sjávarútvegi eru gjörólíkar þegar kemur að stærð þeirra og þýðingu í innlendum þjóðarbúskap. Í álframleiðslu, þ.e. frumframleiðslu eins og hér er stunduð, eru laun aðeins um 10% af veltu en í sjávarútvegi eru þau nálægt 45%. Bæði innlendar og erlendar sérfræðistofnanir hafa á undanförnum misserum notast við þá viðmiðun að um 65-70% kostnaðar í álframleiðslu á Íslandi séu erlendur kostnaður, aðföng, arður til erlendra eigenda o.s.frv. M.ö.o. aðeins um eða innan við þriðjungur veltunnar verður eftir í íslenska hagkerfinu í formi virðisauka. Í sjávarútveginum er þessu öfugt farið. Þar eru aðeins um 20% eða fimmtungur umsvifanna erlendur tilkostnaður, 80% af veltunni verða eftir í hagkerfinu.
Tökum þá útflutningstekjurnar, 120 ma. í sjávarútvegi og 135 ma. í álframleiðslu og margföldum þær með þessum stuðlum: 0,8 í tilviki sjávarútvegsins og 0,35 í tilviki álframleiðslunnar. Og hver verður þá útkoman? Jú, 96 ma. nettó gjaldeyristekjur af umsvifum sjávarútvegsins en liðlega 47 ma. nettó gjaldeyristekjur af umsvifum álframleiðslunnar. Álframleiðslan er sem sagt í mesta lagi hálfdrættingur á við sjávarútveginn mælt á þennan mælikvarða og gerir ekki betur en halda í við ferðaþjónustuna.
Ekki er þó allt talið enn. Þó íslenskur sjávarútvegur sé vissulega skuldsettur, og hluti gjaldeyristekna sem þaðan spretta fari í afborganir af erlendum lánum, er það þó á engan hátt sambærilegt við það sem að álframleiðslunni snýr. Erlendar skuldir Landsvirkjunar einnar og sér nema nú sennilega nálægt 15% af landsframleiðslu og munar um minna. Ætli það taki ekki eitthvað í að borga af a.m.k. 150 ma. skuldum vegna Kárahnjúkavirkjunar einnar? Um helmingur af innlendum tilkostnaði álfyrirtækja eins og Reyðaráls fer í að kaupa rafmagn. Þær tekjur ganga til Landsvirkjunar sem aftur notar þær til að borga af erlendum lánum vegna virkjana. Í reynd er því gjaldeyrisjafnan milli álframleiðslu og sjávarútvegs enn óhagstæðari fyrir álið en áðurnefndar tölur gefa tilefni til að ætla meðan virkjanirnar eru borgaðar niður.
Efnahags- og framfarastofnunin OECD hefur í ársskýrslum sínum um Ísland undanfarin tvö skipti lagt til að fram fari þjóðhagslegt arðsemismat á hagkvæmni frekari stóriðjufjárfestinga og rökstyður það einkum með tvennu: Annars vegar nefnir OECD ofangreindar staðreyndir um tiltölulega lítinn nettó virðisauka álframleiðslunnar í íslenska hagkerfinu og efasemdir um arðsemi. Hins vegar er velt upp spurningunni um hvort æskilegt sé að veðja jafnmiklu á þennan eina málm og nú stefnir í á Íslandi. Svo kann að fara að innan fárra ára standi útflutningur á áli einn og sér fyrir um eða jafnvel yfir helmingi af brúttótekjum þjóðarinnar af vöruútflutningi. Álið hefur þá tekið sér þá stöðu sem sjávarútvegur hafði á árum áður í íslenskum vöruútflutningi og þótti ekki æskilegt að ein grein vægi svo þungt.
Hér með er lýst eftir aðeins dýpri og vandaðri umfjöllun um þessi mál. Yfirborðskenndur uppsláttur á tölum af því tagi, að álframleiðsla verði nú í fyrsta sinn verðmætari en sjávarafurðir, segir lítið. Eða ætla menn bara að lifa á veltunni eins og kaupmaður einn orðaði það, að því spurður hvernig hann færi að því að kaupa inn vörur á 100 kr. og selja þær aftur á 95?

Höfundur er formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.