Fara í efni

Steig hann á tær forstöðumanna kaupfélagsins?

Kristján Hjelm sparisjóðsstjóri í Sparisjóði Hólahrepps fær góðar umsagnir þeirra sem DV leitaði til í athyglisverðri fréttaumfjöllun blaðsins um málefni sparisjóðsins. Undir verkstjórn Kristjáns hafa umsvif sparisjóðsins stóraukist og sjóðurinn á alla lund dafnað. Kristján þykir og mikill og einarður sparisjóðsmaður og hefur það því vakið furðu manna að hann sé nú þvingaður til að láta af störfum. Velta menn því fyrir sér hvað hann hafi unnið sér til óhelgi. Gæti það verið að hann hafi stigið óþægilega á tærnar á forsvarsmönnum Kaupfélags Skagfirðinga? Í Morgunblaðinu í gær er fjallað um þessi mál, m.a. í sögulegu samhengi. Þar segir: "Í júní í fyrra átti Kristján Hjelm viðræður við forsvarsmenn Sambands íslenskra sparisjóða varðandi deilurnar um atkvæðisrétt stofnfjáreigenda í sparisjóðnum sem tengdir eru KS. Þá sagði hann m.a. í samtali við Morgunblaðið þann 4. júní í fyrra: "Við erum að vinna í að styrkja stöðu sparisjóðanna í heild sinni til þess að ekki verði stílbrot í starfsemi sparisjóðanna með því að Sparisjóður Hólahrepps rífi sig á einhvern hátt út úr heildarsamtökunum." Sagði Kristján líklegt að þetta myndi gerast ef aðilar tengdir KS næðu undirtökunum í stjórn sjóðsins. "Þetta er þó frekar spurning sem þeir ættu að svara. Hver er meining þeirra með að komast yfir minnsta sparisjóð landsins?"
Er þarna komin skýringin? En hver er þá skýringin á því að Magnús Brandsson, stjórnarformaður Sparisjóðs Hólahrepps, sem jafnframt er sparisjóðsstjóri í Ólafsfirði, og allir héldu að væri mikill sparisjóðsmaður, styður það að Kristjáni Hjelm sé bolað úr starfi. Sjálfur segist hann vinna í sönnum anda sparisjóðanna og bætir því við, að hann sé ekki í liði með neinum.Væri ekki nær að vera í liði með þeim sem sýnt hafa í verki að þeir eru hlutverki sínu trúir með því einmitt að starfa í sönnum anda sparisjóðanna?