Fara í efni

STÐYJUM SKÁTANA Á ÚLFLJÓTSVATNI

Skátar 2
Skátar 2

Undanfarna daga hefur staðið alþjóðlegt skátamót á Úlfljótsvatni í Grafningi. Þar hafa skátar komið sér upp góðri aðstöðu. Uppbyggingarstarfið hefur staðið sleitulaust í meira en hálfa öld. Að baki hafur búið mikill eldmóður en ekki alltaf mikil efni.
Stuðnings hafa skátar notið frá ríki og Reykjavíkurborg þótt einhver uppstytta ætli þar að verða sem væri mjög leitt og reyndar mjög slæmt.
Þegar ég heimsótti skátamótið á Úlfljótsvatni í gær ásamt fjölskyldu,  varð einhverjum á orði hve merkilegt væri að verða vitni að öflugu æskulýðsstarfi skátanna þar sem nánast allt væri unnið í sjálfboðavinnu og af einskærum áhuga. Slíkt væri á hverfanda hveli í heimi sem rukkaði fyrir allt stórt og smátt. En þarna eru allir veitendur og gefendur. Skátarnir og starfsemi þeim tengd er af þeim toga. Til skátanna nær að sjálfsögðu naflastrengurinn til Landsbjargar og hjálparsveitanna sem eiga sér langa hefð og sögu í skátahreyfingunni.
Undanfarna daga hafa á þriðja þúsund manns dvalið á Úlfljótsvatni, bæði skátaflokkarnir og fólk í fjölskyldubúðum. Þarna sést hvorki sígaretta né áfengisflaska, en mikil skemmtun og græskulaus gleði.
Á næsta ári verður alþjóðamót skáta haldið á Úlfljótsvatni og er gert ráð fyrir að það sæki um sex þúsund manns. Munar um minna og liggur í augum uppi að þetta mun krefjast mikillar skipulagningar og vinnu.
Óskandi væri að opinberir aðilar og þá einkum ríki og borg, skilji að jafnvel minnsta framlag nýtist vel í starfi sem óumdeilanlega hlýtur að teljast gott og uppbyggilegt.