Fara í efni

STARFSMENN Í ÖLDRUNARÞJÓNUSTU VILJA GERA GAGN

Kristín Guðmunds - SVUNTA
Kristín Guðmunds - SVUNTA


Það skiptir máli hvað knýr okkur til verka. Þetta skiptir ekki síst máli þegar við ræðum fyrirkomulag á þeirri þjónustu sem við viljum að samfélagið bjóði upp á. Þetta kom upp í hugann á fimmtudag fyrir rúmri viku þegar Sjúkraliðafélag Íslands efndi til ráðstefnu um réttindi aldraðs fólks með áherlsu á þá þjónustu sem öldruðum ber að fá.

Mér þótti vænt um það þegar Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélagsins, sagði í upphafsræðu sinni að þessi ráðstefna væri eins konar framhald á Iðnófundinum   https://www.ogmundur.is/is/greinar/vel-heppnadur-idnofundur-um-heimathjonustu-vid-aldrada um þjónustu við aldraða í heimahúsum.

Kristín Á. Guðmundsdóttir sagði í upphafi ráðstefnunnar að nú ættum við eftir að heyra fjölmörg erindi. Þar yrðu eflaust einhver fyrirheit gefin. Fyrirheit væru vissulega góðra gjalda verð en við ættum ekki einvörðungu að horfa til þeirra heldur, og þá ekki síður, til efndanna. Þarna yrði að vera samræmi á milli. Orð og efndir yrðu að fara saman. En síðan bætti hún því við að umræða um fyrirheit og efndir væri af hinu góða og til þess fallin að færa okkur úr stað. Þess vegna væri efnt til ráðstefnu á borð við þessa.     

Hér er að finna tilvísan í ráðstefnuna á heimasíðu Sjúkraliðafélags Íslands: http://slfi.is/frettir-2/frettir-eftir-ari/4395-fjoelsott-radhstefna-um-rettindi-aldradhra

Á þessari ráðstefnu var margt sagt sem upplýsti og inspíreraði. Þessa gat ég í samantekt í lokin. Nefndi ég nokkur atriði og lagði áherslu á þá jákvæðni sem mér virtist einkenna ráðstefnuna; hve samstiga allir sem til máls tóku, voru að vilja bæta réttarstöðu aldraðra og efla þá þjónustu sem öldruðum ber.  

En einu gleymdi ég. Talskona embættis Landlæknis, Laura Sch. Thorsteinsson sagði í prýðilegu erindi sínu um margbreytileika þess aðhalds sem embættinu væri ætlað að veita, að þegar allt kæmi til alls þá ynni heilbrigðsstarfsfólk til að láta gott af sér leiða, drifkrafturinn væri að gera gagn. "Er það ekki þannig", spurði hún salinn, "erum við ekki að vinna til að gera gagn?"
Jú,
svaraði salurinn einum rómi.

Og þá hugsaði ég, er það ekki þetta sem skiptir máli: Hver hvatinn er sem knýr starfsfólk til verka og þar með starfsemina yfirleitt, að græða eða gera gagn!

Það skiptir máli hvert markmiðið er sem stjórnendum er gert að horfa til, buddu fjárfestisins eða hagsmuna samfélagsins.
Kristín - salur SFLÍ