Fara í efni

STÆRRI EN ÞJÓÐIN

MBL -- HAUSINN
MBL -- HAUSINN

Birtist í Morgunblaðinu 13.02.09.
Þingmenn og verjendur valdakerfis Sjálfstæðisflokksins ráðast nú gegn forsætisráðherra með sama offorsi og gert var þegar Sjálfstæðisflokkurinn gafst upp við landstjórnina árið 1988. Hegðan þingmannanna og varnarsveitar íhaldsins undirstrikar að annaðhvort skilja þau ekki efnahagshrunið, vilja ekkert af því vita, eða halda að það komi sér ekki við, hvað þá að þau beri ábyrgð á því með átján ára samfelldri óábyrgri efnahagsstjórn.

Gerendur rúnir trausti

Í erlendum fréttaskýringum hefur efnahagshrunið íslenska verið rakið til stjórnarstefnunnar sem hér hefur verið rekin árum saman. Sama mátti raunar lesa úr orðum tveggja hagfræðinga í Kastljósi ríkissjónvarpsins nýlega.
Gagnrýnt hefur verið að hér hafi nánast ríkt taumlaus frjálshyggja byggð á brauðmolakenningum Reagans og Thatcher. Efnahagsstefna þessara þjóðarleiðtoga byggðist meðal annars á að selja ríkisfyrirtæki á smáaura til vildarvina, að létta sköttum af yfirstéttinni og breyta skattkerfinu þannig að skattbyrðin legðist fyrst og fremst á almenning. Sá sem hugsar sig um sér á augabragði hliðstæðuna við samfélagsgerðina, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur byggt upp á átján árum á Íslandi. Ástæðan fyrir því hve alvarlegt hrunið er hér skrifast fyrst og fremst á hið eftirlitslausa ríkisvald frjálshyggjunnar, sem þessi minnihlutaflokkur á Alþingi hefur byggt upp á valdatíma sínum. Forsætisráðherrann ætti að þekkja af eigin raun hversu harðskeyttir sjálfstæðismenn eru þegar sækja þarf fram undir gunnfána frjálshyggjunnar til hagsbóta fyrir sérhagsmunahópana sem bera stjórnmálaarm sinn uppi. Hún ætti líka að vita að þeir leggja allt í sölurnar til að ná valdataumunum aftur.

Verkefnið framundan

Flokkarnir sem tekið hafa að sér að stjórna landinu fram að kosningum hafa tekið að sér það verk að þrífa upp eftir Sjálfstæðisflokkinn og gildir einu hvort menn tala í þessu sambandi um Samfylkinguna og Vinstrihreyfinguna - grænt framboð, eða bæta Framsóknarflokknum við. Sjaldgæfur samhljómur er með talsmönnum flokkanna þriggja um að viðskilnaður frjálshyggjunnar sé hrikalegur.
Efnahagsmálin eru í rúst, herleiðing fyrirtækjanna í landinu er að setja fjölmörg þeirra á hausinn, aðstæðurnar sem fjölskyldum og heimilinu hafa verið búnar eru að sliga mörg þeirra nú, almenningur hefur ekki lengur það borð fyrir báru sem allir þurfa.
Verkefni ríkisstjórnarinnar er að snúa af braut frjálshyggjunnar, leysa fyrirtækin undan því helsi sem þau rötuðu í vegna vanburða efnahafsstefnu, tryggja að fjölskyldur missi ekki eignir sínar og heimili og síðast en ekki síst, að gefa almenningi í landinu von í stað vonleysisins, sem verður í farangri Sjálfstæðisflokksins næstu árin.

Eftirlitslaust

Þjóðhagsstofnun var lögð niður af því að upplýsingarnar sem hún birti, sjálfstæðið sem hún tók sér, það sem hún gaf út og hafði skoðun á, átti það til að ganga gegn hagsmunum valdakerfisins Sjálfstæðisflokksins. Ekki alltaf. En stöku sinnum. Það var of mikið. Bankastjórar Landsbanka Íslands voru slegnir af til að greiða fyrir því að afhenda mætti hann vildarvinum.
Í þeim skollaleik mátti ekki á milli sjá hvor gekk harðar fram, núverandi seðlabankastjóri, eða sá fyrrverandi, Davíð Oddsson, eða Finnur Ingólfsson. Meira að segja rafmagnseftirlitið þurftu þeir að leggja niður því eftirlitslaust skyldi samfélagið vera. Markaðurinn skyldi nokk færa okkur bestu lausnirnar. En hvar var þá krafan um hina vönduðu „stjórnsýslu" sem sjálfstæðismenn halda nú hæst á lofti. Sóltúnssamningur Geirs H. Haarde var gerður og enginn þorir að spyrja um forsendur þess samnings og samanburðinn við áþekk hjúkrunarheimili. Ágreiningi um greiðslur var pakkað snyrtilega í lopahnykil af sjálfstæðisráðherrum þótt Ríkisendurskoðun gæfi samningnum og eftirlitinu falleinkunn, bæði í fyrri og seinni hálfleik. Þá, eins og þegar Landsbanki Íslands var seldur, fór fram útboð til að sýnast. Veruleikinn snerist um vildarvini og hugmyndafræði frjálshyggjunnar.

...og gagnrýnislaust

Öll gagnrýni var slegin úr af borðinu. Háskólarnir voru gerðir háðir fyrirtækjum og sérhagsmunahópum, kjör háskólamanna gerð þannig að sumir þeirra hafa þurft að laga akademískt frelsi sitt að viðvikum fyrir framkvæmdavaldið og stundum að hagsmunum fyrirtækja í landinu. Eigum við að fara yfir í gegndarlausar árásir gegn Ríkisútvarpinu í sextán ár? Eigum við að rifja upp aðförina, sem gerð var að forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, eða þáverandi forstjóra Byggðastofnunar, sem þvingaður var úr starfi? Bíðum við, voru sjálfstæðismenn á Alþingi að tala um hreinsanir?
Skipuðu verslunarráðið, Vinnuveitendasamband Íslands, stórkaupmenn og forsætisráðuneytið ekki nefnd á nefnd ofan á sinni tíð sem áttu að uppræta allt eftirlit í samfélagi frjálshyggjunnar, af því að markaðurinn sæi um þetta? Það þýðir ekkert að bregða sér í líki gullfisksins þegar þetta er rætt og þykjast ekki muna. Hvernig var með kvótann og byggðastefnuna? Kom ekki virðing frjálshyggjupostulans fyrir landbyggðarfólki í ljós þegar hann sagði að það væri ekki óhagstætt að koma Vestfirðingum fyrir í blokk á Kanarí - og sá einn sem þorði að mótmæla var Matthías Bjarnason? Var ekki Stefán Ólafsson félagsvísindamaður úthrópaður sem einskis nýtur rati af því að hann gagnrýndi aðgerðir ríkisstjórnar sem báru öll einkenni frjálshyggjunnar? Reyndi ekki fjármálaráðuneytið að valta yfir virtan fréttamann, sem sagði réttar fréttir um skattamál, Kristján Má Unnarsson? Nei, út með allt eftirlit og enga gagnrýni. Fullkomin hlýðni við valdakerfi Sjálfstæðisflokksins. Hvernig var með REI-málið, hver var hugmyndasmiðurinn? Var það ekki fyrrverandi heilbrigðisráðherra? Og af hverju ekki að rifja upp hvernig framkvæmdavald Sjálfstæðisflokksins valtaði fyrir hæstaréttardómara sem dæmdu í öryrkjamálinu. Eftirlitslaust og gagnrýnislaust, þjónandi valdakerfinu, það er málið! Jafnvel gild rök og góð voru fjarlægð af opinberum vettvangi. Var ekki Indriða Þorlákssyni, nú ráðuneytisstjóra, hent úr sérstakri nefnd um fjármagnstekjuskatt á sínum tíma af því að upplýsingarnar sem hann færði fram voru óþægilegar, pössuðu ekki? Var ekki sest á þann mann þegar hann reyndi með vísan til alþjóðlegra rannsókna að sýna fram á að breyting á virðisaukaskatti gæti grafið undan kerfinu? Tók ekki valdakerfi flokksins sig saman um að þegja gagnrýni hans á útrásarskattasniðgönguna í hel?

Salomonsdómur

Forsætisráðherra ritaði Davíð Oddssyni, og bankastjórunum tveimur, bréf sem hún gerði opinbert. Kannski var það misskilið gegnsæi. Hún bauð bankastjórunum að segja af sér sem lið í að geta byggt upp traust á íslensku fjármálalífi. Ekki af því að þeir hefðu gerst brotlegir við lög, heldur vegna þess að mikilvægt væri að skipta um áhöfn í brúnni. Menn, velviljaðir aðalbankastjóra Seðlabankans, sem ég hygg að hafi réttilega getið sér til um að honum var bréfið fyrst og fremst ætlað, myndu ekki kalla þetta áfellisdóm heldur Salomonsdóm. Í framhaldinu sagði forsætisráðherra að hún hefði öðrum hnöppum að hneppa en að standa í orðahnippingum við formann bankaráðs Seðlabanka Íslands.
Bankamaðurinn birti hins vegar bréf sitt á vefsíðu Seðlabankans, á haus Seðlabankans og ritaði það á bréfsefni bankans.
Og hér gerðist það sem sjaldan hefur gerst á átján árum. Hann egndi gildruna og gekk svo beint í hana sjálfur. Skrifaði jafn flokkspólitískan pistil og hann stílaði á Sverri Hermannsson hér um árið. Sami tónn, sami stjórnmálakappinn - en nú á bréfsefni Seðlabankans. Frábær texti og skemmtilegur. En nei, seðlabankastjórinn, hann er löngu hættur stjórnmálaafskiptum. Sýnist mönnum það? Prakkarar gætu haldið því fram, kannski meira í glensi en alvöru, að hann teldi sig vera stærri en sjálfur bankinn, eða þjóðin.