Fara í efni

SPURT AÐ GEFNU TILEFNI

Frettablaðið
Frettablaðið

Birtist í Fréttablaðinu 28.10.13.
Fram hefur komið að ríkisstjórnin vill leita leiða við að einkavæða samgöngukerfið. Einkaaðilar eignist til skamms eða langs tíma flugvelli, hafnir og vegi. Verktakarnir komi með fjármagn í uppbyggingu þessara mannvirkja og rukki síðan notendur. Með þessu móti yrði hægt að lækka skatta en láta notendur borga. Þegar virðist vera farið að búa í haginn fyrir þetta fyrirkomulag með sveltistefnu. Þannig er skorið niður við almennar vegafrmakvæmdir um 750 milljónir og byrjað að þrengja að innanlandsfluginu og þótti mörgum nóg að gert á undangengnu kjörtímabili. Allt þetta verður hins vegar skiljanlegra ef verkefnið er að knýja fram kerfisbreytingar.
Einkavætt kerfi yrði náttúrlega dýrara fyrir samfélagið því það gerir ráð fyrir nýjum millilðum sem tækju sitt til sín. Einnig er hætt við því að þetta verði ranglátara kerfi því notendur á strjálbýlum svæðum ættu erfiðar með að fjármgna framkvæmdir en þéttbýlingar.
Þá hefur verið bent á að hætt sé við því að skipulagsvald verði flutt frá lýðræðislega kjörnum aðilum til verktaka. Þetta mátti skilja á svörum sem gefin voru um mögulegar einkaframkvæmdir í vegakerfinu. Þar var nefnd Sundahöfn, nýr vegur um Öxi og Svínvetningabraut í Húnavatnssýslu. Allar þessar hugsanlegu framkvæmdir eru sagðar búa yfir þeim kosti að aðrar samgönguleiðir yrðu færar til að komast á milli staða, valið yrði vegfarandans.
Það má hins vegar aldrei gleymast að við sem samfélag kæmum til með að standa straum af öllum þessum kostnaði hvort sem væri við Öxi, Sundabraut eða Svínvetningabraut.
En augnablik. Svínvetninabraut er ekki á samgönguáætlun! Hún var jafnframt tekin út úr allri skipulagsvinnu og fór ekki lítið fyrir því þegar það var gert. Og er þá komið að spurningu minni. Ef fyrirtækið sem á sínum tíma vildi Svínvetningabraut, vill nú að nýju fara í þá frmakvæmd, ræður þá fyrirtækið? Yrði Svínvetningabraut þá aftur á áætlun? Ef svo er, væri það endanleg sönnun þess að skipulagsvaldið er komið til verktakanna.
En svona auðvelt verður þetta ekki. Þótt ríkisstjórnin vilji þjóna peningavaldinu þá er sem betur fer ekki enn búið að slökkva á þjóðinni. Hinni sömu og á að borga hinum nýju skattheimtumönnum!