Fara í efni

SPURNING UM EFTIRSPURN


Nýlega sat ég fund dómsmálaráðherra Norðurlandanna. Þar var fjallað um þau málefni sem helst brenna á löggæslu og dómsmálayfirvöldum í hverju landi. Rakti ég gang mála í rannsókn efnahagsbrota og baráttu gegn skipulegri glæpastarfsemi á Íslandi.  Þá var rætt um vaxandi straum flóttamanna og hælisleitenda og hvernig brugðist er við í hverju landi um sig. Þegar á heildina er litið eru öll Norðurlöndin að kljást við svipuð viðfangsefni.
Umræðan um skipulega glæpastarfsemi þótti mér umhugsunarverð um margt. Sagt var frá könnun sem gerð hefur verið í Danmörku á því hvers vegna ungir menn gengju til liðs við samtök á borð við Hells Angels. Oft á tíðum væri um að ræða  rótlausa menn sem fyndu fast land undir fótum í samtökunum með skýrum reglum og viðmiðunum sem kæmu röð og reglu á brotinn heim. Inn í nýja  og varhugaverða tilveru soguðst menn síðan  þar til þeir væru orðnir fastir og ættu að lokum ekki afturkvæmt jafnvel þótt þeir gjarnan vildu. Þannig væru reglurnar og kvaðirnar. Viðfangsefnið, sagði skýrlsan, er að finna ungu fólki verðugri tilveru en samtök sem tengjast ofbeldi og glæpum og gera þá tilveru eftirsóknarverða. Með öðrum orðum, verkefnið væri að gera ungu fólki grein fyrir að glæpaheimurinn væri ekki eftirsóknarverður.
Í umræðunni sem þarna spannst var sagt frá hliðstæðri könnun annars staðar frá. Þar var fjallað um orsakir þess að fólk ánetjaðist samtökum ofbeldisfullra ofsatrúarmanna. Vísað var til þess í könnuninni að í Kosovo á Balkanskaga hefðu  ofsatrúarsamtök sent umtalsvert fjármagn til að reisa samkomustaði í þeim tilgangi að leggja þar snörur fyrir ungviðið sérstaklega. En viti menn. Þegar samkomuhúsin voru risin og skráning átti að hefjast gerðist nákvæmlega ekkert. Það var engin eftirspurn!
Það sem á við á einu sviði getur hæglega átt við á öðrum. Ef engin eftirspurn er eftir starfsemi ofbeldissinnaðra hópa þrífast þeir ekki. Ef engin eftirspurn er eftir vændi þá er heldur ekkert mansal. Ábyrgð samfélagsins er skýr.
Sjá nánar af fundi: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/27196