Fara í efni

SPURÐU PÁL


Um leið og ég óska Óðni Jónssyni, nýráðnum fréttastjóra sameinaðrar fréttastofu hljóðvarps og sjónvarps á RÚV ohf. velfarnaðar í starfi, vil ég vekja athygli á ráðningarmátanum. Hinn nýi fréttastjóri er ráðinn án auglýsingar og samkvæmt ákvörðun eins manns, Páls Magnússonar, útvarpsstjóra. Þetta er alla vega skilningur hins nýráðna fréttastjóra. Í DV, miðvikudaginn 17. september, er hann sem "maður dagsins" spurður, af hverju þú en ekki Elín Hirst? Ekki stóð á svari hins nýráðna manns: Spurðu Pál.

Nú er það svo að RÚV ohf., sem fjármagnað er einvörðungu með almannafé, gegnir lykilhlutverki sem upplýsingaveita landsmanna. Eftir því sem fjármagnið gerist áhrifameira í heimi fjölmiðlanna, duttlungar eigenda og stjórnenda ráða meiru, þeim mun mikilvægara er að tryggja að annað sé uppi á tengingnum varðandi Ríkisútvarpið. Ekki síst af þessari ástæðu lögðust margir hart gegn hlutafélagavæðingu RÚV.

Ekki svo að skilja að breytinga hafi ekki verið þörf á lagarammanum um Ríkisútvarpið. Sjálfur var ég þess mjög fýsandi að umbætur næðu fram að ganga og var ég fyrsti flutningsmaður þingflokks VG að frumvarpi þess efnis.
Í þessu frumvarpi - sem byggði meðal annars á hugmyndum sem fram höfðu komið í endurskoðunarnefnd um útvarpslögin í menntamálaráherratíð Svavars Gestssonar og ég var í formennsku fyrir - var stefnt að því að efla áhrif starfsmanna en jafnframt færa ráðningarvaldið inn fyrir dyr stofnunarinnar. Hugsunin var sú að einstakar deildir RÚV yrðu sjálfsráðar um framkvæmd ráðninga þótt skýrt væri kveðið á um að ábyrgðin lægi hjá stjórn stofnunarinnar. Þegar hins vegar um væri að ræða ráðningu í dagskrárstöður ætti stjórn stofnunarinnmar tvímælalaust að koma að málinu. Þessi ákvæði er m.a. að finna í umræddu lagafrumvarpi :

"Í framkvæmdastjórn sitja útvarpsstjóri, framkvæmdastjórar allra deilda Ríkisútvarpsins og jafnmargir fulltrúar kjörnir af starfsmönnum, einn frá hverri deild, og fulltrúi dagskrárráðs en hann hefur málfrelsi og tillögurétt. Útvarpsstjóri er formaður framkvæmdastjórnar og er framkvæmdastjóri fjármáladeildar varamaður hans.
Framkvæmdastjórn ber ábyrgð á almennum rekstri, mannaráðningum, samræmingu á starfi deilda og annarri stjórn Ríkisútvarpsins.
......Útvarpsstjóri annast ráðningu starfsmanna, þó jafnan að tillögu framkvæmdastjórnar ef um starfsfólk dagskrár er að ræða."

Nú getur vel verið að Óðinn Jónsson hefði einmitt verið sá maður sem fengið hefði ráðningu sem fréttastjóri Rúv eftir að starfið hefði verið auglýst og samkvæmt þeim lagabókstaf sem hér var gerð tillaga um. Mín gagnrýni snýr ekki að hans persónu heldur fyrirkomulagi sem gerir það að verkum að ráðning af þessari stærðargráðu skuli vera komin undir geðþóttavaldi eins manns. Allt snúist um hans vilja. Vilja Páls.