Fara í efni

SPRENGT Í AÐALDAL, 50 ÁRA HERHVÖT: UM HEIMILDARMYND OG GREINARSKRIF

Fyrir 50 árum og einum degi betur, hinn 25 ágúst 1970, var komið fyrir sprengju í stíflu sem var í byggingu við Laxá í Aðaldal í Þingeyjarsýslu.  113 lýstu verkinu á hendur sér. þar af voru 65 ákærðir.

Grímur Hákonarson, kvikmyndagerðarmaður gerði prýðilega heimildarmynd um þennan viðburð og verður hún sýnd í Sjónvarpinu í kvöld. Þetta er endurtekin sýning, sjá hér:  https://www.ogmundur.is/is/greinar/thad-sem-their-vildu-fa-var-ekki-til-solu
 
Tíminn flýgur. Ævar Kjartansson, útvarpsmaður var í hópi þeirra sem voru ákærðir. Hann heldur upp á sjötugsafmæli sitt í dag. Var nánast tuttugu ára þegar sprengt var.

Til hamingju með afmælin tvö Ævar, þitt afmæli og aðgerðar ykkar til bjargar Laxá í Aðaldal!

Margt gott hefur verið skrifað um þennan viðburð. Björn Jónasson lýsir honum sem herhvöt til varnar umhverfinu. Í grein hans sem birtist í Þjóðmálum fyrir nokkrum árum er vel að orði komist og fékk ég leyfi hans til að birta grein hans hér.   

Hvellur – Hin óhjákvæmilega eyðilegging Mývatns

Umræðan um myndina Hvell og atburðina sem þar er lýst er öll á einn veg. Fólk er yfirleitt sammála um að bændur hafi forðað stórslysi. Að hefðu áform verkfræðinga og virkjunarsinna náð fram að ganga hefði tjónið verið óbætanlegt. Fremja átti hryðjuverk gegn Íslandi. Því var afstýrt með hjálp Dýnamits.

Myndin hefst á því að áhorfendur eru leiddir mjúklega inní þá Paradís sem Mývatnssveit og Laxárdalurinn eru. Við erum látin vagga í öldunni á bát í fögru sumarveðri, umkringd fjölskrúðugasta fuglalífi sem fyrirfinnst á Norðurhveli jarðar. Hér búa fimmtíu andategundir. Hér veiðist urriði og lax. Hér er að finna friðsæla kjarrgræna hólma. Vatnið er tært og kalt og blátt. Hvert sem litið er má sjá lágreista, ávala gíga, hraundranga og önnur merki um eldsumbrot. Allt þetta klætt grænni slikju sumargróðurins.

 Við erum í fylgd með heimamönnum sem tala upphátt við endurnar, bursta fluguna úr vanganum eiginlega án athygli. Þetta er einsog að ganga um ósnerta skógana við Amazon í fylgd með frumbyggjum. Tíminn er ekki mældur með armbandsúri og ekki dagatali. Hér ríkir Móðir Náttúra ásamt dætrum sínum Fegurðinni og Elífðinni. Við erum stödd í anddyri fullkomleikans.

mynd 1.png

Við erum stödd í myndskreytingu við upphaf Völuspár, er Völvan lýsir heiminum svo:

"Sól skein sunnan
á salar steina,
þá var grund gróin
grænum lauki."

En einsog í Völuspá líður ekki á löngu þar til Loki birtist í líki virkjunarsinna og eyðileggur jafnvægið í tilverunni. Ekkert fagurt eða gott má nokkurn tíman vera í friði fyrir Loka. Það er hans eðli. Og engum mælist betur en honum. Og enginn er rökfastari og enginn er hjartalausari og enginn jafn sjarmerandi.

Og skyndilega rætist Völuspá og komið er borgarastríð milli íbúanna í þessari Paradís og einhverra verkfræðinga sem hafa reiknað út að það sé enginn tilverugrundvöllur á Akureyri nema Mývatn og Laxárdalur verði eyðilögð.

Og Þingeyingar settust á rökstóla. Rétt einsog "Þór þrunginn móði" þá var Hermóður bóndi þrunginn móði og úr varð ásetningur um að verja heimabyggðina með öllum ráðum. Virkjanamenn hófust handa án leyfa, án viðræðna við heimamenn, án tillits til laga og án samráðs við heilbrigða skynsemi. Málið snýst ekki um náttúruvernd heldur hagsmuni, sagði einn forsvarsmanna virkjunarsinna, sem Völuspá hefði kallað Jötna.

mynd 2.png

Lýsingar Hvells á átökunum og aðdraganda þeirra eru áhrifamiklar og ekki síst er samstaðan merkileg og samheldnin. Íbúar í Mývatnssveit brugðust við einsog fólk sem verður fyrir árás og þarf að berjast fyrir tilverurétti sínum. Til stóð að flytja fólk af jörðum sínum og það án samráðs og án fyrirvara.Vinnubúðir voru settar niður á túnum bænda án tilkynningar og án leyfis.

Síðan var sprengt og þá var einsog móðurinn hyrfi virkjanasinnum. Það virtist einsog lífinu á Akureyri væri ekki mjög ógnað með tilveru Mývatns eftir allt saman. Akureyri blómstrar og Mývatn hefur aldrei verið fegurra.

Og jörð reis aftur úr sæ eftir ragnarök og allt varð gott að nýju einsog segir í Völuspá

Falla fossar,
flýgur örn yfir,
sá er á fjalli
fiska veiðir.

Og myndinni lýkur á frásögn af uppgjöf stjórnvalda sem kannski voru aldrei neitt sérstaklega áhugasöm um að raska ró Mývetninga.

Umfjöllunarefni myndarinnar öðlast svo skyndilega aðra vídd í nútímanum, þegar Loki birtist aftur í líki Landsvirkjunar og nú er það Húsavík sem mun eyðast ef ekki verður virkjað í Bjarnarflagi, Þeistareykjum og víðar í nærsveitum Mývatns. Þessar framkvæmdir munu örugglega hafa eyðileggjandi áhrif á vatnið í Mývatni og hafa í för með sér brennisteinsmengun og spilla náttúrugæðum öðrum.

Loki, sem aldrei gefst upp mælir nú mildari rómi, ber fé á menn og hefur áhuga á umhverfisvernd. Hann deilir og drottnar, hann er "faglegur". Hann eyðileggur fyrst í rannsóknarskyni og síðan til hagsbóta fyrir heimamenn og er tilbúinn með bætur og gjöld.

Það er vert að skoða hvað felst í faglegheitunum. Leikmaður horfir yfir Mývatn og fyllist aðdáun og lotningu. Ekki mikil fagmennska þar. Í skýrslunni sem fylgir með rammaáætlun segir á einum stað:

".... átti að meta fagurfræðilegt og tilfinningalegt gildi landslags og upplifunargildi þess. Þar yrði byggt á niðurstöðum fyrri hlutans en fagurfræðilegt gildi og upplifunargildi m.a. metið með skoðanakönnunum meðal almennings. Ekki tókst að afla fjár til að vinna þennan hluta verkefnisins."

Þannig að það er ekki enn vitað hvort Mývatn er fallegt. Í fagmannaheiminum hafa verið skilgreind hugtök einsog upprunaleiki, upplifunargildi, þekkingargildi og táknrænt gildi. Og síðan er hugtökunum gefið vægi, 0,25 og 0,33 og 25 og 66 og svo framvegis og búin til formúla, sem er þá faglegt mat. Með þessari aðferð hefur fengist leyfi að nýju til að eyðileggja Mývatn. Fagmennirnir ákváðu að setja Geysi í verndarflokk vegna þess að hann væri "Mikilvægt ferðamannasvæði og heimsþekktar náttúruminjar". Ég hefði getað sagt nefndinni það ókeypis og er þó leikmaður.

mynd 3.png

Hugmyndafræðin á bak við rammaáætlun er kolröng. Það er fráleitt að gera það að útgangspunkti að hægt sé að reikna út hagkvæmni virkjunar með því að gefa náttúrufegurð einkunn. Það endar illa. Enda hafa Landsvirkjunarjötnarnir þegar komið með krók á móti bragði. Með því að leggja sæstreng til Bretlands er hægt að selja orkuna svo dýrt, að allar virkjanir verða hagkvæmar. Bæði Geysir og Landmannalaugar færu lóðbeint í nýtingarflokk.

Það hafa verið skrifaðir nokkrir ágætis pistlar um Hvell. Það er hægt að skoða myndina frá mörgum hliðum að sjálfsögðu. Einn pistlahöfundur sá í myndinni hetjulega baráttu fyrir eignarréttinum. Aðrir súpa hveljur yfir því hve litlu munaði að heimska fortíðarinnar hefði haft betur og eyðilagt einhverja mestu náttúruperlu í veröldinni. Allir dást að samstöðunni í sveitinni.

En í mínum huga er myndin fyrst og fremst herhvöt. Hún er upphaf að baráttunni fyrir friðhelgi Mývatns. Ekki bara heimildamynd og alls ekki sögulok. Baráttuaðferðir "Jötnanna" hafa breyst. Í stað hótana eru í boði gull og grænir skógar. Með nýlegum lagabreytingum, svo sem til dæmis á vatnalögum, er hægt að bera fé á einstaka bændur og einstakar sveitarstjórnir og rjúfa þannig samstöðu sveitanna.

mynd 4.png

Sameinaður þingheimur samþykkti fyrir fáum mánuðum síðan, að leyfa virkjanir sem munu örugglega ganga af Mývatni dauðu. Virkjanir á Þeistareykjum og Kröflu og Bjarnarflagi munu raska vatnsbúskap svæðisins. Fuglaparadísin Mývatn mun ekki lifa af þá brennisteinsmengun sem af mun hljótast. Mývatnssvæðið sem er eitthvert mesta augnayndi heims mun verða örum sett af bormöstrum, háspennulínum og öðrum mannvirkjum. Gervallur þingheimur og þar á meðal forstöðumenn umhverfissinna á þingi samþykktu eyðileggingu Mývatns þann 14. janúar 2013.

Við getum huggað okkur við að þegar Mývatn verður á endanum eyðilagt til að tryggja byggð á Húsavík, þá verður það gert á faglegum forsendum.

Björn Jónasson, útgefandi.

(Myndir birtar með leyfi Miðkvíslar ehf.)

https://timarit.is/page/6666709?iabr=on#page/n18/mode/1up/search/Bj%C3%B6rn%20J%C3%B3nasson%20um%20Hvell