Fara í efni

SPRENGJA INN Á MORGUNVERÐARBORÐIÐ EÐA ÞAKKARGJÖRÐ HÁTEKJUMANNS?

Ekki er alltaf hlaupið að því að vita hvenær Gunnar Smári Egilsson, æðstráðandi 365 daga fjölmiðlasamsteypunnar, er að grínast og hvenær honum er alvara. Oft gruna ég hann um að setja fram staðhæfingar til að ögra lesandanum og fá hann þannig til að bregðast við. Ef þetta er tilgangurinn þá er óhætt að segja að honum hafi tekist prýðilega upp gagnvart innyflunum í mér með pistli sínum í laugardagsútgáfu Fréttablaðsins.

Gunnar Smári dásamar það sem hann kallar "vellukkaðar samfélagsbreytingar" síðustu ára. Þar á hann við einkavæðingu bankanna, sölu ýmissa þjóðareigna og markaðsvæðingu almennt. Grein Gunnars Smára gengur síðan út á að hafna þeirri söguskýringu að hér hafi verið byggt upp velferðarsamfélag með félagslegu átaki og líkir því við sögufölsum sem kommúnistar í Austurvegi hafi haft í frammi um að allar framfarir hafi verið kommúnísku stjórnarfari að þakka. Við eigum að líta á okkur sem fyrrum Sovétlýðveldi "í tiltölulega hægum bata", segir Gunnar Smári. Hann vill nefnilega fara miklu hraðar í sakirnar en nú er gert og spyr óþolinmóður: "Hvað getum við losað undan ríkinu nú þegar bönkunum og Landssímanum hefur verið sleppt lausum: Landsvirkjun, Ríkisútvarpið, Íslandspóst?Hagaskóla, Landspítala, Þjóðleikhús? Þrátt fyrir að enginn andmæli því að þau fyrirtæki sem hafa verið einkavædd skili viðskiptamönnum sínum miklu betri þjónustu á eftir þá jaðrar það við óþjóðhollustu að stinga upp á að selja skólana og spítalana næst. Samt ættum við helst af öllu að óska börnum og sjúkum betri aðbúnaði."

Ef taka á grein Gunnars Smára alvarlega, yrði að benda á að hin skefjalausa markaðsvæðing í austanverðri Evrópu hefur að mati margra sem til þekkja gengið allt of langt og leitt til skefjalausrar misskiptingar auk þess sem markaðsvæðingin hefur auðveldað þjófum að fara ránshendi um þessi samfélög. Því miður hafa Íslendingar komið þar nokkuð við sögu og sölsað undir sig mikilvægar samfélagseignir í þessum heimshluta.
Síðan er náttúrlega hin staðhæfingin að markaðsvæðingin hafi að allra manna mati skilað "miklu betri þjónustu", nokkuð fjarri sannleikanum, þótt ekki væri nema fyrir það eitt að fjöldinn allur telur svo ekki vera og hefur látið þá skoðun í ljósi á þann hátt að enginn ætti að geta hafa komist hjá því að þekkja til þeirra sjónarmiða. Og varðandi efnislegt innihald þessarar staðhæfingar væri fróðlegt að vita hvort þeir sem nutu skipaflutninga á meðan Ríkisskip var við lýði, telji þjónustuna betri og ódýrari nú eftir að flutningarnir voru fyrst einkavæddir og síðan lagðir af með öllu því eigendur skipafélaganna töldu sig geta ávaxtað sitt pund betur á erlendum fjármálamörkuðum. Það sem gleymst hefur stundum í þessari umræðu er að með því að leggja niður þungaflutninga á sjó þarf skattborgarinn að blæða í vegi sem duga til að flytja jarðýtur og stórkrana landshorna á milli. Það er kannski fyrir neðan virðingu forstjóra fjölmiðlasamsteypunnar að ræða málin í þjóðhagslegu samhengi. Varðandi söluna á Landspítalanum og Hagaskóla þá á Gunnar Smári eftir að botna þær hugleiðingar. Vill hann ganga alla leið og selja aðgang að þessum stofnunum eða ætlast hann til þess að skattborgarinn borgi brúsann? Ef svo er, þá langar mig til að bjóða honum að setjast með honum yfir gögn sem sýna á ótvíræðan hátt að markaðsvædd velferðarþjónusta hefur reynst skattborgaranum mun dýrari en samsvarandi þjónusta rekin af samfélaginu auk þess sem hún hefur almennt verið í verri gæðaflokki.

Ef til vill hefur Gunnar Smári ekki áhuga á slíkri umræðu. Ef til vill vakir það eitt fyrir honum að henda umræðusprengju inn á morgunverðarborðin og láta svo okkur um framhaldið. Það er góðra gjalda vert að stofna til umræðu. Þá verður hins vegar að gera þá kröfu að menn fari með rétt mál og sýni umæðunni þannig einhverja lágmarksvirðingu.

Vel má vera að Gunnar Smári sé heiðarlega að lýsa skoðunum sem búa með honum. Kannski er það ekkert undarlegt að maður með tvær milljónir á mánuði í kaup vilji til nokkurs vinna að viðhalda heimi sem færir honum slíkar tekjur og að lífssýn hans mótist af því. Fólk sem er á lágum tekjum hefur hins vegar flest allt aðra sýn á tilveruna. Fæstir trúa því að öll fengjum við blóm í haga  með því að ganga á enda brautina þar sem Gunnar Smári og félagar vilja vísa okkur. Það hefur nefnilega verið reynt. Í ríkjum þar sem er að finna óheftan kapítalisma er meiri misskipting – annars vegar ríkidæmi hins vegar örbirgð – en í ríkjum þar sem samfélagslegar lausnir eru í heiðri hafðar.