Fara í efni

SPILAVÍTI Á LÆKJARTORGI Í BOÐI HÁSKÓLA ÍSLANDS!

Háspenna - HÍ
Háspenna - HÍ


Þegar ég kom í ráðuneyti  dómsmála haustið 2010, sem síðar varð Innanríkisráðuneyti lýsti ég því yfir á fyrstu dögum að ég væri staðráðinn í því að beina kröftum að spilavandanum og skapa um hann betri umgjörð. Ekki er í boði að loka kössunum algerlega, um það er ekki nauðsynleg sátt, hvorki á Alþingi né í samfélaginu. Um það hef ég sannfærst þótt sjálfum þætti mér það besti kosturinn.

Framan af gerðist lítið í þessu starfi þar til ég ákvað að fá tímabundið sérstakan verkefnisstjóra til að stýra vinnunni. Þetta var Kristófer Már Kristinsson, fyrrverandi alþingismaður. Frá því er skemmst að segja að hann vann frábært starf í góðri samvinnu við ráðuneytið. Könnuð var löggjöf og fyrirkomulag á Norðurlöndunum og tók ég sjálfur þátt í heimsókn til Noregs eftir að ljóst varð að löggjöf þar í landi myndi að okkar mati henta okkur best. Í kjölfar þeirrar heimsóknar fengum við norska sérfræðinga til að sækja okkur heim.

Öll fór þessi vinna fram í góðu samstarfi við happdrættisfyrirtækin hér á landi og sýndu flestir fulltrúar þeirra mikinn skilning á verkefninu og ríka samfélagslega ábyrgð. Ég var því orðinn vongóður um árangur og taldi að þessi nálgun að fara hægt í sakirnar en í breiðri sátt myndi skila okkur fram á við.

Niðurstaðan varð frumvarp sem lagt var fyrir Alþingi og liggur þar enn.

Andstæðingar frumvarpsins þrástöguðust einkum á tvennu. Þeir sáu allt svart við þá hugmynd að sett yrði upp „happdrættisstofa" sem væri stjórnvöldum til aðstoðar og hjálpar og tæki þátt í að beina fjármagni til forvarna og endurhæfingar. Stofan var ráðgerð agnarsmá en það nægði öllum þeim sem eru á móti stofum og stofnunum að stöðva málið. Því var hvíslað að mér að ég skyldi reyna að koma þessu fyrir hjá einhverju sýslumannsembætti eða hafa þetta innan veggja ráðuneytisins. Þá myndi draga úr andmælunum! Á slíkt afvegaleiðandi blekkingartal vildi ég ekki hlusta en staðráðinn í að hafa málaflokkinn vel sýnilegan. Hitt sem andstæðingar gagnrýndu var tilraun til að koma böndum á netspilun. Þeir sem trúa á internetið sem heilaga kú litu á þetta nákvæmlega eins og menn einhvers staðar einmitt líta heilagar kýr: Ekki til umræðu að hrófla við neinu. Alveg sama hversu skaðlegt það er. 

Nú spyr ég um tvennt. Ætlar Alþingi að láta hjá líða að afgreiða fyrrgreint þingmál? Þar með væru stigin fyrstu skref til að koma böndum á þá ófreskju sem spilavandinn er í lífi þúsunda fólks.  Í öðru lagi, spyr ég um ábyrgðarkennd spilafyrirtækjanna og aðstandenda þeirra? Eru engin takmörk? Spilavíti á Lækjartorgi í boði Háskóla Íslands!  Nóg var nú samt.