Fara í efni

SORPUSKÓLI

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 05/06.08.23.
Á uppvaxtarárum mínum um miðja síðustu öld held ég að fáir hafi haft það á tifinningunni að náttúran ætti eitthvað sökótt við okkur mannfólkið. Menn voru ekki búnir að uppgötva hve skaðlegt það væri að búfénaður gengi um holt og haga og leysti vind eftir þörfum. Enginn taldi nauðsynlegt að planta trjám til að tryggja að jörðin gæti andað. Menn vildu hafa trjágarða til skrauts og yndisauka og hinir framsýnustu voru farnir að huga að skjólbeltum. Endalaust tekur sjórinn við var sagt þegar rusli var sturtað í sjávarkambinn eða á hafi úti og það tíðkaðist að tæma úr öskubökkum fjölskyldubílsins við vegarkantinn, pulsupappírinn þá gjarnan látinn fljúga með.

Undantekningin sannaði regluna að sjálfsögðu í þessu efni sem öðrum. Þeir voru til sem gerðu sér grein fyrir því að ekki gengi að tæta landið upp. Þegar Halldór Laxness skrifaði um hernaðinn gegn landinu og vildi að hætt yrði að borga bændum fyrir að ræsa mýrar með skurðgreftri þá var það af umhyggju fyrir öndunarfærum landsins sem hann sagði mýrarnar á Íslandi vera.

Þegar ég var að vaxa úr grasi var fólk almennt ekki farið að meðtaka varnaðarorð þeirra sem sáu lengra en aðrir.
Og hvernig hefði svo átt að vera?

Við keyptum mjólk í brúsa, skyrið var vigtað og því síðan pakkað í þunnan pappír í mjólkurbúðinni og fisksalinn vafði dagblaðinu frá í gær um fiskinn sem við keyptum nýlandaðan frá smábátasjómönnum. Leikföngin voru mörg hver enn heimasmíðuð, skjöldur og sverð, vagn og vörubill, og til útlanda fóru fáir fljúgandi. Bæjarbúar fóru sjaldan akandi út fyrir bæjarmörkin sér til skemmtunar að vetri til. Hjá hinum almenna manni var hóf á flestu í daglegri neyslu. Ég hef séð menn af minni kynslóð rifja upp þetta neyslumynstur þegar þeir hafa komist í vörn gagnvart ungum glaðbeittum umhverfissinnum sem stundum saka fyrri kylnslóðir um sinnuleysi.

Slíkar ásakanir eiga þó fullan rétt á sér því mín kynslóð hefur óumdeilanlega flotið sofandi að feigðarósi. Það má segja að þessari tilveru frá mjólkurbúðaskeiðinu hafi verið snúið á hvolf á undraskömmum tíma:
Nánast allt er komið í plast, efnafólk bregður sér til Parísar í leikhús og mat, þeir sem áður fóru á Melavöllinn að sjá KR og Akranes spila fara nú til Manchester eða Madrid að horfa á leik í Evrópukeppninni og þótt snjólaust sé í Bláfjöllum er óþarfi að örvænta á meðan snjóar í Ölpunum.

En svo gerist það. Skyndilega erum við öll komin á skólabekk. Í Reykjavík heitir skólinn Sorpa. Og hún Sorpa ætlast til þess að við flokkum nú allt sem frá okkur gengur, allt lífrænt á þennan stað, pappír á hinn og plastið svo annað.
Já plastið, vel á minnst. Þar er ég kominn í náminu að mér finnst ég læra á hverjum degi hve ótrúlegt magn af plasti gengur frá bara einu heimili, mínu eigin. Getur þetta verið, spyr ég í forundran og ekki laust við sjálfsásökun. Þessi lærdómur hefur nefnilega áhrif. Næsta skref er að forðast plastumbúðir í búðinni og þegar krafan, sem nú er gerð til okkar hvers og eins, verður heimfærð upp á samfélagið allt, sveitarfélög og ríki, að ekkert megi þau senda út fyrir eigin mörk til förgunar, með öðrum orðum, hver blettur gerður ábyrgur fyrir eigin úrgangi, þá hef ég trú á að eitthvað fari að hreyfast í rétta átt.

Ég er ekki þar með að segja að við verðum komin þar sem menn stóðu fyrir hundrað árum í íslenskri sveit og íslensku sjávarþorpi þar sem samfélögin voru nálægt því að vera sjálfum sér nóg, fæddu sig og klæddu úr heimagerðu. Ekki hvetur Sorpuskóli okkur til að ganga svo langt – sem betur fer.

En við kæmumst hugsanlega nær því að ná sátt við móður jörð en nú er raunin ef við þyrftum að axla ábyrgð á afleiðingum eigin neyslu. Hver veit nema að því komi að við hættum að vilja flytja morgunmatinn okkar flugleiðis frá Kaliforníu og kvöldmatinn á grillið frá Póllandi.

En þetta mun ekki gerast fyrr en við höfum haft kapítalismann undir. Umhverfissinnar verða að horfast í augu við þá staðreynd að hann leyfir ekkert annað en neyslu og þenslu, eða nákvæmar orðað, ótakmarkaða þenslu í neyslu.

En þetta verða menn að læra utanskóla því ekki er þetta á námskránni hjá Sorpu.