Fara í efni

"SNÖRPUSTU VENDIR Í GUÐS HENDI"


Guðmundur Jónsson, sagnfræðingur, á athyglisverða grein í Sögu, tímariti Sögufélagsins, Efnahagskreppur á Íslandi 1870-2000. Svo er að skilja að tilefni rannsóknarinnar sé kreppan sem nú ríður yfir Ísland. Í aðfararorðum segir að höfundur grafist m.a. fyrir um hvort "sveiflur í íslensku efnahagslífi" séu "meiri en í örðum löndum".  Niðurstöðurnar hvað þetta snertir eru sláandi. Guðmundur birtir töflu yfir staðalfrávik hagvaxtar í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum 1870-2000, sundurliðuð í fjögur tímabil. Ísland er á öllum tímaskeiðunum í hópi ríkja þar sem sveiflurnar eru mestar. Þó tölurnar séu sláandi þarf þetta í sjálfu sér ekki að koma á óvart því hagkerfi okkar er smátt og háð duttlungum náttúrunnar og umheimsins í ríkari mæli en risastórar efnahagseiningar eru.
Það kom mér á óvart að kreppan á fjórða áratug síðustu aldar var ekki sú versta á tímabilinu sem rannsóknin spannar heldur tímabil Heimstyrjaldarinnar fyrri.Á árunum 1914-18 dróst landsframleiðsla saman um 18% (!), þar af mest á árunum 1916-18. Guðmundur tekur fram að í vitund þjóðarinnar hafi kreppa fjórða áratugarins vissulega verið sú dýpsta, "en hún hafði ekki í för með sér mikinn samdrátt í efnahagslífi. Atvinnuleysi og fátækt voru á hinn bóginn útbreidd og hún var sú efnahagskreppa sem hafði mest áhrif í efnahags- og stjórnmálum."(bls. 74).

Guðmundur vitnar í Hannes

Guðmundur Jónsson vitnar í rit Hannesar Finnssonar Skálholtsbiskups, Mannfækkun af hallærum.
Í ritinu sem út kom eftir móðuharðindin er rakin harðindasaga Íslands allt frá landnámi til samtíma Hannesar (1739-1796) og bendir Guðmundur á að ritið hafi þrátt fyrir allt jákvæðan boðskap að flytja: Íslendingar megi ekki missa móðinn þótt á móti blási, landið sé vel byggilegt og þótt Ísland fái oft hallæri, sé ekkert land í Norðurálfu eins fljótt að fjölga á ný manneskjum og bústofni sem það. Og Guðmundur vitnar beint í Hannes: "En þó Ísland sé hallærasamt, þá er það ei óbyggjandi, þau góðu árin eru miklu fleiri en þau hörðu; líka og, þó á vorri tíð hafi áfallið stórharðindi, þá hafa forfeður vorir, hvörja oss er svo tamt að prísa miklu sælli en vér erum, haft aungu minni né færri harðæri að reyna; hefir landið þó þess á milli oftast náð sér aftur, fætt sín börn og framleitt margan merkismann..."

Fræðimenn að stappa stálinu í þjóðina?

Spyrja má hvort eitthvað svipað hafi vakað fyrir Guðmundi Jónssyni sjálfum og Hannesi Finnsyni fyrr á tíð, að setja yfirstandandi vanda í sögulegt samhengi og minna okkur þar með á að sagan kenni að birtir á ný eftir dimma daga. Sannast sagna flögraði þessi hugsun að mér líka þegar ég sá útgáfuárið, sem þeir Jón Eyþórsson og Jóhannes Nordal gáfu út Mannfækkun af hallærum (á vegum Almenna bókafélagsins). Útgáfuárið er 1970. Þá þurftu Íslendingar svo sannarlega á því að halda að stappa stálinu hver í annan. Það vita þeir sem muna síðustu ár sjöunda áratugarins en þá reið yfir alvarleg kreppa, sem átti upptök í sjávarútvegi, með fjölda-atvinnuleysi (fór í 7%) og brottflutningi af landinu. Árið 1970 fluttu 2200 manns af landi brott! (sjá ritgerð GJ í Sögu,bls. 71).

Jóhannes vitnar í Hannes

Í formála sínum að Mannfækkum og hallærum fjallar Jóhannes Nordal um þrengingar 18. aldarinnar og segir að það hafi verið "gæfa íslenzku þjóðarinnar" að brotna aldrei undan fargi erfiðleika sinna, heldur hafi hún risið "til viðnáms og til undirbúnings þeirrar sóknar, er átti eftir að leiða hana út úr ógöngum..." Jóhannes segir að Mannfækkun af hallærum"varnarrit fyrir tilverurétti íslenzku þjóðarinnar og trúnni á landið og lífsgæði þess, ritað þegar hvort tveggja var dregið í efa bæði af Íslendingum sjálfum og þeim útlendu mönnum , er örlögum hennar réðu" .

Drepsótt, stríð og dýrtíð...

Upphafsorðin í Mannfækkun af hallærum eru þessi: " Drepsótt, stríð og dýrtíð eru kallaðir þeir snörpustu vendir í Guðs hendi, af hvörjum Davíð konungur átti forðum kost á að velja um einn. Í þær mundir mun stríð hafa verið skaðvænlegra en drepsótt, því þá gjörði hvörr, sem sigur fékk, með sverði og eldi aleyðu af mönnum, kvikfénaði og öllu. En á nærverandi tíðum er stríð orðið vægara en drepsótt, einkum meðal vel siðaðra þjóða, því það deyðir nú eigi kvinnur og börn eins og í fyrndinni, heldur skilur úngviðið eptir, þar sem drepsóttin slær niður menn og kvinnur, únga og gamla. Þessa verst meina ég þó sé hallæris-húngrið, hið harðasta sverð. Það vægir hvorki úngum né gömlum, það deyðir eptir lánga pínu, það færir með sér heilan her af sjúkdómum, það rífur burt kvikfénað og bústofn, er lengi á í að nást aptur, eptir að húngrinu hefur aflinnt, og hvað eigi er minnst verðt: Það færir með sér rán og stuldi, meðan það yfirstendur, en síðar dugnaðar- og stjórnleysi..."

Vöndur á margan manninn

"Dýrtíðin" og atvinnuleysi eru án vafa einkenni okkar kreppu. Enn gætir hennar í takmörkuðum mæli en kaupmátturinn hrapar þó hratt - allar nauðsynjar verða dýrari - dýrkeyptari. Það kallast dýrtíð og er vissulega vöndur á margan manninn. Þá skal enginn efast um það böl sem atvinnuleysið er, hvernig það fer með einstaklinginn sálarlega og allt hans umhverfi í efnahagslegu og félagslegu tillti.

Skin og skúrir

Þá er bara að muna að öll él birtir upp um síðir! Við erum ansi langt frá þrengingum móðuharðindanna á níunda áratug 18. aldar (eldgos í Lakagígum 1783, jarðskjálftar árið eftir). Í Íslandssögu Einars Laxness segir "Nær 10 þúsund manns eða 20% þjóðarinnar létust af afleiðingum móðuharðindanna 1783-86 (mannfjöldi 1783: 48.885, en  1786: 38.363). Af búfjárstofni er talið hafa fallið um 11 ½ þúsund nautgripa (53%). 190 þúsund sauðfjár (82%) og 28 þúsund hrossa (77%)...." (Einar Laxness: Íslandssaga, bls. 70 -71. Bókaútg. Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins, Rvík. 1977.)