Fara í efni

Slysavarnafélag Íslands talar

Birtist í Mbl
Að undanförnu hefur spunnist umræða í fjölmiðlum hvernig staðið skuli að neyðarsímsvörun í landinu og hef ég látið í ljós þá skoðun mína að ég telji ekki rétt að fela fyrirtækjum á markaði eða öðrum aðilum sem ekki heyra undir stjórnsýslulög eignarvald yfir svo viðkvæmri þjónustu sem hér er um að ræða.

Í því sambandi hef ég skírskotað til jafnræðis á markaði og bent á nauðsyn þess að stofnun á borð við vaktstöð neyðarsímsvörunar sé hafin yfir viðskiptahagsmuni eða annan hagsmunaágreining. Ekki síst skiptir þó máli að tryggja traust og trúnað varðandi þessa viðkvæmu þjónustu. Eins og málum er komið eru eigendur Neyðarlínunnar hf. sem eiga að annast rekstur neyðarsímsvörunar í landinu, auk opinberra stofnana, fyrirtæki á borð við Securitas, Sívaka og Vara en á meðal eigenda er einnig Slysavarnafélag Íslands.

Ekki legg ég að jöfnu aðild Slysavarnafélags Íslands að Neyðarlínunni og fyrrnefndra fyrirtækja í öryggisþjónustu sem eiga beinna viðskiptahagsmuna að gæta, þótt ég sé reyndar þeirrar skoðunar að stofnunin eigi að vera algerlega í almannaeign og undir forsjá aðila sem heyra undir stjórnsýslulög.

Trúverðugleiki og traust

Stjórnarmaður í Slysavarnafélagi Íslands, Ingi Hans Jónsson, ritar grein í Morgunblaðið til að skýra okkur frá því hvers vegna Slysavarnafélaginu sé treystandi fyrir neyðarsímsvörun landsmanna. Ekki er málflutningur hans sannfærandi, en í grein sinni leitast hann við að upplýsa mig um ýmis grundvallaratriði í þessum fræðum.

Ingi Hans Jónsson beinir nokkrum spurningum til mín, þar á meðal „hvaða lögreglu“ og „hvaða slökkviliði“ ég ætli að fela þessa þjónustu en ég hef einmitt lagt áherslu á að neyðarsímsvörun sé í höndum lögreglu og slökkviliðs. Hann spyr með nokkrum þjósti hvort ég „…virkilega ætli að fela slökkviliðinu á Egilsstöðum vörsluna eða lögreglunni í Grundarfirði?“ Og í föðurlegum anda vill hann síðan taka mig á hné sér og leiða mér fyrir sjónir að ekki dugi bara að „góna út um gluggann,“ Ísland sé annað og meira „en bara stór- Reykjavíkursvæðið.“

Samræming á réttum forsendum

Ekki sé ég hvers vegna stjórnarmaður í Slysavarnafélagi Íslands sér ástæðu til að fara niðrandi orðum um lögreglu og slökkvilið á landsbyggðinni. En tvennt vil ég leggja áherslu á. Í fyrsta lagi finnst mér það vera framfaraspor að tengja saman á annað hundrað neyðarlínur í landinu, þar á meðal slökkviliðið á Egilsstöðum og lögregluna í Grundarfirði eins og stendur til að gera. Þetta hefur komið fram í greinaskrifum mínum og hef ég sérstaklega nefnt að þetta komi dreifbýlinu að gagni. Þá hef ég lagt áherslu á nauðsyn þess að samtengja og virkja saman alla þá sem sinna björgunarstarfi, þá ekki síst Slysavarnafélag Íslands og björgunarsveitir almennt, auk þess sem ég tel eðlilegt að veita þeim fyrirtækjum þjónustu sem starfa á þessu sviði. Ég hef hins vegar gagnrýnt að stofnað skyldi hlutafélag um þessa þjónustu með eignarhaldsaðild Securitas og fleiri öryggisþjónustufyrirtækja. Ég tel þessa þjónustu vera það viðkvæma að forræði yfir henni eigi að vera hjá lögreglu og slökkviliði eins og ég hef fært rök fyrir.

Ingi Hans Jónsson stjórnarmaður í Slysavarnafélaginu lítur öðru vísi á málið og er ekkert við því að gera þótt menn greini á. Í niðurlagi greinar sinnar hvetur hann mig til sinnaskipta, svo hið nýja fyrirtæki, Neyðarlínan hf., verði „okkar allra,“ en „ekki með einhverju baktjaldamakki sett undir eitthvert slökkvilið eða einhvern lögreglustjóra, þú skilur.“ Nei ekki skil ég þetta. En ég vil hins vegar þakka Inga Hans Jónssyni fyrir að varpa ljósi á afstöðu Slysavarnafélags Íslands í þessu máli.