Fara í efni

SLÁ ÞARF FAST Á FINGUR!

Ömmi á Selfossi 1. maí 2014
Ömmi á Selfossi 1. maí 2014

Ávarp á 1. maí fundi verkalýðsfélaganna á Selfossi.
Góðir félagar í samtökum launafólks svo og allir  félagar í stærsta félagi Íslands, íslenska samfélaginu: 
Til hamingju með daginn.Í mínum huga er 1. maí mikill merkisdagur enda er hann táknrænn um margt, hugsjónir, baráttu og samstöðu
  - samstöðu um hugsjónir og  baráttumarkmið þeirrar verkalýðshreyfingar sem berst fyrir bættum kjörum og jöfnuði í samfélaginu; þeirrar verkalýðshreyfingar sem horfir inn á við en einnig vítt um svið og um álfur allar.
Fyrsti maí er alþjóðlegur hvatningar- og baráttudagur verkafólks og á þeim degi skal, einsog segir í alþjóðasöng verkamanna, fylkja liði til marks um þann ásetning launafólks um heim allan að vinna að því saman að byggja réttlátt þjóðfélag: 

Þó að framtíð sé falin

grípum geirinn í hönd,
því internasjónalinn
mun tengja strönd við strönd. 

Það var hringt í mig frá útvarpsstöð í gær og spurt hvort baráttudagur verkalýðsins hefði minni þýðingu í hugum fólks nú en á árum áður. Ég kunni ekki annað svar við þessu en að það væri undir hverju og einu okkar komið - og okkur öllum í sameiningu - hvað við vildum gera úr merkingu þessa dags; hvort við vildum að 1. maí væri sýnilegur baráttudagur og hefði þýðingu sem slíkur- eða hvort líta ætti á hann sem venjulegan frídag sem mætti færa til á dagatalinu eftir atvikum einsog tillögur eru uppi um. Það væri ekkert sjálfgefið í þessu efni. 

En það fólk sem sækir 1. maí-hátíðahöld og  fundi eins og þennan er að sýna vilja sinn í verki hvað þetta snertir - og þar er ég á báti. Ég vil að 1. maí sé í heiðri hafður sem baráttudagur fyrir jöfnuði og félagslegu réttlæti. Varla er vanþörf á.  

Þess vegna segi ég aftur, góðir félagar, til hamingju með daginn. 

Og jafnvel þótt það kunni að hafa verið rétt til getið hjá útvarpsmanninum að dagurinn hefði heldur fölnað í seinni tíð í vitund okkar margra þá er það ekki svo að mínu mati,  að hann sé að úreldast - síður en svo. Ég hef þá sannfæringu að svo sé nú komið í þjóðfélaginu að almenningur þurfi á því að halda að endurmeta margt og finna leiðir til að styrkja stöðu launafólks til mótvægis við völd og áhrif þeirra sem stýra fjármagni og halda um valdatauma. Til þess er verkalýðshreyfingin, að tryggja að jafnræði sé með almennu launafólki annars vegar og handhöfum fjármagns og valda hins vegar, bæði inni á vinnustaðnum, inni á sérhverjum vinnustað, og í þjóðfélaginu almennt.Stöldrum við. Lítum í baksýnisspegil sögunnar, hverfum aftur um eina öld eða tvær. 
Gríðarleg efnahagsleg og félagsleg stéttaskipting var við lýði hér á landi og reyndar í öllum okkar heimshluta  - alls staðar - og nær fullkomið réttindaleysi launafólks, barnaþrælkun viðgekkst, réttindi í veikindum og atvinnuleysi voru nánast engin, aðgangur að menntun takmarkaður. Og viðhorfin hjá ráðandi öflum eftir því.  Eða eins og breski frjálshyggjumaðurinn Herbert Spencer reit á sinni tíð, 19. öldinni - „fátækt hins vanhæfa, erfiðleikar þess sem er óhygginn, hungur hins iðjulausa, og pústrar hins sterka í garð hins veika ... eru þrátt fyrir allt til góðs þegar til langs tíma er litið. Og hann heldur áfram: Það virðist harkalegt við fyrstu sýn að ekkjur og munaðarleysingjar skuli látin afskiptalaus í baráttu þeirra upp á líf og dauða. En þegar hlutskipti þessa fólks er skoðað í samhengi við heildarhagsmuni mannkynsins, þá verða þessi grimmu örlög skilin á annan og jákvæðari veg ... 
Með öðrum orðum það er rangt að aðhafast nokkuð náunga sínum til bjargar því það truflar gang þeirra lögmála sem við eigum að halda í heiðri - markaðslögmálin, en þegar upp er staðið færi þau heildinni mesta farsæld. Þannig var hugsað og þannig var skrifað. 
Salka Valka, Halldórs Laxness kom út árið 1931 - þar kynntumst við Jóhanni Bogesen kaupmanni á Óseyri við Axlarfjörð og þeim heimi sem hann og hún Salka Valka veittu okkur innsýn í. Í þá daga voru Bogesenar ráðandi í hverju plássi á Íslandi og erlendis áttu þeir sínar hliðstæður. 
Í Kommúnistaávarpinu sem kom út árið 1848, voru settar fram kröfur sem endurspegla stöðu verkafólks í Evrópu á þeim tíma -  svo sem krafan um gjaldfrjálsra menntun og afnám barnavinnu í verksmiðjum. Enn þann dag í dag líða lítil börn víða í Evrópu, einkum um álfuna sunnan- og austanverða, næringarskort, hafa ekki aðgang að skóla eða  heilbrigðisþjónustu og það sem kannski verst er, ekki foreldrum sínum heldur, því þeir hafa hröklast frá heimaslóð, frá búi og börnum,  í leit að atvinnu og lífsviðurværi. Í nýútkominni skýrslu á vegum Evrópuráðsins er dregin upp svört mynd af barnafátækt og hvatt til úrbóta - stórátaks í þeim anda sem gert var á tuttugustu öldinni um norð-vestanverða Evrópu þegar Beveridge hinn breski blés í lúðra og vildi velferðarþjónustu fyrir alla - frá vöggu til grafar, from the cradle to the grave,  einsog sagði í skýrlsu hans til stjórnar breska Verkamannaflokksins  í kjölfar heimstyrjaldarinnar síðari.Ekki aðeins breski Verkamannaflokkurinn, heldur félagsleg öfl víða um hinn iðnvædda heim tóku þessu kalli, þessari áskorðun, og segja má að síðari hluti tuttugustu aldarinnar hafi verið samfelld sigurganga í átt að velferðarkerfi fyrir alla. Í Austur-Evrópu tóku kommúnistar völdin sem í senn reyndist félagslegum hreyfingum á Vesturlöndum stuðningur - því atvinnurekendavaldið vildi fyrir alla muni forðast að fá til valda þá sem véfengdu eignarréttinn og urðu fyrir vikið eftirgefanlegri í sinni heimasveit - en um leið reyndist þetta hinum félagslegu öflum dragbítur og þá sérstaklega hinum róttækustu, sem að ósekju var stöðugt núið því um nasir að fyrir þeim vekti það eitt að koma öllu og öllum í Gúlagið.  

Það er umhugsunarvert og til marks um sigurgöngu hinna félagslegu hreyfinga að þær kröfur sem mestu máli skiptu fyrir kjör almennings og höfðu birst í Kommúnistaávarpinu um miðja 19. öld, náðu fram að ganga í okkar heimshluta í velferðarsókn tuttugustu aldarinnar.  Tryggingar í atvinnuleysi og veikindum voru bættar, aðgangur að menntun og heilbrigðisþjónustu varð almennari, húnsæði batnaði, á vinnustöðunum varð boðvaldið víkjandi því menn fóru að leiða ágreiningsefni til lykta við samningaborð þar sem umsamin réttindi voru lögð til grundvallar og Bogesen lærði að hann yrði að halda sig á hinni félagslegu mottu. Þegar kom fram undir aldarlok varð hins vegar skyndileg breyting sem þó aðeins smám saman  hefur verið að birtast okkur og er enn að birtast, alveg fram á þennan dag. Myndin gerist æ dekkri. 

Tökum sex dæmi um greinilega afturför. Dæmin gætu verið miklu fleiri. 

1) Fiskvinnslufyrritækið Vísir rekur fiskvinnslu á Húsavík, Djúpavogi, Þingeyri og Grindavík. Eigendur Vísis rýna í bókhald sitt. Ólíkt Jóhanni Bogesen eru þeir ekki bundnir neinum einum stað, neinu einu plássi. Þeir hafa líka fyrir löngu losað sig við þann siðferðilega klafa að finnast þeir skuldbundnir samfélagi sínu; að hagsmunir fyrirtækis og samfélgas þurfi að fara saman. Óháð afleiðingum fyrir samfélagið hafa þeir ákveðið að loka fiskvinnslunni á Djúpavogi og Húsavík og bjóða starfsfólkinu á þessum stöðum  að flytja landshorna á milli. Bogesen þriðja og fjórða áratugar tuttugustu aldarinnar hefði aldrei getað látið sig dreyma um að geta ráðskast með verkafólk um landið allt - ekki bara á Óseyri við Axlarfjörð heldur stýrt örlögum þess um landið allt. Duttlungasvigrúm peningavaldsins er að ná áður óþekktum víddum. Og ríkisstjórnin stendur álengdar og gónir út í loftið.  


2) Annað dæmi um vaxandi frekju valdstjórnenda er mátinn, aðferðirnar sem viðhafðar eru við uppsagnir í fyrirtækjum og stofnunum. Fólk er rekið frá vinnuborði sínu eins og það hafi brotið stórlega af sér - þótt ekkert slíkt hafi gerst. Svokallaðir mannauðsstjórar annast yfirleitt þessi verk og er það gert undir yfirskini vísinda og fræðimennsku. En það er ekkert fræðilegt eða vísindalegt - hvað þá að það snerti nokkuð sem tengja má við mannauð - að vinna þau óþrifaverk sem að undanförnu hafa verið unnin í nafni platvísinda í Ríkisútvarpinu og í Stjórnarráði Íslands. 
Undanfari slíkra vinnubragða er jafnan sá að víkja til hliðar hinni félagslegu nálgun sem áður er vikið að - þar sem sest er á jafnræðisgrundvelli yfir málin, réttarstaðan gaumgæfð og komist að niðurstöðu. Þetta er að verða liðin tíð. Þá hefur yfirleitt tekist þegar hér er komið sögu að gera stéttarfélagið að umsjónaraðila fyrir skemmtihald, svipta það öllu öðru hlutverki en jafnframt hefur allt sem lýtur að starfsmannahaldi verið fært undir vísindalega mannauðsstjóra sem í reynd er dulbúin framlenging á forstjóravaldi. Með þessu er stigið risavaxið skref til fortíðar.  

3) Þriðja atriðið af sex sem ég vil nefna um sýnilega afturför er þegar handhafar eignarréttar í landinu taka sér vald til að rukka fyrir aðgang að djásnum nátúrunnar, djásnum sem við eigum þó öll og eru okkur tryggð með aldagömlum hefðum, stjórnarskrá og landslögum. Ríkisstjórnin hefur hafst lítið að gagnvart lögleysunni en íhugar nú að krefja almenning um að bera sérstakan náttúrupassa, sem svo hefur verið nefndur, en hann byggir á þeirri hugmyndafræði að því aðeins sé þér heimilt að horfa á Herðubreið og Þingvallavatn að þú hafir áður fest kaup á slíkum passa og getir ætíð sýnt hann lögreglu eða öðrum embættismönnum svo þeir geti gengið úr skugga um að þú hafir borgað. 

4) Í fjórða lagi er þess að geta að nú er að nýju farið að tala um að opna spítalagangana peningmönnum undir merkjum markaðsvæðingar þótt allir viti hvað slíkt hefur í för með sér, dýrara kerfi og ranglátara. Við heitum ykkur öryggi ef þið tryggið heilsuna hjá okkur, auglýsa tryggingafélögin nú að nýju eftir nokkurra ára hlé - að vísu verður tryggingakortið heldur dýrara,  kæri viðskiptavinur, ef rannsóknir sýna að þú berð ættgeng  krabbameins- og sykursýkisgen. Og auðvitað látum við hinn magra borga minna en hinn digra. Tölfræðin kennir nefnilega að sá digri er okkur meiri áhætta en grannholda kúnni! 
Þannig verkar þetta á heilsufarsmarkaðnum.

5) Í fimmta lagi þá benda nýlegar rannsóknir til að aukinn beinn kostnaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu sé farinn að valda því - og ágerist það með árunum  - að fátækt fólk veigri sér við að leita sér lækninga. 

6) Og sem dæmi um afturför undangenginna tveggja kjöráratuga peningafrjálshyggjunnar, vil ég í sjötta laginefna, og það lýtur að heildarmyndinni, að eftir að peningafrjálshyggjan tók að sækja á í upphafi níunda áratugarins og fór að verða ágengt um og upp úr aldamótum, tók efnaleg misskipting  að vaxa. Misskiptingin á Vesturlöndum er nú meiri en hún var fyrir rúmum þremur áratugum, áður Margrét Thatcher, járnfrúin breska, boðaði landsmönnum sínum og heimsbyggðinni allri eins og frægt varð að endemum, að græðgi væri góð. Á Íslandi var undir tekið með sérútgáfu af þessari siðfræði og talað um ágæti eignagleðinnar. Við vitum hvert leiðin lá út um þær gleðinnar dyr.   Munurinn á stöðunni nú og fyrr á tíð er sá, að hin efnalega misskipting er ekki eins sýnileg og áður var. Bragginn eða kofinn og jafnvel klæðnaður voru sýnileg merki um bágborna  félagslega og efnalega stöðu og munaður hinna ríku var einnig sýnilegur á ytra borði. Nú er sýnileikinn ekki eins mikill - fátæktin ekki eins augljós og auðurinn iðulega falinn og hann nýttur í fjarlægu skjóli. Menn bera efnin ekki eins utan á sér og áður var. 

Þess vegna mæta þau galvösk í fjölmiðla og segja okkur að verði lægstu laun - sem eru um 200 þúsund krónur-  hækkuð svo nokkru nemi, muni illa fara í efnahagslífinu. 

Hvað er til ráða? 

1) Í fyrsta lagi þurfa stjórnmálamenn að átta sig á því að þeir bera samfélagslega ábyrgð - að þeim ber skylda til að bregðast við þegar fyrirtæki á borð við Vísi lokar á lífsviðurværi fólks.  

2) Í öðru lagi þurfa allir að skilja að mannauðsstjórnum þýðir ekki það sama og mannauðnarstjórnun eins og Guðmundur Andri, rithöfundur komast að orði einhverju sinni.

3) Í þriðja lagi verðum við að sammælast um að það verði aldrei liðið að innleitt verði nýtt kvótakerfi í náttúrunni og náttúruperlur sem við eigum saman verði einkavæddar.

4) Í fjórða lagi mega tryggingafyrirtækin vita og þá einnig  hugsanlegir fjárfestar á heilbrigðissviði, að landsmenn ætla þeim ekki stóran hlut, að á Íslandi skuli fólk fá lækningu á sínum meinum og aðhlynningu í sjúkralegu vegna þess að það er veikt en ekki vegna þess að það hafi tryggingakort upp á vasann.

5) Í fimmta lagi verður að vinda ofan af kostnaðarþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Þjónustan á að vera gjaldfrjáls sem þýðir að við greiðum fyrir hana á meðan við eru frísk og vinnufær með sköttum okkar en bíðum þess ekki að rukka þann sem misst hefur orkuna eða heilsuna. Það er eðli sjúklingaskatta.

6) Í sjötta lagi hljótum við að taka á misskiptingunni á hvern þann hátt sem skilar réttlátum árangri. Og í baráttunni fyrir auknum jöfnuði skulum við alltaf gera kjörin sýnileg. Þegar fjármálaráherrann og formaður og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnilífsins koma næst í viðtöl að tala um böl launahækkana hjá lágtekju- og millitekjufólki skal ekki látið við það eitt sitja að segja okkur á sjónvarpsskjánum hvað þeir heiti heldur einnig hvað þeir hafi í tekjur.
Í ljósi þess munum við síðan meta vægi orða þeirra. 
Ég er þeirrar skoðunar að í stað þess að krefjast hækkunar lægstu launa sé réttara að krefjast þess að innbyggt verði í alla samninga hvert skuli vera hlutfallið á milli hins lægsta og hins hæsta. Þegar ég var yngri, og kannski baráttuglaðari að þessu leyti, taldi ég að alger jöfnuður ætti að ríkja þegar launin væru annars vegar en nú tel ég að einn á móti þremur væri ásættanlegt skref. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra ætti þá um tvennt að velja í kjarasamningum við ríkisstarfsmenn, lækka sjálfan sig  og sína líka í launum eða hækka hina lægstu þannig að þeir verði eigi lakar launaðir en næmi þriðjungnum af hans eigin  launum. Sama gilti um hinn yfirlýsingaglaða Þorstein Víglundsson og að sjálfsögðu forstjóra fyrirtækja og sveitarstjóra einnig. Þessi nálgun hygg ég að yrði heilladrýgri en baráttan fyrir hækkun lægstu launa úr öllu samhengi við kjör þeirra sem munda pennan handan samningaborðsins. 

Gefum okkur að allar þessa kröfur næðu fram að ganga, hvað hefði þá áunnist? 

Það sem hefði áunnist eru bætt kjör fyrir þá sem lakar standa og meiri jöfnuður í samféalginu. Með því móti yrði þjóðfélagið bærilegri staður og skemmtilegri að hrærast í. Líka hitt að þjóðfélag sem byggir á félagslegu réttlæti er öflugra og kröftugra samfélag en það sem býr við ranglæti og misskiptingu. Slíkt þjóðfélag er betur undir það búið að taka áföllum en þjóðfélag þar sem mikið misrétti ríkir og mismunun er mikil.

Þegar ég lét af formennsku í BSRB í október árið 2009 rifjaði ég upp eftirminnilegan atburð frá því í hruninu - frásögn sem ég hef stundum sagt erlendu fólki þegar það hefur spurt hvernig hafi staðið á því að íslenskt samfélag sundraðist ekki í kjölfar hrunsins. Augljóslega hafi nærri legið við en viljinn til að takast sameiginlega á við vandann  hafi orðið öllu öðru yfirsterkari. Hvers vegna?

Ég hef sagt að Íslendingar hafi verið reiðubúnir að leggjast sameiginlega á árarnar vegna þess að við skynjuðum okkur sem samfélag og þekktum sameiginlega ábyrgð okkar þegar við blasti stórfellt atvinnuleysi, tekjur ríkis og sveitarfélaga hrundu, heimili og fyrirtæki börðust í bökkum. 
Þá félagslegu arfleifð sem þarna virkjaðist má rekja til baráttu íslenskrar verkalýðshreyfingar í meira en öld - baráttu sem við erum samankomin nú hér á fyrsta maí til að minna okkur á hvers virði er. Frásögnin í kveðjuræðu minni hjá BSRB í október 2009, sem ég vísaði til, er svohlóðandi:
Við eigum að horfast í augu við það að í þjóðfélaginu ríkir togstreita - það er okkar hlutverk að toga fyrir þá sem standa höllum fæti gagnvart fjármagni og valdi. Það breytir því ekki að togstreitunni á jafnan að beina í eins jákvæðan og uppbyggilegan farveg og kostur er. Ég vil að við séum sem ein fjölskylda. En þá verðum við líka að vera það í reynd.
Íslendingar standa frammi fyrir miklum erfiðleikum þar sem við þurfum á því að halda að leita góðrar sáttar. Við sáum í vetur leið hve nærri við vorum, og erum kannski enn, því að friðurinn í þjóðfélaginu sé rofinn. Eldar loguðu við Alþingishúsið. Ég minnist þess eitt örlagakvöldið að ég var í beinni útsendingu í sjónvarpi. Hrópin heyrðust að utan. Eggjum var hent í rúður þinghússins. Svo kom grjótið. Hönd fréttakonunnar sem hélt um hljóðnemann titraði. Loft var lævi blandið. Að loknu viðtalinu gekk ég að glugga sem veit út á Austurvöllinn. Við hlið mér stóð öryggisvörður, félagi minn í BSRB. Fyrir neðan okkur voru lögreglumenn með hjálma og skildi - og tárags. Því hafði verið beitt kvöldið áður. Allir í viðbragðsstöðu. En  þegar grjótkastið tók að beinast að lögreglumönnunum - þá gerðist það. Hópur fólks tók sig út úr mannfjöldanum og myndaði mannlegan varnarmúr frammi fyrir lögreglunni. Hið ósagða lá í augum uppi. Sá sem grýtir lögregluna grýtir mig. Lögreglumennirnir lögðu skildina frá sér. Ég gleymi því aldrei þegar félagi minn við gluggann - öryggisvörðurinn - sagði og ég heyrði klökkvann í röddinni: Guði sér lof. Við erum komin aftur til Íslands.
Við erum komin heim.

Svo mörg voru þau orð. Í íslensku er til orðatak sem við öll þekkjum, að leggjast saman  á árarnar. Það gera menn gjarnan í sjávarháska,  til að komast af í ólgusjó. Það hefur bjargað margri áhöfninni og að sama skapi hefur það reynst samfélaginu í heild vel þegar á móti hefur blásið. En til þess að yfirleitt sé hægt að leggjast saman á árar þurfa menn að vera á sama bátnum.  

Það er eilífðarhlutverk verkalýðshreyfingarinnar og félagslega ábyrgra afla að koma okkur á sama bátinn. Að draga úr misskiptingu og tryggja félagslegt réttlæti.
Hagsmunir verkalýðshreyfingarinnar og samfélagsins fara saman þegar allt kemur til alls. Við megum ekki láta sérhagsmunaöfl spilla þeirri hugsun. 
Við vissum það í barnaboðinu í gamla daga að þegar súkkulaðikakan var sett á borðið og eitt barnið vildi hrifsa hana alla til sín eða drjúgan hluta hennar - þá vissum við það og skildum að þetta var ekki eins og það átti að vera. 
Börnum var öllum ljóst að þetta var rangt og létu þetta ekki viðgangast. Ef mamman sló ekki á fingur þá gerðu þau það.

Sama þarf að gerast í heimi hinna fullorðnu, í stóra félaginu okkar, íslenska samfélaginu. Þegar einhver reynir að hrifsa til sín meira en honum eða henni  ber, þá eigum við að rísa upp, slá á fingur og krefjast réttlætis. Ég hef grun um að sá tími kunni að vera að renna upp að slá þurfi fast á fingur.
Til hamingju með daginn! 

Sjá enn fremur frétt Morgunblaðsins.