Fara í efni

SKÝRARI RANNSÓKNARHEIMILDIR OG AUKIÐ AÐHALD

SMUGAN logo
SMUGAN logo

Birtist á vefritinu Smugunni 08.06.11.
Á heimasíðu innanríkisráðuneytisins gefur nú að líta drög að frumvarpi um skýrari rannsóknarheimildir lögreglu vegna glæpa skipulagðra brotasamtaka. Rannsóknarheimildir lögreglu hafa í tímans rás verið umdeildar og því er mikilvægt að vanda til verka þegar þær eru annars vegar, með það að leiðarljósi að almennt traust ríki til starfa lögreglu og að lögregla geti sinnt störfum sínum án þess að þau séu tortryggð.

Þessi umræða er ekki einskorðuð við Ísland. Í fjölmörgum löndum er rætt um mörkin milli friðhelgi einkalífs annars vegar og rannsóknarheimilda lögreglu í baráttu við glæpi sem talist geta veruleg ógn við almenning hins vegar. Að sama skapi er rætt um þau mörk sem eru milli glæpasamtaka og pólitískra andófshópa, sem kunna að beita skemmdarverkum til að vekja athygli á málstað sínum. Draga þarf skýra línu þarna á milli, því það er eitt að eyðileggja hluti en allt annað að eyðileggja fólk.

Lögreglu ber að rannsaka afbrot sem framin hafa verið en henni er einnig falið það hlutverk að reyna að koma í veg fyrir glæpi. Þannig er lögum samkvæmt refsivert í sjálfu sér að undirbúa alvarleg afbrot, þótt sjaldan hafi verið sótt til saka vegna þess.

Beint að glæpahópum

Skipulögð glæpastarfsemi hefur færst í vöxt á Íslandi og eru þar bæði á ferðinni innlend og erlend glæpagengi, sem berjast um yfirráð í íslenskum undirheimum. Þetta eru glæpahópar sem plokka mannnréttindin af fólki. Þeir ógna fólki og hóta, beita ofbeldi gegn þóknun og selja fólk til vændis, stundum milli landa.

Þau frumvarpsdrög sem nú hafa verið kynnt í ríkisstjórn og lögð fram til kynningar á vef innanríkisráðuneytisins kveða á um skýrari rannsóknarheimildir lögreglu þegar kemur að starfsemi skipulagðra glæpasamtaka. Heimildirnar eru þannig bundnar við 175. gr. a almennra hegningarlaga en þar er kveðið á um fjögurra ára fangelsi fyrir brot sem varða a.m.k. fjögurra ára fangelsi og eru liður í  starfsemi skipulagðra brotasamtaka. Skipulögð brotasamtök eru ennfremur skilgreind sem félagsskapur „þriggja eða fleiri manna sem hefur það að meginmarkmiði, beint eða óbeint í ávinningsskyni, að fremja með skipulegum hætti refsiverðan verknað sem varðar að minnsta kosti 4 ára fangelsi, eða þegar verulegur þáttur í starfseminni felst í því að fremja slíkan verknað." Þarna er lykilatriði að um starfsemi í ávinnigsskyni þarf að vera að ræða.

Markvissara aðhald

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ríkissaksóknari hafi eftirlit með því hvernig þessum heimildum er beitt og gefi allsherjarnefnd Alþingis árlega skýrslu þess efnis. Í núgildandi lögum er ríkissaksóknara falið það hlutverk að hafa eftirlit með því að lögreglustjórar ræki þá skyldu sína að upplýsa einstaklinga sem beittir eru rannsóknaraðferðum á borð við símhleranir um að svo hafi verið. Að sama skapi er ríkissaksóknara falið eftirlitshlutverk með rannsóknaraðferðum sem ekki krefjast dómsúrskurðar - og kveðið er á um í nýrri reglugerð innanríksiráðuneytisins. Stefnt er að því að sameina þessar eftirlitsskyldur þannig að árlega fái allsherjarnefnd skýrslu um rannsóknaraðferðir lögreglu, hversu oft þeim var beitt og gegn hvaða brotum. Með þessu móti er lögreglu veitt aukið aðhald, sem aftur skilar sér í því að áframhaldandi traust ríkir um störf hennar.
sjá einnig: http://www.smugan.is/frettir/frettir/nr/6131