Fara í efni

SKÝR SKILABOÐ GEGN OFBELDI

MBL -- HAUSINN
MBL -- HAUSINN

Birtist í Morgunblaðinu 05.03.11.
Um árabil hefur íslenska lögreglan fylgst með þróun skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi og gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir að glæpahópar festi hér rætur. Þrátt fyrir markvissar aðgerðir lögreglu stöndum við frammi fyrir þeim veruleika að á Íslandi eru starfandi hópar glæpamanna, innlendra og erlendra, sem hagnast á fíkniefnasölu, vændi, fjárkúgun, peningaþvætti og fjársvikum og í einhverjum tilvikum á mansali og vopnasölu. Glæpagengi eiga jafnvel í átökum um „markaðinn" og nýjustu fregnir af því að vélhjólagengið MC Iceland  fái nú inngöngu sem fullgild og sjálfstæð deild innan Vítisengla, eða Hells Angels, hafa ýtt enn frekar undir spennu í undirheimum hér á landi. Þess ber að geta að þar eru á ferðinni samtök sem stunda  glæpastarfsemi í fjölmörgum löndum, með tilheyrandi ofbeldi. Mannslíf skipta engu við hliðina á ágóða og völdum í hugum þessara manna og af og til fáum við innsýn í þann ljóta heim í gegnum fjölmiðla.

Þverpólitísk samstaða

Í utandagskrárumræðum á Alþingi í vikunni, þar sem Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokks var málshefjandi og undirritaður sat fyrir svörum, kom fram skýr þverpólitísk samstaða um baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Vísa ég þar einnig í þingmál sem Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, flutti ásamt fjölda þingmanna, þótt mismunandi sjónarmið séu uppi um útfærslu aukinna rannsóknaheimilda. Þessi samstaða er mjög mikilvæg og tel ég að hún sé ekki aðeins bundin við Alþingi heldur eigi við um þorra þjóðfélagsins. Við neitum að samþykkja glæpi og ofbeldi og að slíkt geti orðið að „iðnaði".
Vandamál þetta er þó miklu stærra en svo að það sé eingöngu bundið Ísland. Hins vegar hefur landfræðileg staða Íslands oft auðveldað viðbrögð og eftirlit með mönnum og varningi sem koma inn til landsins. Þannig hefur lögreglan markvisst neitað meðlimum Vítisengla um landgöngu og hér hefur tollgæslan haft ríkt eftirlit með fíkniefnainnflutningi.

Dómsúrskurður nauðsynlegur

Íslensk lögregluyfirvöld starfa náið með starfsfélögum sínum í öðrum ríkjum til að berjast gegn skipulagðri brotastarfsemi. Slíkt samstarf er forsenda þess að geta brugðist við útbreiðslu glæpastarfsemi af festu. Hér á landi þarf að efla lögregluna enn frekar til að geta brugðist við starfsemi glæpahópa og í því samhengi hefur hugtakið „forvirkar rannsóknir" oft ratað í umræðuna. Ég hef verið - og er - meðal þeirra sem vilja stíga afar varlega til jarðar í öllum heimildum til lögreglu til að fylgjast með fólki og safna um það upplýsingum. Víða um heim hafa komið upp tilvik þar sem slíkar heimildir hafa verið misnotaðar. Einmitt þess vegna hefur sú leið verið farin hér á landi að lögregla þarf dómsúrskurð til að geta beitt rannsóknaraðferðum á borð við símhleranir, liggi fyrir rökstuddur grunur um alvarlegt brot. Mat lögreglunnar er hins vegar að þröskuldur sé svo hár að það geri lögreglu vandasamt að fylgjast með hópum sem stunda skipulagða glæpi. Ég hef fallist á þau rök lögreglunnar að víkka megi rannsóknarheimildirnar út, til dæmis þannig að hægt sé að rannsaka starfsemi hópa, ekki aðeins einstaklinga. En ég árétta að slíkar heimildir verða enn aðeins fengnar með dómsúrskurði. Að sama skapi ber lögreglu að upplýsa þann sem aðgerðin beindist gegn að rannsókn lokinni, þó þannig að það skaði ekki rannsóknarhagsmuni.

Átak gegn ofbeldi

Með þessu móti er staðinn vörður um mikilvæg mannréttindasjónarmið á sama tíma og lögreglu er gert kleift að sinna starfi sínu - sem er í þágu okkar allra - í baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Sem innanríkisráðherra ætla ég að gera allt sem í mínu valdi stendur til að styðja við lögregluna í hennar erfiða starfi. Ríkisstjórn hefur nú samþykkt að veita viðbótarfjármagni í átaksverkefni lögreglu til að vinna gegn skipulagðri brotastarfsemi. Náin samvinna er milli lögregluembætta hér á landi en alþjóðlegt samstarf er einnig lykilatriði í baráttunni. Átak lögreglunnar er hins vegar aðeins einn liður. Sem samfélag þurfum við að taka afstöðu gegn ofbeldi og glæpum. Sú samstaða er fyrir hendi á Alþingi og að því er best verður séð í þjóðfélaginu í heild sinni.