Fara í efni

Skynsemin notar öll skilningarvit

Birtist í Morgunblaðinu 14.08.04
Í byrjun ágúst var skýrt frá því að Eimskipafélagið hygðist hætta strandsiglingum. Fyrir fáeinum árum hafði Samskip hætt strandsiglingum en hvoru tveggja varð mér tilefni til að rifja upp gamlan Morgunblaðsleiðara frá því í mars árið 1992 þar sem lýst var sérstakri ánægju yfir því að ákveðið hefði verið að einkavæða strandsiglingar í landinu. Taldi Morgunblaðið allar líkur á að Eimskip og Samskip myndu sjá um þessar siglingar og keppa sín í milli um að bjóða sem hagstæðust kjör. Ég óskaði eftir því að Morgunblaðið segði nú álit sitt við þessar málalyktir. Það gerði blaðið í leiðara hinn 5 ágúst. Þar sagði m.a.: "Það skiptir ekki meginmáli, hvort flutningar fara fram á sjó eða landi eða þess vegna í lofti. Meginatriðið er að þjónusta flutningafyrirtækjanna uppfylli kröfur viðskiptavina þeirra … Ef hagkvæmara er að flytja vörur landleiðina hljóta flutningar á milli landshluta að færast í það form smátt og smátt eins og raun hefur á orðið. Ákvörðun Eimskipafélagsins um að leggja niður strandsiglingar er því í sjálfu sér ekki ámælisverð… svo lengi sem Eimskipafélagið kemur þeim vörum til viðskiptavina sinna, sem félagið hefur tekið að sér að flytja á umsömdu verði og umsömdum tíma, kemur viðskiptavininum í raun ekki við hvernig félagið sinnir þeirri þjónustu. Eina spurningin í þessu sambandi - og það getur verið stór spurning - er sú, hvort landflutningar og sjóflutningar sitji við sama borð af hálfu hins opinbera". Morgunblaðið segir ennfremur að þungaumferð skapi mikið álag á vegina og einnig slysahættu en við slíku beri þá að bregðast með gjaldstýringu, sköttum á þungaumferð á vegum og hugsanlega "lægri gjöldum vegna afnota af höfnum". Þar með er búið að viðurkenna hin samfélagslegu rök sem leiðarahöfundur blæs á í upphafi skrifa sinna. Þessi rök eru bæði af félagslegum og hagrænum toga.

Samfélag ekki það sama og fyrirtæki

Í mínum skrifum voru engir áfellisdómar yfir Eimskipafélagi Íslands og sagði ég aldrei að ákvörðun félagsins væri ámælisverð. Þvert á móti sagði ég að markmið samfélags gætu verið önnur en markmið fyrirtækis; fyrirtæki ætti að fá að vera fyrirtæki og samfélag samfélag. Ljóst væri að Eimskipafélagið byggi við góðan hag en það teldi greinilega  hagsmunum sínum betur borgið í öðrum fjárfestingum en strandsiglingum við Ísland. Hins vegar væri margt sem benti til að strandsiglingar væru þjóðhagslega hagkvæmar, ekki aðeins vegna álagsins á vegakerfið eða slysahættu eins og Morgunblaðið bendir á heldur vegna mengunar og annarra þátta einnig.
Leiðarahöfundur Fréttablaðsins blandar sér einnig í þessa umræðu og telur hann hugmynd mína um að samfélagið grípi í taumana, íhugi að koma á strandsiglingum að nýju, aftan úr forneskju: "Á 21. öldinni eru vikulegar skipakomur eins og hestaflutningar á fyrri öldum". Fólk þurfi að fá búslóðina sína samdægurs og að sjálfsögðu grænmetið. Undir það síðasta tek ég en spyr hvort sérstök skynsemi sé í því fólgin að krefjast þess að allir helstu vegir landsins séu hannaðir til að flytja jarðýtur, dráttarvélar og þyngstu byggingarvörur svo menn geti fengið þær samdægurs?
Hvað skyldi fá menn til að segja þvílíkt og annað eins? Að öllum líkindum blanda af vanahugsun og hugmyndafræði. Þröng pólitísk hugmyndafræði leyfir bara eina nálgun við lausn úrlausnarefna. Hægri sinnaðir menn nú um stundir telja ekkert koma annað til greina við lausn úrlausnarefna en að beita markaðslausnum – undir öllum kringumstæðum. Markaðnum megi stýra að einhverju takmörkuðu leyti, en hann skal vera grunnurinn. En ef svo skyldi fara að neytandanum er ekki boðið upp á val og ef stoðkerfi markaðarins, í þessu tilfelli vegir, hafnir og flugvellir eru misdýrir og mishagkvæmir kostir fyrir samfélagið? Ef við segjum að fyrirtæki eigi að fá að vera fyrirtæki og fara sínu fram, á ekki hið sama að gilda um samfélagið?

Búmannshagfræði

Auðvitað hljótum við að stýra samfélagslegum fjárfestingum okkar inn í skynsamlegan farveg. Ágætlega hugnast mér sýn lesenda sem sendi mér bréf á heimasíðu mína um þetta efni fyrir fáeinum dögum. Hann sagði: " Útfrá venjulegri búmannshagfræði lítur dæmið svona út: a) Við gefum okkur að við viljum halda byggð í landinu á því plani sem hún er núna. b) Við viljum reyna að minnka aðstöðumun fólks einsog hægt er innan skynsamlegra marka. c) Spurningin er því: Hvort er dýrara að setja þá peninga sem þarf til að viðhalda vegunum nægilega vel til að þola aukna flutninga, eða setja peninga í "Skipaútgerð Ríkisins"? Þetta hefur ekkert með frjálshyggju/kommúnisma að gera". Hér er spurt um þjóðhagslega hagkvæmni. Nú vill svo til að um þjóðhagslega hagkvæmni sjóflutninga er ekki ágreiningur. Það er framkvæmdin á lausninni sem stendur í mönnum. Þar er hins vegar fyrst og fremst pólitísk hugmyndafræði sem múrar menn inni.

Skipbrot einkavæðingar

Samfélagslegar lausnir eru ekki nýjar af nálinni. Með sameiginlegu átaki hafa fundist lausnir sem ekki voru á færi einstaklinga eða fyrirtækja að leysa. Í þessu er að finna lykilinn af stórstígum framförum 19. og 20. aldanna. Það er hins vegar nýtilkomið að þröngsýn markaðshyggja sé látin algerlega stýra för. Einkavæðingin er tiltölulega ungt fyrirbæri, það eru ekki meir en tuttugu til þrjátíu ár síðan einkavæðing hófst að einhverju marki í Evrópu. Og nú erum við að upplifa fyrstu dæmin um skipbrot. Jarvis, fyrirtækið sem sér um viðhald bresku járnbrautanna óskaði í febrúar á þessu ári eftir að vera leyst frá samningum sínum. Ástæðan? Fyrirtækið treysti sér ekki til að blanda saman hagkvæmnisumræðu og öryggisumræðu. Jarvis sagði: "Við getum ekki sparað á kostnað öryggis. Þess vegna á viðhald almenningssamgangna að vera á höndum ríkisins."  Oft er hægt að einkavæða rekstur, en það er ekki alltaf hægt að einkavæða framboð og eftirspurn. Það er ekki hægt að krefjast þess að það sé eftirspurn eftir strandsiglingum, en það getur verið þjóðhagslega hagkvæmt að halda úti strandsiglingum. Menn verða að losna úr viðjum hugmyndafræði frjálshyggjunnar og skoða heildarsamhengi. Það eru stjórnmál. Hugmyndafræði er eineygð en skynsemin notar öll skilningarvit og hefur fulla sjón á báðum augum.