Fara í efni

SKYLDAN KALLAR

Myndatexti sem birtist í Morgunblaðinu 17. nóvember síðastliðinn með mynd af ísraelskum hermönnum undir alvæpni á Gaza ströndinni situr í mér.

Í textanum segir að þeir séu að sinna skyldustörfum. Það hljómar eins og lögreglumenn að stjórna umferð eða veita aðstoð á slysstað, með öðrum orðum að sinna verkefnum sem hafa samfélagslegt gildi og við flest sammála um að séu í verkahring löggæslumana, þeirra skyldustörf.

Eitthvað allt annað er að gerast á Gaza svæðinu. Þar eru hermenn ekki að aðstoða íbúana heldur drepa þá, sprengja spitalana þeirra og skólana og að sjálfsögðu íbúðarhúsin. Þetta eru semsagt ekki skyldustörf í þeim skilningi sem við flest leggjum í hugtakið.

Svo má setja pólitík í skilniginn eins og Morgunblaðið gerir iðulega þegar stríðsátökum eru gerð skil, því blaðið skildi það greinilega svo að hermennir væru í pásu í sókn sinni að Hamas. Látum það liggja á milli hluta að sinni.
 

Og kem ég þá að hugrenningartengslunum sem myndatextinn vakti með mér. Í bók sinni Löndin í suðri segir Jón Ormur Halldórsson frá hryðjuverkum zionista þegar þeir hröktu Palestínumenn úr byggðum sínum með morðum og ofbeldi við stofnun Ísralesríkis.

Ytzhak Rabin, síðar frorsætisráðherra Ísraels, stjórnaði einni mannskæuðstu ofbeldisárásinni sem Ben Gurion fyrsti forsætisráðherra Ísraels hafði gefið skipun um. Þessum hryðjuverkamönnum kynntist mín kynslóð síðar í fréttum, yfirleitt að formæla hryðjuverkum Palestínumannanna sem þeir höfðu hrakið á brott frá heimkynnum sínum “með blóði og eldi” eins Menachem Begin, enn einn forsætisráðerra Ísraels, kvað hafa verið óumflýjanlega nauðsyn.

Það var svo fyrrnefndur Rabin sem minntist þess síðar að nauðsynlegt hefði verið að beita áróðri og endurmenntun til að fá hermennina sem tóku þátt í aðgerðunum til að sætta sig við þessi hroðaverk.
Endurmenntunin gekk þá væntanlega út á það að endurskilgreina hryðjuverk þannig að þau flokkuðust sem nauðsynleg skyldustörf.

Þetta þykir mér vera einn versti glæpurinn: Að innræta ungum mönnum að eðlilegt og réttmætt viðfangsefni starfa þeirra sé að gera líf annarra að helvíti á jörðu.