Fara í efni

SKILYRÐI BSRB OG EFASEMDIR UM ENDURHÆFINGARSJÓÐ

 
1. maí ræða í Vestmannaeyjum:

Það er ánægjuefni að vera í Vestmannaeyjum á baráttudegi verkalýðsins. Að þessu sinni er hann helgaður öldruðum og er það við hæfi.

Eldri kynslóðunum eigum við sem erum yngri að árum - sum hver að komast á þröskuld hinna efri ára - skuld að gjalda fyrir framlag þeirra, áratuga baráttu og uppbyggingarstarf. Baráttu sem skilað hefur okkur samfélagi sem við höfum notið góðs af. En það eru ekki bara þakkir sem koma upp í hugann þegar horft er til fyrri ára. Það er einnig hitt, að okkur er hollt að hugsa til sögunnar. Með því móti fáum við gleggri sýn á samtímann, erum betur í stakk búin að vega hann og meta og taka stefnuna inn í framtíðina á yfirvegaðan hátt. „Að fortíð skal hyggja ef frumlegt skal byggja, án fræðslu þess liðna sést ei hvað er nýtt" sagði Einar Benediktsson í Aldamótakvæði sínu.

Sögulaus maður er týndur maður, áttavilltur og því ráðvilltur um hvert skuli halda.

Að ýmsu leyti stöndum við á tímamótum. Ýmis gildi sem verið hafa í heiðri höfð um langt skeið eru nú véfengd. Þegar við heyrum Heilsuverndarstöðina ehf auglýsa 20% afslátt á geðheilbrigðisþjónustu fyrir gullkorthafa Kaupþings og þegar við heyrum þeirri hugmynd hreyft að gera Landspítalann að hlutafélagi og þegar byrjað er að bjóða út heilar deildir á sjúkrahúsunum okkar, þá hljótum við að staldra við og spyrja ýmissa grundvallarspurninga.

Getur verið að okkur skorti hina sögulegu sýn, að við gerum okkur ekki grein fyrir ávinningum þeirrar aldar sem er nýliðin?

Tuttugasta öldin var öldin sem velferðarkerfin voru byggð upp. Þetta var öldin sem krafðist mannréttinda fyrir alla, öldin sem lagði til atlögu við stéttaskiptingu og misrétti fyrri tíðar. Þetta var öld byltinga í nafni sósíalisma og jafnréttis, öldin sem jafnvel bandarískur forseti - fremstur talsmaður í heimi fjármagns og auðvalds, jafnvel hann sá sig knúinn til að heita þjóð sinni að nú skyldi gefið upp á nýtt. Út á það gekk New Deal Roosevelts Bandarikjaforseta á fjórða áratugunum, sama áratug og Sosialreformen varð að veruleika á Norðurlöndum og stjórn hinna Vinnandi stétta á Íslandi lagði grunninn að almannatryggingakerfi fyrir alla. Þar með var rekið smiðshöggið á það ætlunarverk verkalýðshreyfingar og félagslegra afla að færa réttindi sem áður höfðu verið vinnumarkaðstengd - einskorðuð við þá sem voru á vinnumarkaði - inn í almannakerfi þar sem allir fengju notið réttindanna. Frá Vöggu til grafar, From the cradle to the grave - sagði breski Verkamannaflokkurinn stoltur  á eftirstríðsárunum, með fyrirheitum um að öllum skyldi tryggð velferð, allt frá því við kæmum í heiminn og þar til við yfirgæfum hann. Og til varð heilbrigðisþjónusta, sem gerði ekki greinarmun á ríkum og snauðum. National Health Service kölluðu Bretar heilbrigðiskerfið sem þeir skópu með löggjöf árið 1948.
Það ár er fæðingarárið mitt. Mín kynslóð þekkir ekki annað en þá hugsun að allir eigi að hafa sama rétt þegar heilsan brestur eða eitthvað fer verulega úrskeiðis í lífinu. Allir skyldu ganga inn á Landspítalann um aðaldyrnar og undir engum kringumstæðum átti efnahagur að ráða hverjir fengju þar rúm sólarmegin.

Uppgötvun 20. aldarinnar var máttur samvinnunnar. Þær framfarir sem urðu í efnahagslífi, menningu og listum hefðu aldrei orðið ef hver og einn hefði paufast í sínu horni. Þá skildist mönnum að með því að virkja kraftinn í einstaklingnum, öllum einstaklingum, öllum einstaklingunum saman, í samvinnu og sameiningu, að þannig mætti leysa úr læðingi margfalt meira afl en við byggjum yfir hvert og eitt. Og það var þetta afl, þessi kraftur, sem fleytti okkur inn í mesta framfaraskeið mannkynssögunnar.

Það merkilega sem gerðist þegar leið á hina tuttugustu öld var að til varð sameiginlegur skilningur á mikilvægi samstöðunnar, hins félagslega átaks: Að saman ættum við að vinna að smíði velferðarkerfis. Og þessu tengd var vitund um að jöfnuður og félagslegt réttlæti yrði að fylgja með því aðeins með því að koma okkur öllum á sama bátinn - gætum við saman lagst á árarnar og náð árangri.

Þetta kostaði vissulega baráttu en hún skilaði þessum sameiginlega skilningi.

Helgi Guðmundsson, trésmiður, fræðimaður og rithöfundur, fyrrum forystumaður í verkalýðshreyfingunni, hefur minnt á í skrifum sínum hvernig þessi sátt varð til.  " Á fyrstu árum sjötta áratugarins" segir hann, „ urðu hvað eftir annað harðvítug verkföll í landinu, sem náðu hámarki með sex vikna löngu allsherjarverkfalli á almennum vinnumarkaði árið 1955 (opinberir starfsmenn höfðu ekki verkfallsrétt). Verkfallinu lauk loks í apríllok með samningum um launahækkanir, og það sem meira var: um að taka upp atvinnuleysistryggingar. Allar sex vikurnar voru gerðar stanslausar tilraunir til að brjóta verkfallið á bak aftur og urðu verkfallsmenn m.a. að loka aðkomuleiðum að Reykjavík með vegatálmunum. Verkalýðsfélögin máttu vel una við hinn sýnilega árangur. Það sem hinsvegar kom ekki fram formlega í samningunum var þó enn meira virði. Verkfallið sýndi svo ekki varð um villst að landinu yrði ekki stjórnað til langframa í andstöðu við verkalýðssamtökin. Komið var upp tvíveldi í landinu, valdajafnvægi stéttanna var orðin staðreynd."

Og Helgi heldur áfram og færir fyrir því rök að „borgarastéttin og auðmenn landsins (hafi) neyðst til að horfast í augu við staðreyndir. Tekist hafði", segir hann, „ að skipuleggja samtakamátt almennings þannig að fram hjá honum varð ekki gengið. Næstu árin voru enn háð verkföll og þegar opinberir starfsmenn fengu loks verkfallsrétt, urðu þeir að berjast hart, beinlínis fyrir því að láta taka mark á sér. „Sáttin" var með öðrum orðum knúin fram í andstöðu við valdhafana - þeir voru neyddir til að taka tillit til samtaka almennings."

Hvers vegna rifja ég þetta upp nú? Ég geri það til að minna okkur á að velferðin - það sem við höfum af henni -  og jöfnuðurinn - ekkert af þessu varð til af sjálfu sér. Það þurfti baráttu og það þarf enn að berjast ef við ætlum ekki að láta svipta okkur öllu því sem áunnist hefur, hvað þá ef við ætlum að halda því ætlunarverki verkalýðshreyfingarinnar til streitu, að byggja hér upp samfélag reist á jöfnuði og velferð fyrir alla.

"Tuttugu prósent afsláttur fyrir gullkortahafa!" Útboð og úthýsing á sjúkrahúsum - allt á kostnað láglaunastétta. Velferðarþjónustan er auglýst í útvarpi, ekki sú velferðarþjónusta sem við könnumst við, nei þetta er heitið á nýrri vörulínu hjá hlutafélagi, sem á að skila eigendum sínum arði. Vildarkjör í boði, segja tryggingarfyrirtækin, sem nú bjóða upp á heilsufarstryggingar - ódýrast fyrir heilsuhrausta - ef enginn krabbi er í ættinni ertu í góðum málum - allt útreiknað af vísindalegri nákvæmni upp á krónur og aura. Iðgjöldin fara eftir áhættu, því lakara sem heilsufarið er, því meira borgarðu.

Viljum við hefja vegferð inn í þennan heim?

Verum gagnrýnin á eigin gjörðir. Spyrjum hvort það sé e.t.v. skref aftur á bak að taka verkefni sem nú heyra undir almannatryggingar og færa þau inn í Endurhæfingarsjóð sem aðilar á vinnumarkaði komu á laggirnar í samvinnu við lífeyrissjóði og ríkisvald í nýgerðum samningum.  Fyrirhugaður Endurhæfingarsjóður byggir vissulega á félagslegum forsendum og markmiðin eru góð - að efla þá sem misst hafa starfsorku til sjálfshjálpar að nýju. En einmitt það er markmiðið með almannatryggingum og það er markmiðið með því endurhæfingarnetverki sem við höfum verið að koma á laggirnar á undanförnum árum og áratugum - fyrir alla. Þetta kerfi hefur hins vegar verið svívirðilega fjársvelt. Það þekkir starfsfólkið á Grensásdeild Landspítalans og í heilbrigðiskerfinu. En þá ætti verkefnið að vera að auka fjárstreymið til þessara aðila, og hafna þeirri stefnu að því aðeins verði peningar af hendi látnir rakna ef starfsemin er einkavædd. Ætlar ríkisstjórnin Almannatryggingum rýrari hlut þegar farið verður að beina fjármagni inn í þennan nýja farveg Endurhæfingarsjóðs? Við þessu þurfa að fást svör.
Góðir félagar í baráttunni: Um Endurhæfingarsjóðinn hef ég ákveðnar efasemdir - að við séum að snúa til þess sem áður var, að réttindi sem nú tilheyra öllum verði að nýju vinnumarkaðstengd. Grundvallarbreytingar á velferðarkerfinu á ekki að gera umræðulítið eins og nú hefur gerst og hefur stundum gerst áður. Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar umræðulítið er samið um grundvallarbreytingar sem munu ganga yfir allt samfélagið og hef ég þar einnig í huga samninga sem nýlega voru gerðir um að aldurstengja lífeyrisréttindi.

Já, tuttugu prósent afsláttur fyrir gullkorthafa!

Stundum líður manni einsog þessi hundrað ár sem liðin eru frá því að almenningur ákvað að taka höndum saman og byggja upp öfluga heilsugæslu, menntakerfi og almannatryggingar, - séu ekki hundrað ár, heldur þúsund ár, svo margt er breytt. Hjá yngri kynslóðum er minnið tapað, þær muna ekki þennan tíma. Og við þurfum að klóra okkur í höfðinu og rifja upp fátæktina, vonleysið og örvæntinguna, sem breytt var í velsæld, von og bjartsýni, með því einu að trúa að það væri hægt.

Hafið þið hugleitt að fyrr á tíð hugsaði samfélagið stærra en það gerir nú? Hinu snauða Íslandi óx ekki í augum að byggja upp öfluga heilbrigðisþjónustu, skóla, efla samgöngur - í nafni heildarinnar. Nú sjá ráðandi öfl bara vandamál en síður lausnir - eða eru það bara okkar lausnir sem þau vilja ekki sjá?

Fyrir ekki svo ýkja löngu síðan var það gert að bannorði að ríkið tæki lán. Hafist var handa um að færa skuldir ríkissjóðs niður. Og við fögnuðum - enda hljómaði þetta sem góð ráðdeild.  Og ríkið hætti að taka lán.  En smám saman rann það upp fyrir okkur að þrátt fyrir allan árangurinn og húrrahrópin þegar ríkisskuldirnar lækkuðu, voru Íslendingar enn að taka lán - meira að segja komnir efst á blað sem skuldugasta þjóð á meðal vestrænna ríkja! En nú var það ekki ríkið, sem tók lán fyrir nýrri Grensásdeild heldur bankar og fyrirtæki sem tóku lánin. Og það var gert á nýjum forsendum - ekki okkar. Við sáum þoturnar lenda og taka sig til flugs. Við sáum hallir rísa og dýrustu skemmtikrafta heimsins troða upp í afmælispartíum hinna nýju lántakenda.
En það er ekki fyrr en núna að okkur er sagt að lánin séu öll á okkar ábyrgð. Og agndofa hlustar þjóðin á stjórnarformann Landsbanka segja okkur á forsíðu Morgunblaðsins að nú þurfi þjóðarsjóð til að verða bakhjarl bankanna - 15% stýrivextir gangi ekki til lengdar segir hann. En ég spyr, hvað með gróða og arð? Á efnahagslífið að una því að fjármagnið sogi til sín ekki 15% heldur 30% arð frá atvinnulífinu. Og hvað með dráttarvexti bankanna? Þeir eru komnir yfir 20% - tvö hundruð þúsund á ári af hverri milljón í vanskilum auralítils manns.
Kemur ekki að því að eitthvað lætur undan? Og hvað finnst okkur um útleggingar fjármálamógúlanna - þeirra sem segja að allt sé sér að þakka þegar vel gengur - það sé bara í augnablikinu að þeir þurfi öryggissjóð og meiri pening frá lífeyrissjóðunum - það sé svolítið hart í ári þessa stundina . Hvað finnst okkur um þetta tal? Og hvað finnst okkur þegar saman taka höndum fjármagnseigendur og frjálshyggjan í pólitík?  Nú sé lag að fjárfesta í sjúkrahúsum og elliheimilum og skólum, allt sé þetta góður bisniss. Þannig hefur það meira að segja verið orðað, að það sé hægt að græða vel á öldruðum. Hlustið á hvað þau segja, þið eigið að borga, við skulum framkvæma - og græða. Eru þið ekki til í að gera Landspítalann að hlutafélagi? Við ætlum engu að breyta, þið takið ekki eftir neinu - þetta verður allt tekið í gegnum skattinn! Annað bíður betri tíma.

Þegar auðmennirnir og handlangarar þeirra reyna að sannfæra okkur um ágæti eigin verka og að þeir skuli nú sjá um framkvæmdina á hugsjónum okkar, - þá rennur upp fyrir okkur að það eru ekki þúsund ár síðan við komum á heilsugæslu og menntun fyrir alla. Það er varla einn dagur í sögu þjóðarinnar, og ávinningurinn einsog smáblóm sem þarf að vernda og berjast fyrir með sömu hörku og það kostaði að gróðursetja það í frjósama mold samhygðar og mannúðar.  Samtakamáttur almennings er það ljós og það líf, sem hugsjónir almennings þurfa til að gróa og vaxa.

Sýnt hefur verið fram á að einkarekin velferðarþjónusta er dýrari og óhagkvæmari en sú sem við rekum sjálf, samfélagið, hvort sem er ríki, sveitarfélög eða sjálfseignarstofnanir sprottnar upp úr verkalýðshreyfingu og öðrum almannasamtökum. Þetta er óvéfengjanleg staðreynd.

En málið snýst ekki bara um krónur og aura. Mælieiningin peningar hefur nefnilega sínar takmarkanir, sem hollt er að hugleiða. Það er ekki hægt að mæla allt með peningum, hvorki dýpt Þingvallavatns, hamingju þjóðar né gæði umönnunar. Landspítalinn verður ekki mældur í debet og kredit heldur hvernig heilabilaða manninum, konunni með hjartatruflanir eða langveika barninu líður þar. Peningar eru einsog kílógrammið, og aldur manns, allt gagnlegar mælieiningar en bara í réttu samhengi. Þegar reynt er að setja allt á mælistiku peninganna þá er voðinn vís. Það er einföldunarhyggja fyrir einfeldninga og hún hefur gagnast þeim. Handhafar slíkrar hyggju eru varasamir sérstaklega þegar þeim eru fengin ótakmörkuð fjárráð og völd yfir heilu samfélagi. Það hefur verið gert á Íslandi og þess vegna erum við nú að fara út af sporinu.

Góðir félagar.
Blikur eru á lofti í efnahagslífinu - verðbólgan komin í tveggja stafa tölu - þar sem hún étur upp kjörin með ógnarhraða -og keyrir upp lánin. Aðildarfélög BSRB eiga nú lausa samninga gagnvart ríkinu. Við höfum lagt til að samið verði til skamms tíma. Samfélagið þarf að ná áttum - leggja til atlögu gegn þeim vágestum sem ógna okkur. Það þolir ekkert heimili eða veikburða atvinnurekstur okurvextina til frambúðar eða þá holskeflu verðhækkana á vöru og þjónustu sem nú ríður yfir. Það er komið að þeim sem stýra verðlaginu að sýna ábyrgð. Það hafa þeir upp til hópa ekki gert á undanförnum árum, eða hvað varð um ávinninginn af lækkun virðisaukaskattsins á matvælum í fyrra? Var hann ekki háfaður af verslunareigendum  á sama hátt og gengisbreytingar hafa verið nýttar í þeirra þágu en ekki komið neytendum til góða.  Á þessum málum verður nú að taka af festu og ábyrgð því eitt mega menn vita að okkar tilboð er ekki án skilyrða. Við viljum breyttar áherslur - ekki síst hjá stjórnvöldum,  markaðs- og peningahyggja verði látin víkja - að við komum að nýju að borði sem samfélag - lögð verði á hilluna áform um frekari einkavæðingu innan velferðarþjónustunnar og hætt verði að úthýsa láglaunahópum og koma fram við fólk eins og ómerkilegar stærðir  í bókhaldi sjúkrahúsanna. Víðar í þurfa stjórnendur að taka sér tak og temja sér önnur vinnubrögð. Deilur um löggæsluna á Suðurnesjum eru dæmi þar um. Þá þurfum við að heyra hvenær stjórnvöld ætli að framfylgja fyrirheitum um að bæta kjör umönnunarstétta og annarra hópa sem búa við óviðunandi kjör og aðstæður.

Góðir félagar!
Missum ekki sjónar á hugsjónum okkar. Getur verið að við þekkjum þær ekki lengur? Þurfum við að láta troða þær niður í svaðið af almannatenglum auðmanna til að þekkja þær aftur sem brotin gull í göturæsi neyslusamfélagsins? Sagan kennir okkur að við fáum ekkert, alls ekkert, og aldrei neitt, nema með eindrægni og ákveðni, og til þess þurfum við að þekkja hugsjónir okkar betur en vörurnar í verslunum og tilboðin hjá ferðaskrifstofunum. Annars vöknum við upp við það einn góðan veðurdag, að sjóðirnir sem við höfum byggt upp eru horfnir, velferðin aðeins fyrir hina ríku, heilsugæslan fyrir þá sem hafa efni á henni og skattarnir fyrir þá lægst launuðu  - til að borga.

Þá þurfum við að byrja að nýju á byrjunarreitnum og hefja hina löngu göngu aftur, hefja baráttuna aftur. Meðan við höldum vöku okkar, höldum við í horfinu, en það er beðið færis að ná yfirhöndinni aftur.  Það er komin ný tegund af ráðamönnum, sem vilja lifa góðu lífi á sköttunum okkar og lífeyrissjóðunum. Og þeir róa að því öllum árum að hafa af okkur allar þær eignir sem græða má á - fyrst var það kvótinn og nú eru það sjúkrahúsin.
En gleymum því aldrei sem sagan kennir; að við getum ráðið því sem við viljum ráða. Ræktum hugsjónir okkar, ef við missum sjónar af þeim, missum við það samfélag sem við höfum lagt grunn að og það getur tekið þúsund ár að ná því aftur.

Efnalitlu þjóðfélagi tókst að hugsa stórt. Og fyrst það var hægt þá að trúa á verðuga framtíðarsýn, þegar hugsunin var ný og óprófuð og óreynd, þá skulum við ekki vera minni menn. Við skulum trúa á framtíðina einsog sú framfarakynslóð sem á undan gekk - við skulum hugsa stórt eins og hún.
Það er vel við hæfi að þessi dagur í dag í Eyjum sé helgaður öldruðum - kynslóðunum sem vildu byggja upp gott samfélag á Íslandi, samfélag drifið áfram af hugsjónum samvinnu og samstöðu. Við þessar hugrenningar hlýnar um hjartarætur, jafnframt því sem við erum minnt á ætlunarverk okkar.

Það má aldrei verða að sá einn fái menntun sem getur greitt fyrir hana úr eigin vasa.
Það má aldrei verða að við hættum að rétta sjúkum manni hjálparhönd nema að hann hafi kort upp á vasann.

Við læknum fólk vegna þess að það er veikt.
Við hlúum að hinum vanmáttuga vegna þess að hann er vanmáttugur, ekki vegna þess að hann fékk tryggingu hjá VÍS eða Sjóvá.
Og við segjum við móður fatlaða barnsins
og föður þess,
að þau séu ekki ein,
og verði aldrei ein.
Þau eigi okkur að.
Þau eiga að íslenska verkalýðshreyfingu.
Í okkur skulu þau eiga bakhjarl.
Og þannig verður það svo lengi sem dreginn verður að húni báráttufáni verkalýðshreyfingarinnar.
Ekki bara fyrsta maí,
heldur alla daga.
Allir dagar eiga að vera dagar samstöðu og baráttu fyrir betra samfélagi
Gerum alla daga að baráttudegi verkalýðsins

Til hamingju með daginn.