Fara í efni

SKILDI EFTIR ÁKALL UM AFVOPNUN

Gorbatsjov er án efa einn eftirminnilegasti stjórnmálamaður sinnar samtíðar.

Þegar hann komst til valda á níunda áratug síðustu aldar fyrst sem aðalaritari sovéska kommúnistaflokksins, síðar sem forseti Sovétríkjanna, gerði hann úrslitatilraun til að blása lífi í sovétkerfið með opnun og lýðræðisvakningu, Glasnost og Perestrojku, en allt kom fyrir ekki.

Þótt honum tækist ekki ætlunarverk sitt að þessu leyti var það honum að öllum líkindum að verulegu leyti að þakka að Sovétríkin leystust upp tiltölulega friðsamlega. Hann stóð í þeirri trú að samningar þeirra Shevardnadse og Kissingers um að samhliða því að Sovétríkin væru látin liðast í sundur og þar með Varsjárbandalgið úr sögunni yrði því svarað handan gamla járntjaldsins á svipuðum nótum nokkuð sem ekki gekk eftir af hálfu Vesturveldanna og NATÓ illu heilli. Þar var bætt í vígbúnaðinn í stað þess að draga úr.

Vilji Gorbatjsovs til afvopnunar held ég að hafi verið ótvíræður. Við minnumst afvopnunarviðræðna þeirra Reagans og Gorbatsjovs í Reykjavík 1986. Sá fundur er mér ekki síst minnisstæður vegna þess að ég var þá fréttamaður Sjónvarpsins og hafði ásamt öðrum umsjón með fréttaumfjöllun um fundinn. Er mér eftirminnilegt hve fimur pólitískur skilmingamaður Gorbatsjov var. Enda bjó hann nánast við lýðhylli á Vesturlöndum gagnstætt því sem raunin var á heima fyrir þar sem allt var í upplausn og á hverfanda hveli.

Leiðtogafundurinn í Reykjavík er mörgum eftirminnilegur enda má segja að þjóðfélagið hafi farið á hliðina, aðdragandinn nánast enginn en öllu samt “reddað” með ótrúlega samstilltu átaki eins og rifjað hefur verið upp.
https://www.visir.is/g/20222305119d/snar-handtok-og-fljotir-faetur-vegna-leidtogafundar

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2022/08/31/island_var_midpunktur_frettaheimsins/ 

Söguleg arfleifð Gorbatsjovs er augljós: Hann skildi eftir ákall um afvopnun. Nýlega, þó fyrir innrás Rússa í Úkraínu, sagði hann og kvað fast að orði, að útrýma þyrfti öllum kjarnorkuvopnum ekki nægði að hefta útbreiðslu þeirra; núverandi kjarnorkuveldi yrðu öll að láta þau af hendi, þar með Rússland og Bandaríkin. Annars væri voðinn vís. Handan Atlantshafsins heyrðist annar öldungur viðra sömu skoðun. Þar var kominn Henry Kissinger við háan aldur en vel með á nótunum.

Þessir menn vissu sínu viti og það miklu betur en þeir sem nú sitja við stýrið í hraðakstri inn í öngstræti hernaðarhyggjunnar.