Fara í efni

Skerðum ekki veikindaréttinn

Gunnar Páll Pálsson, formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur, viðrar ýmsar hugmyndir  í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins í dag. Ekkert er nema gott um það að segja að forsvarsmenn í samtökum launafólks leyfi sér stundum að hugsa upphátt opinberlega og varpa fram hugmyndum. Með því móti er stuðlað að frjórri umræðu. Forsenda þess er að sjálfsögðu að menn fái viðbrögð á hugmyndir sínar. Við einni hugmynd Gunnars Páls í fyrrnefndu viðtali tel ég nauðsynlegt að bregðast þegar í stað. Það er sú hugmynd að fyrsti veikindadagur verði launalaus. Gunnar Páll vill auka réttinn í lengri veikindum og fyrir foreldra langveikra barna. Þarna tek ég heilshugar undir með honum. Þegar hann hins vegar segir að á móti skuli menn hafa "sjálfsáhættu í minni veikindum", þá fylgi ég honum ekki lengur að málum – og það meira að segja langt í frá. Atvinnurekendur myndu taka þessu fagnandi enda segir Gunnar Páll að fyrsti dagurinn sé "dýrasti veikindadagurinn út frá sjónarhóli vinnuveitandans". Ég ætla að leyfa mér að leggja til að við látum atvinnurekendur um að setja fram tillögur sem þeir telja þjóna sínum hagsmunum. Okkar í verkalýðshreyfingunni er hins vegar að spyrja hvað þetta þýddi fyrir launamanninn? Fyrir það fólk sem hefur minnstar tekjur og má ekki sjá af einni einustu krónu hefði þetta í för með sér að reynt yrði að halda út í vinnu þótt fólkið væri orðið veikt. Viljum við fyrirkomulag sem leiddi slíkt af sér? Svarið er tvímælalaust nei.