Fara í efni

Skemmtilegt viðtal og nokkrir þankar í framhaldi

”Ríkisstjórnin sem Tony Blair veitir forystu er af sama sauðahúsi og Clinton og hans menn í Bandaríkjunum, vinstrimenn sem gerast hægri menn til að vinna kosningar. Þessi ríkisstjórn hefur valdið mér miklum vonbrigðum. Blair er eiginlega alveg eins og Margrét Thatcher.” Sá sem mælir er breski rithöfundurinn John Mortimer í skemmtilegu viðtali sem Jónas Knútsson tók við hann og birtist í helgarblaði Morgunblaðsins. Viðtalið vakti athygli mína af tveimur sökum. Það gefur skemmtilega innsýn í hugarheim þessa aldraða og lífsreynda Breta. Að hinu leytinu er viðtalið skemmtilegt og fjörugt og er það að sjálfsögðu Mortimer að þakka en ekki spilla stórskemmtilegar – stundum svolítið ögrandi – spurningar Jónasar Knútssonar. Varðandi ummæli Mortimers um Tony Blair þá ríma framangreind ummæli við mína tilfinningu til nokkuð langs tíma. Sjálfur er ég nú staddur í Bretlandi í fáeina daga og ætla ég að nota hverja stund til að reyna að grafast fyrir um hvað valdi því að í nánst hverju máli velur Tony Blair hægri beygju þegar hann kemur að vegamótum. Nú er hans helsta kappsmál að koma á skólagjöldum í háskólum landsins. Í morgun hlustaði ég á viðtal sem hinn kunni breski sjónvarpsmaður David Frost átti við Michael Howard leiðtoga breska Íhaldsflokksins. Hann sagði hvorki sig né sinn flokk fýsandi að fá skólagjöld. Allir sem vilja komast í háskóla verða að eiga þess kost. Ef skólagjöld hefðu verið við lýði þegar ég hóf háskólanám þá efast ég stórlega um að ég hefði farið þá leið. Á þessa lund mælti formaður breska íhaldsins í morgun. Hann var að mótmæla tilllögum um auknar álögur á námsmenn – frá breska Verkamannaflokknum. Öðru vísi mér áður brá.