Fara í efni

SKAMMSÝNI LÆKNAFÉLAGSINS


Birna Jónsdóttir, formaður Læknafélags Íslands, skýrði okkur frá því í Spegli RÚVohf, að ríkið hefði aldrei læknað neinn. Það hefðu læknar hins vegar gert. Sama á þá eflaust við um fræðslu; ríkið hafi engum kennt því kennslan hafi ætíð verið á hendi kennara. Og löggæslan, grunnrannsóknir í vísindum, flugumferðarstjórn, heilbrigðiseftirlit; hvergi hafi ríkið komið nærri, aðeins starfsfólk, lögreglumenn, heilbrigðisstarfsmenn og þar fram eftir götunum.
Þetta er nokkuð djörf kenning. Hún er skýr og einföld. En óhemju langt frá veruleikanum. Svona afgreiða menn ekki hið stórbrotna samfélagsátak 20. aldarinnar þegar grunnurinn var lagður að velferðarsamfélaginu. Þetta gerðum við fyrst og fremst saman. Umgjörðin, ramminn, þar sem átakið og framkvæmdin var skipulögð,  var bæjarfélagið og ríkið. Samvinnufélög og verkalýðshreyfing komu og mjög við sögu. Þetta var með öðrum orðum samfélagslegt verkefni.

Fjárhagslegt vald lækna

Á Íslandi hefur verið ágæt blanda samfélagsreksturs í heilbrigðisþjónustunni og einkapraksís lækna. Almennt hefur verið sátt um þetta fyrirkomulag. Að vísu hefur okkur - sumum hverjum allavega - þótt fjármagnið úr ríkishirslunum stundum streyma til einkarekstursins um of á kostnað ríkisrekinna stofnana. Ég minnist þess þegar helsjúkum félaga mínum, sem lá á Borgarspítalanum, var ekið með sjúkrabíl í Domus Medica því þar voru fullkomnari myndgreiningartæki en var að finna á Borgarspítalanum. Hvernig stóð á því? Getur verið að læknar almennt hafi vísað sjúklingum sínum frekar í Domus en á sjúkrahúsin í Reykjavík og þar með flutt þangað fjármagnið frá skattgreiðandanum sem fylgdi sjúklingnum?
Ég þekki þetta af eigin reynslu enda vitað að læknar hafa í sínu valdi fjárhagslegt eigi síður en faglegt ákvörðunarvald.
Allt þetta þekkir formaður Læknafélagsins í þaula enda jafnframt formennskunni hjá læknum einn helstur forsvarsmaður í Domus Medica. Eflaust rækir Birna Jónsdóttir og samstarfsfólk hennar í Domus sitt starf þar prýðilega og eflaust er þar ágætlega staðið að málum.

Á fleygiferð vestur um haf?

Hitt leyfi ég mér að spyrja um: Eru læknasamtökin virkilega að bisnessvæðast í baráttu sinni að því marki sem formaður samtaka þeirra gaf til kynna í umræddu útvarpsviðtali? Var talað fyrir hönd læknastéttarinnar almennt þegar ríkið sem atvinnurekandi var hrópað út í ystu myrkur. Er bandaríska heilbrigðiskerfið ef til vill íslenskum læknum fyrirheitna landið? Þar fær einkapraksísinn heldur betur að njóta sín. Hreinlega blómstrar í dýrasta heilbrigðiskerfi á byggðu bóli! Ég leyfi mér að skjóta því að Læknafélaginu að fólk í ræstingum á sjúkrahúsum landsins fékk ekki að kynnast neinum sérstökum kjarabótum þegar sú starfsemi var færð frá ríkinu í hendur verktaka. Sama gildir um starfsmannaleigurnar sem ýmsar stofnanir hafa falið það verkefni að draga úr launakostnaði og rýra réttindi og starfskjör.

Hve lengi sperrtir bisnessmenn með læknagráðu?

Ef fram vindur sem horfir mun hið sama gerast á Íslandi og er að gerast víða í Evrópu. Einkapraksís-læknar taka sig saman, mynda samstæður, sem smám saman verða að einkareknum sjúkrahúsum. Sérstaða lækna sem starfsmanna fer síðan dvínandi, hagsmunir þeirra víkja fyrir hagsmunum fjárfestanna, sem reka hin nýju sjúkrahús.
Þá kemur að því að bisnessmennirnir með læknagráðu, sem nú spóka sig á hvítum sloppum, fullir sjálfsöryggis, byrja að skilja harmagrát ræstitæknisins, sem var fluttur frá ríki yfir til verktakafyrirtækisins ISS.
Getur verið að Læknafélag Íslands hafi ekki hugsað dæmið til enda?