Fara í efni

SJÁLFSTRAUST

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 14.12.14.
Í vikunni sýndi Sjónvarpið heimildarmyndina  Þrumusál en hún fjallar um afrek tónlistarkennara  nokkurs við Kashmer Gardens skólann  í Houston í Texas í Bandaríkjunum. Skólinn er hverfisskóli  í hverfi svartra og mátti skilja að félagslegt og efnahagslegt bakland nemenda væri ekki upp á marga fiska.

Umræddur kennari, Conrad O. Johnson að nafni, sem gekk undir gæluheitinu prófessorinn, prof,  var sagður hafa sótt tónleika Otis Redding, sálar-söngvarans ástsæla, árið 1967, hrifist mjög  og fengið þá hugsýn sem síðar varð að staðföstum ásetningi, nefnilega að nýta þá umgjörð sem hann þóttist greina um tónleikahald  Reddings, sem skapandi fyrirmynd í tónlistarkennslu við Kashmer Gardens skólann. 

Hann hófst strax handa og stofnaði skólahljómsveitina Kashmer Stage Band. Hún sótti fljótlega í sig veðrið og varð þekkt um öll Bandaríkin sem afburða góð jasssveit enda vann hún ítrekað til verðlauna í keppnum millum skóla. Brátt skapaðist það orðspor að  Kashmere Stage Band væri ósigrandi í slíkum keppnum.

Á bak við sveitina stóð skapari hennar, stjórnandi, lagahöfundur og útsetjari, sjál f Þrumusálin , prof. Conrad O. Johnson. Hugmynd hans var sú að með þátttöku í hljómsveitinni myndu nemendum opnast leiðir inn í tónlistarlífið. Þeir myndu finna þá tónlistarhæfileika sem byggju með þeim.

Þetta gekk eftir. En ekki nóg með það. Það merkilega var að nemendurnir fundu ekki aðeins tónlistartaugina sem í þeim bjó heldur sjálfa sig í víðari merkingu. Eftir því sem Kashmere Stage Band óx ásmegin varð sjálfstraust hinna ungu tónlistarmanna meira. En ekki aðeins fór meðlimum hljómsveitarinnar að ganga betur. Það átti almennt við um nemendur í hinum sigursæla skóla. Námsárangur í Kashmer Gardens skólanum tók nú að batna á öllum sviðum!

Skyldi vera einhvern lærdóm að draga af þessari sögu? Í mínum huga er svo. Í fyrsta lagi, að þegar sá sem ekki býr við sjálfstraust öðlast trú á sjálfan sig, virkjast orka sem hæglega getur orðið að miklu afli. Í öðru lagi, að þegar fólk finnur fyrir jákvæðni og uppbyggjandi anda í umhverfinu þá hefur það smitandi áhrif. Í þriðja lagi, að listirnar búa yfir undraafli.

Þegar þjóð lendir í þrengingum þá á hún að efla tónlistarfræðslu og þegar hópur þarf að ná saman þá á hann að spila og syngja. Þegar þjóð vill lyfta andanum þá greiðir hún götu bókmenntanna og þegar hún vill læra að hugsa utan ramma auk innan hans, þá eflir hún myndlistina.

Þess vegna gladdist ég þegar samið var við tónlistarkennara á dögunum þótt eflaust megi gera betur við þá. Þess vegna hef ég tekið undir með þeim sem vilja lága skattlagningu, ef þá nokkra, á bækur og þess vegna tek ég undir með þeim sem vilja ekki láta skerða framlög ríkisins til myndlistar. Þvert á móti eigi að auka þau.

Listirnar efla alla dáð engu síður en vísindin. Ekki bara við Kashmer Gardens skólann  í Houston. Þær gera það alls staðar!