Fara í efni

SJÁLFSTÆÐISMENN Á ALÞINGI: BANDAMENN FJÁRMAGNSINS


Erlendir fjármaálamenn eiga hér innilokaðar aflandskrónur frá braskárunum, sem Seðlabankinn álítur að sé á bilinu 400-500 milljarðar. Þeir vilja gjarnan komast með þetta fjármagn úr landi. Hvað það varðar eiga þeir góða bandamenn á Alþingi Íslendinga. Það höfum við fengið að heyra í málflutningi sjálfstæðismanna á Alþingi að undanförnu.

Efnhags- og viðskiptaráðherra hefur lagt fram frumvarp um framhald gjaldeyrishafta til fimm ára til varnar íslensku efnahags- og peningakerfi á meðan það stendur höllum fæti. Þessi fyrirhuguðu lög eru skýr skilboð til þessara aðila að ætli þeir sér úr landi með feng sinn þá sé ráðlegt að gera það nú á þeim kjörum sem í boði eru við núverndi gjaldeyrishömlur; þær séu ekki á förum. Samhliða hefur Seðlabanki Íslands hafið gjaldeyrisútboð þar sem þessum aðilum er boðið að komast út á mun lægra gengi en íslenskur almenningur á völ. Niðurstöður fyrsta útboðsins voru kynntar í gær og þar keypti Seðlabanki Íslands 13 milljarða af þessum erlendu aðilum á meðalgenginu 218 miðað við Evru. Þetta er aðeins fyrsta skrefið. Í framhaldi veltur hagur Íslands á því að við getum losað þessa spákaupmenn út á sem lægstu gengi svo við þurfum að gefa minna af erlendum gjaldeyri fyrir hverju krónu sem við kaupum af þeim. Hér er samt mikilvægt að hafa í huga að grundvöllurinn fyrir því að þessir menn vilji semja er sá að þeir sjái ekki fram á að geta losnað út með öðrum leiðum í bráð.

Eins mótsagnakennt og það kann að hljóma eykur lenging í höftunum líkurnar á því að hægt sé að afnema þau fyrr ef vel er á málum haldið. Það er gott. En það er gott svo langt sem það nær og er hér komið að bandamannaþætti þessarar frásagnar.
Bandamennirnir eru sjálfstæðismenn á þingi. Þeir vilja breytingar á lagafrumvarpinu í þágu krónuhöndlara sem hingað komu til að hagnast á ofurvöxtum sem hér voru við lýði. Næðu breytingatillögur sjálfstæðismanna fram að ganga myndi taflið snúast við fjármálabröskurum í hag en íslenskum almenningi í óhag.
Er gott að hafa gjaldeyrishöft? Að sjálfsögðu eru höftin ekki óskadraumur heldur nauðsyn nú við erfiðar aðstæður. En miðað við þær aðstæður sem uppi eru í þjóðfélagi okkar er hömlurnar nauðsynlegar og skynsamlegar - fyrir íslenskan almenning. Ekki hina sem Sjálfstæðisflokkurinn er að verja. En hann vill greinilega standa sömu vakt og hann hefur gert fyrir fjármagnið undanfarin tuttugu ár.