Fara í efni

SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN TEKINN VIÐ STJÓRN REYKJAVÍKURBORGAR


Ekki fer það framhjá nokkrum manni að stjórnarsamstarf  Íhalds og  og Framsóknar hefur nú tekið sér bólfestu í Ráðhúsi Reykjavíkur. Linnulaus fréttaflutningur í gær af áformum um mislæg gatnamót hér og þriggja hæða gatnamót þar minnti okkur á að stjórnarskipti hafa átt sér stað í Reykjavík.
Nú stjórnar Sjálfstæðisflokkurinn borginni en Framsókn styður allt það sem hann vill eftir að hafa þegið sínar sporslur og bitlinga: Sama mynstur og í Stjórnarráðinu.
Eflaust mun það gerast í samstarfi þessara flokka í borginni, eins og í ríkisstjórn, að Framsókn gerist enn harðdrægari í að framkvæma stefnumál Sjálfstæðisflokksins en sá flokkur myndi nokkurn tímann voga sér. Þannig má ætla að mislæg gatnamót á hverju horni verði innan tíðar helsta hugsjón Framsóknarflokksins og munu þá verða gleymd loforðin um "frítt í strætó fyrir alla", "250 þúsund á hvert mannsbarn fyrir söluna á hlut borgarinnar í Landsvirkjun", "50 þúsund í styrk til foreldra fyrir hvert barn á leikskólaldri",  að ógleymdu "skautasvelli á Perlu" og  "flughöfn á Lönguskerjum". Auðvitað er það nánast grínagtugt í fáránleika sínum að horfa upp á Framsóknarflokkinn lofa út og suður í kosningabaráttu en ganga síðan inn í stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn án umræðu um hin dýru loforð! Þetta er hins vegar ekki til að gera grín að. Þetta hagsmunabandalag Sjálfstæðisflokks og Framsóknar er dauðans alvara og af því þurfa Reykvíkingar að súpa seyðið næstu fjögur árin. Því miður.